Tuesday, March 22, 2005

Palestína, Kyrgyztan, Fischer, Zimbabwe og fleira...


Ég bendi fólki á að líta á þessa fréttatilkynningu á heimasíðu Félagsins Íslands-Palestínu. Yfir stendur ferð alþingismanna og verkalýðsleiðtoga og hlýtur að vera hin fróðlegasta ... sjálfur hefði ég ekkert á móti því að vera með í hópnum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ísraelar yfirgefa Tulqarem um leið og þeir lýsa yfir áformum um að byggja 3500 ný heimili í landtökubyggðum á Vesturbakkanum. Ég verð að segja hreint út hvernig málið horfir við mér: Ég held að Mahmoud Abbas sé hjálpað svona vegna þess að hann sé hálfgerður leppur fyrir Ísrael. Hann er pólitísk málamiðlun milli ísraelsku valdastéttarinnar og þeirrar palestínsku. Hlutverk hans er að friða þá sem berjast fyrir frelsi Palestínu, og í skiptum fær palestínska borgarastéttin stærri hlut í völdum yfir Palestínu. Palestínumenn hafa lengi barist fyrir frelsi sínu sem Palestínumenn, að palestínska þjóðin verði frjáls, en í staðinn verið haldið aftur af þeim í annarri frelsisbaráttu, svo sem baráttu kvenna fyrir frelsi sem konur eða baráttu samkynhneigðra fyrir frelsi sem samkynhneigðir. Umfram allt hefur verið haldið aftur af baráttu fólks fyrir frelsi sem fólk: Baráttu gegn stéttaskiptingu, mismunun, arðráni og kúgun almennt. Sú barátta væri þver-þjóðleg og byggði á samstöðu palestínsku undirstéttarinnar með undirstétt Ísraels, Jórdaníu, Egyptalands, Sýrlands og annarra landa, fyrir frelsi, lýðræði, jafnrétti og félagshyggju í Miðausturlöndum. Allar eða flestar greinar valdastéttarinnar reyna að sporna við þessari baráttu. Henni hefur ítrekað verið beint af sporinu með því að veita baráttuandanum í farveg þjóðernis eða trúar ... núna sjá valdhafar beggja vegna sér hag í að lægja öldurnar, lýsa yfir friði, yfir sigri lýðræðisins og eitthvað, þótt almenningur í Palestínu verði áfram jafn hrikalega illa settur í aðalatriðum. Múrinn er ekkert að fara. Ekki landtökubyggðirnar. Ekki fá flóttamennirnir að snúa heim og Austur-Jerúsalem sjá menn áfram í hillingum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Bróðir minn bloggar um mótmælin síðasta laugardag.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ef rétt er hermt er stórfrétt á ferðinni: Kaþólska kirkjan í Bandaríkjunum mótfallin dauðarefsingum! Sú trénaða, steinrunna miðalda and-húmanistastofnun er annars ekki vön að skipa sér í "góða" liðið.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Akayev, forseti Kyrgyztan, segir að mótmælendur séu á snærum glæpamanna og séu að reyna valdarán. Hmm ... ætli það segi ekki flestir átókratar í fátækum löndum um kúgaða undirsáta sína? Ég held að Akayev sé nú ekkert til að hrópa húrra fyrir, en hef samt varann á með mótmælin. Í alvörunni, hverjir standa á bak við þau? Þau gætu verið sjálfsprottin, en í ljósi nýlegra atburða í Georgíu, Úkraínu, Líbanon, Júgóslavíu, Zimbabwe, Venezuela og víðar, þá uggir mann óneitanlega að Vesturlönd hafi hönd í bagga.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Bandaríska sendiráðið setur á svið vonbrigði utanríkisþjónustunnar með framkomu Íslendinga í máli Bobby Fischer. Svona gekk þetta fyrir sig: Davíð Oddssyni fannst þrengja að sér vegna gífurlegrar óánægju með Íraksstríð og aðra skandala ... svo hann spurði hvort hann mætti flikka upp á ímyndina með því að veita Fischer hæli. Spurði Bandaríkjastjórn. Hún játti því, að launa dyggum stuðningsmanni stuðninginn sem hann veitti þótt á móti blési, en gat auðvitað ekki gert það öðruvísi en að gera sér upp vonbrigði og mótbárur.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ættbálkaklofningur er sagður vera að koma upp innan Zanu-PF, flokks Mugabe í Zimbabwe. Stjórnarandstöðuflokkurinn sem kallar sig Movement for Democratic Change og hefur heiðursmenn á borð við Ian Smith innan borðs á án efa eftir að ýta undir slíkan klofning og nýta sér hann út í æsar þegar fyrirhugaðar forsetakosningar nálgast. Líkaböng vestrænt-sinnaðs sýndar-lýðræðis hringir yfir Robert Gabriel Mugabe.
Tveir Zimbabwe-tengdir linkar: ZANU-PF, Zimbabwe og ZWNEWS, Zimbabwe.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Thomas Friedman, sá óviðfelldni karl, stingur upp áayatollah Sistani verði veitt friðarverðlaun Nóbels. Ég skrifa ekki undir ástæðurnar sem Friedman tilgreinir, en ég er samt ekki frá því að Sistani gæti verið rétti maðurinn til að fá verðlaunin.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Khameini erkiklerkur í Íran segist reiðubúinn að berjast sjálfur ef ráðist yrði á landið. Það væri athyglisvert að sjá. Fjörgamlan manninn. Ég spyr mig samt, er Íran ekki orðið of óárennilegt til að Bandaríkjamenn leggi í að ráðast á það?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Frá Nepal er það að frétta, að maóistar hafa víst viðurkennt að hafa myrt Dhana Bahadur Rokka Magar, fréttamann í ríkisútvarpi Nepal, fyrir rúmum tveim árum síðan.
Tveir uppfærðir linkar um Nepal: Opinber heimasíða maóistaflokksins og Sameinaðir marx-lenínistar (=stalínistar). Auk þess nýr Nepals-linkur: Nepal News, sem er opinber fréttastofa.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Einn linkur enn: Fréttamenn án landamæra.

No comments:

Post a Comment