Friday, March 11, 2005

Ég geng úti á götu, og sé framundan mér kunningja minn og hann sér mig. Tveim metrum fyrir aftan hann gengur annar kunningi minn. Hann sér mig líka, en þeir þekkjast ekki. Hvað geri ég? Get ég kinkað kolli til annars en tekið hinn tali? Get ég heilsað báðum jafnt og móðgað báða með því að taka hvorugan tali? Get ég ávarpað þá báða í einu: "Sælir"? Get ég snúist á hæli, hlaupið burt og orðið aðhlátursefni eða undrunarefni beggja?
Ég þoli ekki þegar þetta gerist. Í gærkvöldi slapp ég naumlega: Rakst fyrst á frv. vinnufélaga og andartaki síðar á þessa gömlu sál en með nægilegu millibili til þess að staðan yrði alls ekkert afkáraleg. Heppni var það.

Meðal annarra frásagnarverðra atburða gærdagsins má nefna (í tímaröð):
* Hóf daginn á neytendakönnun hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og át 200 g af eintómum soðnum þorski. Það var reyndar síður en svo slæmt.
* Gekk frá lausum endum varðandi ýmislegt sem ég er að bauka.
* Fór erinda Hins íslenska tröllavinafélags og keypti fundargögn í verslun einni í Austurstræti.
* Lærði að tefla hnefatafl.
* Fékk snillinginn Þórarinn haka til að búa til þetta plakat.
* Sá Eddie Izzard. Hann var skemmtilegur. Þorsteinn Guðmundsson og Pétur Jóhann Sigfússon hituðu upp. Þeir voru líka skemmtilegir.
* Tók mína fyrstu næturvakt á Grund. Það er skemmst frá því að segja, að ég lít svo á að ég sé ennþá að leita mér að nýrri vinnu.

No comments:

Post a Comment