Wednesday, February 24, 2010

Vandinn er kerfið, ekki persónurnar

Fjárglæframenn hafa leikið land okkar hart, því neitar enginn. Verðskulda þeir ekki að vera dregnir til ábyrgðar á einhvern hátt? Að sjálfsögðu. Leysis þá vandamálið? Aldeilis ekki. Fólk sem ver kerfið segir að kreppan stafi af siðferðisbresti, klaufaskap eða kynhormónum. Sannleikurinn er hins vegar sá að að kreppa er innbyggð í auðvaldsskipulagið og hvort er öðru háð. Auðvaldsskipulag án kreppu er óhugsandi. Fjármálakreppa er bein afleiðing af upphleðslu auðmagns og af lögmálinu um lækkandi gróðahlutfall þess. Eina leiðin út úr kreppunni er leiðin sem liggur út úr auðvaldsskipulaginu. Það er því rétt í sjálfu sér sem stjórnvitringurinn Geir H. Haarde sagði, að það ætti ekki að persónugera vandann. Vandinn er kerfið. Ef fjárglæframenn geta notað kerfið til að leika almenning grátt og hagnast á því sjálfir, þá munu þeir gera það. Þótt allir auðmenn landsins væru settir á bak við lás og slá, en kerfið látið standa óbreytt, þá yrðu til nýir auðmenn og ný kreppa. Þeir eiga að sæta ábyrgð, en það dugir ekki til. Ranglátt og heimskulegt efnahagskerfi á einfaldlega að afnema og setja í staðinn upp efnahagskerfi sem byggist á réttlæti og skynsemi.

No comments:

Post a Comment