Wednesday, March 23, 2005

Það var að koma út bók eftir chechenska skæruliðaleiðtogann Shamil Basayev. Hún gæti verið forvitnileg, án þess að ég sé hrifinn af höfundinum. Ég harma það hvernig íslömsk áhrif verða stöðugt sterkari í chechensku andspyrnuhreyfingunni, hvernig afturhaldssöm trúarbrögð lita baráttuna. Í sjálfu sér er það ekki skrítið; bæði eru trúarbrögðin eitt af því sem greinir íslamska Chechena frá hinum grísk-kaþólsku Rússum og þær andstæður skerpast í svona þjóðfrelsisstríði -- samanber íslam-væðingu palestínsku andspyrnunnar og írösku andspyrnunnar gagnvart óvinum sem eru upp til hópa annars vegar gyðingar, hins vegar krysslingar. Ég harma það samt. Ég renndi yfir grein sem var skrifuð eftir morðið á Aslan Mashkadov. Í henni var sagt að honum hefði undir það síðasta "farið mjög fram í íslam, lært arabísku og stúderað Kóraninn" ... áróður? Sannleikur? Mashkadov var, eftir því sem ég best veit, sekúlar leiðtogi eins og Dudayev á undan honum. Lesið um Sheikh Abdul-Halim, nýja leiðtogann ... ég sé ekki að chechensku andspyrnunni sé fengur í honum sem leiðtoga... Allavega, þá hefðu menn betur haldið í sovéska guðleysið sem þar til fyrir 10-15 árum var ráðandi í Checheníu. Halda í guðleysið og slaka á í trúarlegri þjóðernisstefnu. Hún kann ekki góðri lukku að stýra.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það virðist töluverð erlend athygli beinast að þessu Fischer-máli.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Um daginn sagði í frétt á vef-Mogga:
Pétur Blöndal, Sjálfstæðisflokki, sagði að RÚV væri eign ríkisins en ekki þjóðarinnar og á því væri mikill munur. Út í hött væri að segja, að þjóðin ætti RÚV. Pólitík stjórnaði ríkinu og ríkið ætti RÚV og þess vegna verði RÚV alltaf pólitískt.

Ég kann að meta hreinskilnina hjá Pétri Blöndal, hvað sem líður öðru við málflutning hans... Það er hárrétt hjá honum að ríkið er ekki sama og þjóðin. Ríkið er eitt af helstu tækjum valdastéttarinnar til að meðhöndla völdin yfir undirstéttinni. Það er það sem borgaraleg stjórnmál snúast um, þegar öllu er á botninn hvolft.

No comments:

Post a Comment