Friday, September 17, 2010

Landsdómur: Erfitt fyrir alla?

Alþingismenn -- í það minnsta einhverjir þeirra -- barma sér yfir því hvað þetta landsdóms-mál sé erfitt fyrir þá alla. Hvað er þetta eiginlega, hvað er svona erfitt? Er eitthvað erfitt við það að draga fólk, sem allir vita að ber mikla sök, fyrir rétt? Er ekki hægt að framfylgja réttlætinu í þessu landi? Þeir einu sem ekki kannast við sök Geirs, Ingibjargar eða hinna eru fólk sem er annað hvort heilaþvegið eða hefur annarlegra hagsmuna að gæta, nema hvort tveggja sé. Foringjahollusta einstaklingshyggjumanna er, á dapurlegan hátt, aðdáunarverð. Geir sjálfur væri samt bara hlægilegur ef hann væri ekki svona sorglegur. Hann segist ekki bera höfuðábyrgð á því að hér hafi orðið hrun. Það var og. Ég man ekki eftir að hafa heyrt neinn nema hann sjálfan tengja hann við höfuðábyrgð á sjálfu hruninu. Svona útúrsnúningar eru annað hvort merki um aulahátt, ellegar þá um að hann álíti landsmenn þá aula að taka mark á þeim. Geir klúðraði hins viðbrögðunum við hruninu, sem hann bar ábyrgð á, bæði með heimskupörum og aðgerðaleysi. Já, og svo minnir mig að hann hafi haft eitthvert hlutverk í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, og það var víst ekki við að sækja samlokur fyrir Davíð. Ætli hann hafi ekki haft eitthvað að segja um uppbyggingu hinna háreistu spilaborga auðvaldsins?

No comments:

Post a Comment