Saturday, March 5, 2005

Bókamarkaður í Perlunni og tröllavinir


Ég fór í dag á bókamarkað í Perlunni og gerði góð kaup. Fór eftir það á stjórnarfund í Hinu íslenska tröllavinafélagi.

Hið íslenska tröllavinafélag er komið með heimasíðu sem að vísu er bara til bráðabirgða, en þó ágæt sem slík. Slóðin er www.trollavinafelag.blogdrive.com og eins og menn ættu að vita núna, er félagið einnig með netfang: trollavinafelag@gmail.com.

Önnur vettvangsferð Hins íslenska tröllavinafélags


verður farin laugardaginn 12. mars. Farið verður á slóðir Jóru tröllkonu milli Selfoss og sunnanverðs Þingvallavatns.
Jóra tröllkona var í upphafi mennsk stúlka úr Flóanum og var uppi á tólftu öld (sumir segja tíundu). Faðir hennar átti hest í hestaati, og fór hann halloka fyrir hinum hestinum. Jórunn trylltist þá, vatt sér inn í hringinn og reif læri undan hinum hestinum. Viðstaddir skelfdust, en Jórunn reif upp jarðfast bjarg, kastaði út í Ölfusá og stiklaði síðan yfir ána, þar sem síðan heitir Tröllkonuhlaup, einnig nefnt Jóruhlaup. Jórunn spretti úr spori uns hún kom upp í fjallið Hengil, sunnan Þingvallavatns, og þar lagðist hún út í helli og varð hin versta viðskiptis og mörgum að bana. Á endanum tókst manni einum að ráða henni bana.

Á þetta svæði er förinni heitið. Fyrst á Selfoss og svo eftir þjóðvegi 360, sem liggur upp á Mosfellsheiði. Jóruhlaup, Jórukleif, Jórusöðull, Jórutindur og aðrir staðir sem tengjast sögunni verða heimsóttir. Það verður lagt snemma í hann og hver og einn hefur með sér nesti. Eins og gefur að skilja vitum við ekki enn hvernig veðrið verður, en við fylgjumst með veðurfréttum og búum okkur vel. Góðir skór skipta miklu ef gengið er á Jórutind eða eitthvað upp í Hengilinn. Hlý föt, góðir skór, þurrir sokkar og nesti. Annað eftir þörfum hvers og eins.

Í síðustu ferð tókum við strætó, en um þjóðveg 360 gengur enginn strætó. Við þurfum því að vita með nokkrum fyrirvara hversu margir ætla með, svo við getum farið á farartæki við hæfi. Þeir sem ætla að koma með þurfa að tilkynna það eigi síðar en að morgni miðvikudags 9. mars.

Best er að fólk hafi samband við félagið: trollavinafelag@gmail.com og tilkynni þátttöku netleiðis. Fólk er velkomið þótt það sé ekki með í félaginu. Þátttökugjaldi verður stillt í hóf: Aðeins 900 kr. fyrir borgandi félagsmenn, 1100 fyrir aðra. Hægt verður að borga félagsgjald á staðnum (1500 kr.) og jafnvel ganga í félagið, þeir sem það vilja.
Fólk er hvatt til að láta sjá sig í þessari skemmtilegu ferð!

Í alvöru, látið vita tímanlega ef þið ætlið með, svo við verðum á nógu stóru farartæki til að rúma alla! 9. mars, ekki seinna!

No comments:

Post a Comment