Tuesday, October 5, 2010

Ríkið í sinni hreinustu mynd

Geir Jón sagðist vona að það yrðu ekki mikil mótmæli af því tagi sem voru í gærkvöldi og á föstudag, því það væri svo dýrt fyrir lögregluna að hafa svona mikinn viðbúnað.

Í fyrsta lagi: Viðbúnaður af þessu tagi -- að verja ráðamenn og ráðastétt, með valdi ef til þarf -- þetta er sjálfur kjarninn í eðli og hlutverki ríkisvaldsins. Þetta er það síðasta sem ríkið neitar sér um vegna kostnaðar. Þannig að ég get hughreyst Geir Jón, ef hann les þetta, og ef það er hægt að kalla það hughreystingu, með því að það verða alltaf til fjárveitingar til þess að halda úti þeirri valdstjórn sem þarf og/eða er hægt, þegar ólga er í þjóðfélaginu. Á meðan það er á annað borð starfandi ríkisvald á Íslandi, þá verða til fjárveitingar.

Í öðru lagi: Löggan tefldi í gær fram hér um bil öllu sem hún á, þykist ég vita. Sjálf valdbeitingin var kannski tiltölulega lítil miðað við aðstæður, en miðað við hvernig allt leit út, þá hefði verið í hæsta máta óábyrgt af löggunni að hafa ekki viðbúnaðinn á hæsta plani. Ég reikna með að það hafi ekki margir lögreglumenn setið heima og horft á spólu í gærkvöldi.

Það leiðir hugann að því, hvert raunverulegt vald löggunnar hérna er. Það eru ekki til nema nokkur hundruð löggur í landinu. Og enginn her. Það þyrfti ekki mikið skipulag til þess að koma á óöld sem væri ekki séns fyrir lögguna að ráða við. Ég meina, hvað eru mörg möguleg skotmörk í miðbænum, fyrir herskáa stjórnarandstæðinga?

Friðurinn í landinu er tæpur og fer eftir fólkinu sjálfu og engum öðrum. Það segir manni aftur að ríkisstjórnin getur ekki hunsað kröfur fólksins ef það er komið út í horn. Þannig að það er beinlínis hættulegt fyrir ríkisstjórnina -- ég meina sjálft fólkið í henni -- að hunsa svona mótmæli. Annars á einhver eftir að meiða sig alvarlega.

No comments:

Post a Comment