Friday, October 8, 2010

Ópólitíska byltingin

Ég hef aldrei skilið fólk sem heldur að það sé hægt að gera eitthvað "ópólitískt" í stjórnmálum. Hvað þá að það sé hægt að stjórna landinu ópólitískt eða jafnvel bylta ríkisstjórninni og endurskipuleggja hvernig landinu er stjórnað -- ópólitískt. Þetta ristir álíka djúpt og klisjan um að "allir" stjórnmálamenn séu vanhæfir eða að "allir" þingmennirnir ættu að segja af sér og svo ætti að fá nýja sem yrðu sko allt öðru vísi. Og ópólitískir.

Þessar klisjulegu alhæfingar eru samt ekki bara bjánalega, heldur eru þær líka hættulegar. Man einhver hver sagði "lýðræðið er rotnandi hræ"? Það var Mússólíní. Sá gat sko stjórnað, stétt með stétt, án "kjaftakvarna þingræðisins", af festu og einurð og ég veit ekki hvað. Fasisma á ekki að nota sem stuð-orð til að gagnrýna stöðumælavörðin sem sektar mann. Fasismi er raunverulegt fyrirbæri. Þeir sem horfa eftir trampandi stígvélum, örvakrossum eða mönnum með einglyrni munu ekki sjá fasismann, en þeir sem leita að stéttareðli hans eða pólitísku hlutverki -- þeir eru fljótir að sjá hann, svamlandi rétt undir yfirborðinu, bíðandi færis til að rísa upp og koma á röð og reglu.

Fasismi er misskilinn og hefur að sumu leyti fengið óverðskuldaða umfjöllun. Ef menn sjá fyrir sér svart-hvítar biðraðir af fólki í fangabúningum eða brúnstakka að smalla rúðum hjá skartgripasölum eða veðlánurum, þá er þetta ekki eitthvað sem "venjulegur" almenningur þarf að óttast. Fangabúðirnar og ofsóknirnar voru ekki ætlaðar millistéttinni, "venjulegu" fólki sem vinnur bara vinnuna sína, borgar bara skuldirnar sínar og kýs bara Flokkinn. Nei, þær voru í fyrsta lagi ætlaðar andófsöflunum og í öðru lagi óvinsælum minnihlutahópum. Óvinum fólksins, með öðrum orðum. Fólki sem skar sig úr.

Ólafur Þ. Stephensen nefndi það í leiðara í gær eða fyrradag, að það væri óhætt að loka eyrunum fyrir kröfum öfgaaflanna -- anarkistanna, kommúnistanna og nasistanna. Nú er ég reyndar vanur að loka eyrunum fyrir kröfum Ólafs Þ. Stephensens, en þarna birtist ljóslifandi tilraun hægriaflanna til að (a) spyrða róttæklinga saman við mannhatara, (b) nota öfga-samanburðinn til að afskrifa skoðanir anarkista og kommúnista og (c) gefa til kynna að "venjulegt fólk" hafi ekkert að gera í slagtogi við svona lið, eins og þessa nasista og þessa anarkista og svoleiðis.

Látum það liggja milli hluta að það eru anarkistar og vinstri-róttæklingar sem hafa öðrum fremur haldið fasistum í skefjum, allt frá upphafi og fram á þennan dag. Látum það líka liggja milli hluta að það voru anarkistarnir sem héldu við hefð and-fasismans á mánudaginn með því að brenna einn nasistafánann. Látum það líka liggja milli hluta þótt kröfur nasista séu hunsaðar eins og þær eiga að vera.

Það er ámælisvert af Ólafi að ætla að þagga róttæklinga niður með því að gefa í skyn að það sé ekki svo mikill munur á þeim og nasistunum. Sýnu verra er það þó sem margir aðrir gera, að taka undir þá skoðun með fasistunum, að "allir stjórnmálamenn séu eins" eða að eitthvað ópólitískt kjaftæði sé eina leiðin. Það er bara bull, hættulegt bull, og það er með hættulegu bulli af þessu tagi, sem leiðin til raunverulegs fasisma er vörðuð.

Eins asnalegt og það er, þá þjónar þessi andúð á stjórnmálum hægriöflunum. Ég skil ekki þá röksemdafærslu að fyrst allir stjórnmálamenn séu spilltir, þá sé eins gott að kjósa hægriflokkana. En það er eins og einhver hugrenningartengsl séu milli stjórnmála og vinstristefnu. Nóg er að nefna það, að menn skuli skipta mótmælendunum á mánudagskvöldið í "venjulegt fólk" annars vegar og svo "vinstriróttæklinga og nasista" hins vegar. Það felst væntanlega í því að þau almennu hægrisinnuðu sjónarmið sem þarna varð vart við flokkist undir "venjulegt fólk" að tjá sinn "ópólitíska" hug um hvernig allir þessir stjórnmálamenn séu.

Það er hættulegt að útbreiða þá hugsun að vilja enga pólitík, bara stétt með stétt, og engar þingræðiskjaftakvarnir heldur bara röggsemi og festu. Má ég þá heldur biðja um krata sem vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga.

2 comments:

  1. Kristín í ParísOctober 9, 2010 at 8:05 AM

    Mjög góður pistill, takk. Ég held, af því sem ég sé t.d. á feisbúkkvinahópnum mínum, að þeir sem harðastir eru til vinstri, eru þeir sem virkilega hafa hugsað málið, spekúlerað og tekið pólitíska afstöðu. Þau sem eru hörðust til hægri, er (sorrí, ég get hljómað fordómafull, en þetta er samt staðreynd) frekar svona minna menntað fólk sem var hreinlega alið upp við að kosið var til hægri heima hjá því og nú lepur þetta fólk upp þessa ömurlegu frasa sem benda til þess að Icesave sé Össuri að kenna og að vinstrið sé stórhættulegt villidýr sem þurfi að aflífa undireins. Þess vegna er einhvern veginn pólitískara að vera til vinstri. Á þessu eru vitanlega áberandi undantekningar. Vinalistinn minn á feisbúkk inniheldur amk þrjá harða hægrimenn sem hafa virkilega lesið sér til og hugsað málið, eru sumsé mjög pólitískir hægrimenn. Megnið af þeim er þó bara hreinlega óupplýst (og latt) fólk, sem hefur enga skoðun, bara "trúarlega" sannfæringu.

    ReplyDelete
  2. Gott þetta, Vésteinn. Ég var búinn að gleyma blogginu þínu en gott að sjá að þú bloggar af fullum krafti.

    ReplyDelete