Tuesday, March 15, 2005

Það er einn svipur sem ég set oft upp, án þess að nein sérstök ástæða sé fyrir því, svipur sem ég er satt að segja ekki viss hvað þýðir. Ég hef notað hann árum saman án þess að vera viss um hvaðan hann kom upphaflega. Ég hef séð menn setja hann upp, svipað því sem ég geri, yfirleitt skeggjaða menn, og frekar tannlausa en tennta. Þennan svip er auðveldara að gera ef maður er tannlaus, en hann fer betur ef maður er vel skeggjaður.
Í gær var ég á gangi heim til mín utan úr háskóla - með svipinn góða á andlitinu - og fór yfir Hringbraut hjá Landsbókasafninu. Þar sem ég geng yfir túnið fyrir sunnan kirkjugarðinn verður mér litið upp og sjá: Ég horfðist í augu við mann með sama svip og ég. Styttan "Útlaginn" er með nákvæmlega sama svipinn. Þetta er semsagt útlagasvipurinn og verður aldrei nefndur annað hér eftirleiðis.

No comments:

Post a Comment