Wednesday, March 16, 2005

Wolfowitz tilnefndur sem forseti Alþjóðabankans. Bush segir að hann sé "brjóstgóður og heiðarlegur" ... en Bush er nú ómerkur orða sinna eins og dæmin sanna. Ég get varla hugsað mér verri kandídat en Wolfowitz til að stýra Alþjóðabankanum. Á hinn bóginn, þá býst maður við að hann verði fyrir valinu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Merkilegur annars þessi yfirlætislegi sjálfbirgingsháttur og hrokafulla stærilæti Vesturlandabúa þegar málefni þriðja heimsins eru annars vegar. Allra bragða er neytt til að hafa tangarhald á fátækum löndum svo hægt sé að arðræna þau. Fátæk lönd eru gagnrýnd fyrir að hafa spillt og óskilvirk stjórnkerfi ... en hvernig er hægt að reka skikkanlegt stjórnkerfi þegar hvorki eru til peningar né stétt menntamanna? Spilling er síðan hugtak sem getur verið vafasamt að alhæfa of mikið um. Það getur t.d. verið fín lína milli spillingar og trausts. En það er auðvelt fyrir okkur Vesturlandabúa að benda á gallana í þriðja heiminum úr þessum fullkomnu löndum okkar. Það er ekkert að hjá okkur, er það nokkuð? Við megum gagnrýna af því við erum fullkomin, ekki satt?
Bandaríkjastjórn talar um mannréttindi og alþjóðalög eins og hún standi ofar í brekku siðferðisins (e. moral high ground) en Íran, Sýrland og fleiri lönd ... kaldhæðnislegt til þess að hugsa. Ríki sem hefur hærra hlutfall af þegnum sínum á bak við lás og slá en nokkuð annað, tekur börn af lífi og starfrækir pyndingabúðir um víða veröld og hefur útboð til að finna hagkvæmasta verktakann til að sjá um pyndingarnar. Talar svo um að draga menn eins og Saddam fyrir rétt, en neita sjálfir að taka þátt í Alþjóða stríðsglæpadómstólnum og hunsa samþykktir Sameinuðu þjóðanna eins og þá lystir.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Enski fundurinn í gærkvöldi heppnaðist ágætlega, held ég. Mætingin var frekar góð. Ögmundur Jónsson talaði um kúbönsku byltinguna og stöðu hennar í dag, m.a. með tilliti til Venezuela og þróunarinnar þar. Mér fannst hann flytja mál sitt skörulega og ítarlega og fróðlegt á að hlýða. Eftir tvær vikur, 29. mars, mun Valur Gunnarsson halda enska framsögu um íslensku málaliðana í Afghanistan.

No comments:

Post a Comment