Saturday, March 5, 2005

Aðeins um ellefta september tvöþúsund og eitt


Í Silfri Egils á morgun, sunnudag, verður Elías Davíðsson meðal gesta og talar um 11. september 2001, og efasemdir um opinberar skýringar á atburðum þess örlagaríka dags.

Opinbera sagan um atburði dagsins, sem Bandaríkjastjórn hefur haldið fram og allir þekkja, hefur verið gagnrýnd af ýmsum. Menn hafa látið í ljósi margvíslegar efasemdir um réttmæti hennar, talið hana ýmist ófullnægjandi, ótrúverðuga eða beinlínis tortryggilega. Skiljanlega hefur efasemdamönnum stundum verið róðurinn þungur, og hafa margir orðið til þess að mótmæla þeim.

Ég vil ekki líta á umfjöllunina um 11. september eins og fótboltaleik, þar sem formælendur opinberu sögunnar og formælendur efasemdamanna eru eins og tvö lið og annað liðið hlýtur að vinna, hitt að tapa. Þvert á móti: Gagnkvæm gagnrýni, svo lengi sem hún er á málefnalegu, heiðarlegu og jarðbundnu nótunum, skilar okkur nær sannleikanum.
Matti Á. er einn þeirra sem hafa mótmælt efasemdamönnum. Um daginn bloggaði hann færslu um 11. september sem ég hvet fólk til að lesa áður en lengra er haldið. Matti vísar í skrif Elíasar Davíðssonar um 11. september, sem ég hvet fólk líka til að lesa. Auk þess er texti sem, að vísu, er talsvert lengri, en einnig mikilvægur að lesa, sem er grein á Popular Mechanics.

Efasemdamenn hafa tekið fyrir fjölda atriða sem þeim hafa þótt tortryggileg, haldið fram veikleikum í opinberu sögunni, bent á óeðlileg hagsmunatengsl, óeðlileg vinnubrögð, hvernig stjórnvöld hafa lagt stein í götu rannsakenda, hvernig ýmis tæknileg atriði eru vafasöm og hvernig áróðri hefur verið beitt til hins ítrasta.
Aðrir hafa tekið fyrir og hrakið ýmislegt sem haldið hefur verið fram af efasemdamönnum, og tekið annað fyrir án þess að geta hrakið það. Eftir stendur að sum gagnrýnin virðist hafa verið ástæðulaus og færst of mikið í fang, meðan önnur gagnrýni er óhrakin og tortryggnin virðist vera á rökum reist.


Ég ætla aðeins að tjá mig um það sem Matti skrifaði síðast um þetta. Matti segir Elías „fabúlera“ og að skrif hans um 11. september séu „margtuggið kjaftæði“ og ég verð að segja að mér finnst málflutningur Matta um þetta mál gjarnan líta út fyrir að hann sé ákveðinn ísvona sé þetta, opinbera skýringin sé, a.m.k. í aðalatriðum, rétt, og að menn fabúleri og tyggi upp kjaftæði þegar þeir tjá efasemdir sínar. Svona kemur þetta mér fyrir sjónir og vona að mér fyrirgefist að segja það umbúðalaust.

Ég skrifaði komment á færslu Matta. Ég skrifaði:
Það er margt gruggugt við 11. september. Þegar menn fara að sökkva sér í atburði þess örlagaríka dags er hins vegar auðvelt að gleyma sér og sjá merki um eitthvað óeðlilegt þar sem engin merki eru. Gagnrýnin hugsun þarf að virka í báðar áttir: Þótt margt sé gruggugt varðandi 11. september er ekki þar með sagt að það sé allt gruggugt við hann, eða að allar hugmyndir sem efasemdamenn hafa séu sannar. Mál efasemdamanna hafa verið reifuð ítarlega, og þótt ekki sé allt á rökum reist eru samt nógu margar stoðir eftir undir málinu til að það standi. Þessi grein á Popular Mechanics er að sönnu vel þess virði að lesa hana, og í henni kemur ýmislegt fram sem menn hljóta að leggja hlustir við, en engu að síður hrekur hún alls ekki allan málflutning efasemdamanna.
Matti svaraði mér:
en engu að síður hrekur hún alls ekki allan málflutning efasemdamanna.
Ekkert mun hrekja allan málflutning efasemdarmanna í þessu máli.
Það er kjarni málsins.
...og ég svaraði aftur:
Kjarni málsins er sá að það er í alvörunni ýmislegt í kring um 11. september sem er tortryggilegt, svo ekki sé meira sagt. Það er full ástæða til að beina ljóskösturunum gagnrýninnar að því sem fór fram þann dag. Full ástæða til þess. Ef það eru alvarlegir brestir í opinberu sögunni, þá ber okkur að berja í brestina og reyna að komast nær sannleikanum.

Fyrir nokkrum árum skrifaði Matti aðra færslu, um árásina á Pentagon, sem hann vísar í sjálfur. Vegna þess að hann tekur fyrir nokkra punkta ætla ég að taka sömu punkta fyrir:
Fullyrðingar um að ekkert brak af vélinni sé á staðnum eru rangar.
Ég er ekki kunnugur fullyrðingum um að ekkert brak af flugvél hafi verið á svæðinu. Hins vegar er brakið sem sést á myndinni ekki endilega brak úr farþegaflugvél. Það er þarna brak úr fljúgandi tæki sem fór í Pentagon, en er þar með sagt að þar sé um að ræða farþegaflugvél? Nei. Nei, og reyndar mun þetta brak á myndinni ekki passa við farþegaflugvélina sem á að hafa flogið á Pentagon. Það samsvarar ekki neinu stykki af henni. Þetta stykki eykur m.ö.o. ekki trúverðugleika farþegaflugvélar-sögunnar, heldur dregur úr honum.
Matti skrifar:
Vitni. Tugir ef ekki hundruðir manna urðu vitni að því þegar vélin flaug inn í bygginguna.
Já. En athugum eitt: Allir nágrannar Reykjavíkuflugvallar kannast við gnýinn þegar þotur fljúga yfir miðbæinn. Þessi gnýr fer ekki framhjá neinum þótt hann sé nokkur hundruð metra í burtu frá sjálfri vélinni. Það fer engum sögum af þotugný í meintri farþegaflugvél, og það þótt hún hafi næstumþví sleikt bílþökin í (með ólíkindum kröppu) aðfluginu að Pentagon. Að auki verður að segjast um sjónarvottana, að (a) þegar flugvél á nokkur hundruð kílómetra hraða flýgur framhjá manni í lítilli fjarlægð þá sér maður henni bregða fyrir, ekki meir og að (b) það er vel þekkt í sálfræði, hvernig minni fólks getur brenglast af því sem það býst við að það eigi að muna, og af áhrifum af þeim sem yfirheyra það.

Matti skrifar:
Af hverju sést ekkert brak af flugvélinni á vefnum hér fyrir ofan? Vegna þess að myndirnar eru teknar þar sem ekkert brak sést og vegna þess að þegar flugvél flýgur í jörðina verður yfirleitt ekkert mikið af auðþekkjanlegu braki eftir. Gera má svo ráð fyrir að töluvert af brakinu hafi lent í eldhafinu. Þrátt fyrir allt þetta er fullyrðingin um að ekkert brak hafi verið á vettvangi röng.
Vegna þess að myndirnar eru teknar þar sem ekkert brak sést? Augljóslega sést ekki brak á mynd sem er tekin þar sem ekkert brak sést. Þessi mynd segir því lítið. Það hefði verið nær að koma með mynd þar sem brak sæist. Eini gallinn við þær er að þær frekar fáu myndir sem eru til sýna ekki brak úr farþegaflugvél! Þegar farþegaflugvél kemur fljúgandi og brotlendir, þá gufar hún ekki upp. Það verður kannski lítið eftir af auðþekkjanlegu braki þegar hún springur í háloftunum, en þegar hún lendir í heilu lagi framan á húsi, þá er það barnalegt að halda að hún hverfi bara. Það ætti ekki að gera brakinu mikið til þótt það hafi lent í eldhafinu, enda er bræðslumark á áli mun hærra en svo að það bráðni í brennandi flugvélabensíni eða öðru kolefniseldsneyti.
Þess má auk þess geta, að eldhafið leit ekki út eins og við mætti búast af eldkúlu af brennandi kolefniseldsneyti, heldur var það áþekkara sprengingu, sem hagar sér mikið öðruvísi. Fá hús í veröldinni eru jafnvel vöktuð með myndavélum og Pentagon. Samt sögðu yfirvöld í fyrstu að engar myndir hefðu náðst af flugvélinni. Það var seint og síðarmeir dregið til baka, og nokkrar myndir birtar – en á engri þeirra sást vélin sjálf! Það er engu líkara en að þær hafi verið valdar sérstaklega úr til þess að ekki sæist í það sem flaug á Pentagon!
flugvélin flaug ekki beint inn í bygginguna, heldur lenti á stéttinni rétt fyrir framan hana.
Fyrir framan staðinn sem flogið var á er ekki stétt heldur grasflöt. Það sést á grasflöt þegar farþegaflugvél plægir sig ofan í hana. Það hafði engin farþegaflugvél plægt sig ofan í þessa grasflöt.

Ég veit ekki hvað Matti nennir að elta ólar um atburði hins 11. september 2001, en fyrst hann vekur máls á þessu sé ég mig knúinn til að svara honum eftir minni bestu vitund. Ég skil vel að mönnum finnist málflutningur efasemdamanna pirrandi, enda er hann (málflutningurinn) oft óvæginn, oft hefur maður heyrt einhverju haldið fram, þar sem of mikið er færst í fang, en síðast en ekki síst er hreint og beint óþægilegt til þess að hugsa að stjórnvöld séu að hylma yfir með glæpamönnum af verstu sort, eins og voru að verki 11. september. Það er fjarska eðlilegt að bregðast við eins og Matti og aðrir gera, og mótmæla efasemdamönnunum. Gagnrýni sem er á rökum reist er vitanlega af hinu góða, og þannig hefur líka verið hrakið ýmislegt sem haldið hefur verið fram um 11. september. Ýmislegt, en margt stendur óhrakið.

Þá, sem eru forvitnir um málflutning efasemdamanna, skora ég á að koma í Snarrót í Garðastræti næst þegar myndin Painful Deceptions er sýnd. Í henni er tekið fyrir margt varðandi 11. september, og sýnt fram á að það væri með hreinustu ólíkindum að það gæti staðist í alvörunni. Mörg atriði. Já, eftir því sem ég best veit hafa sum þeirra verið hrakin. Sum. Önnur hafa verið gagnrýnd án þess að vera hrakin með óyggjandi hætti, og önnur hafa hreint ekki verið hrakin. Ég skora á þá sem eru forvitnir um þetta að koma í Snarrót næst þegar Painful Deceptions er sýnd. Ég mun tilkynna það hér á bloggi mínu (kannski víðar) um leið og ég veit dagsetningu.

No comments:

Post a Comment