Thursday, July 8, 2010

Stjórnlagaþing og stjórnarskrá

Það efast víst fáir um að það skipti máli hvernig stjórnarskráin lítur út. En margir ofmeta það hins vegar. Hún skiptir alveg máli, heilmiklu meira að segja, en aðalatriðið er samt hver fer með völdin í landinu. Þá á ég við hin raunverulegu völd, ekki hin formlegu völd.

Hvers vegna ætli frammistaða ríkisstjórnarinnar sé ekki betri en hún er? Kannski vantar viljann til að ganga gegn sérhagsmunum auðvaldsins -- en svo mikið er víst að getuna til þess skortir. Borgarastéttin stjórnar ríkisstjórninni nefnilega meira en ríkisstjórnin stjórnar borgarastéttinni. Það er borgarastéttin sem heldur uppi hinu borgaralega ríkisvaldi, og borgaralegt ríkisvald býður ekki upp á róttækar breytingar innan frá. Í mesta lagi svo miklar breytingar sem þarf til þess að það þurfi ekki að gera róttækar breytingar.

Að því sögðu er ekki sama hvernig borgaralega ríkisvaldið er rekið þangað til því verður steypt. Maður þarf að nota það sem maður hefur, og minnast þess að byltingin slær ekki kapítalismann niður og reisir upp sósíalískt þjóðfélag í einu höggi, heldur fer hún fram í þróun og stökkum, stundum hægt en stundum hratt, og á flestum vígstöðvum. Maður gerir ekki byltingu með því að breyta stjórnarskránni, en breytingarnar geta þó verið í rétta átt.

Íslenska stjórnarskráin og ríkið eru skondin fyrirbæri, byggð á Danmörku nítjándu aldar, sem var bæði tæknilega frumstæðari og mun fjölmennari en Ísland tuttugustu og fyrstu aldar, og konungsríki ofan í kaupið. Semsagt hannað fyrir þjóðfélag gerólíkt því sem við búum í. Umræðan skautar líka framhjá aðalatriðinu, völdunum í landinu. Til dæmis er þrískipting valdsins bara blaður. Það er auðvaldið sem ræður. Eða óháður Seðlabanki eða óháð Fjármálaeftirlit? Ekki óháð auðvaldinu, svo mikið er víst.

En með breytingum á stjórnarskrá (og öðrum lögum) má styrkja mannréttindi, styrkja lýðræði, þar með talið fullveldi ríkisins og yfirráð ríkisins yfir auðlindum og öðrum grunnstoðum hagkerfisins og þar með samfélagsins.

Nýja Ísland fæðist hins vegar ekki á fundum stjórnlagaþings.

No comments:

Post a Comment