Wednesday, March 30, 2005

Vegna yfirstandandi umræðu um rekstur Landspítala-háskólasjúkrahúss, þá vil ég hér með votta það, að eftir mínum kynnum af þeirri stofnun að dæma, þá tek ég undir með yfirlæknunum sem segja að hún sé illa rekin. Yfirbyggingin er allt of mikil, innra stigveldi gerir reksturinn firrtan og þunglamalegan, skriffinnska tefur og flækir, reynt er að spara með útboðum á m.a. hreingerningum, sem skila sér í freklegu arðráni á starfsfólki, og almennt starfsfólk hefur lítið að segja um sín störf. Og hvað, ætti að einkavæða þetta? Nei. Það ætti að reka helminginn af skriffinnunum, þrjá fjórðu af millistjórnendunum, og stokka þetta upp alveg frá grunni. Ég skal með ánægju taka það að mér ef heilbrigðisráðuneytið vill ráða mig til þess arna. Sjúkrahús þarf að vera almennilegur vinnustaður og veita almennilega þjónustu sínu samfélagi.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ef það er rétt sem spáð er, að Frakkar muni fella stjórnarskrá ESB, þá held ég að ástæða sé til að fagna, í bili. Þessi stjórnarskrá á sjálfsagt eftir að hljóta samþykki fyrr eða síðar, en mér skilst að hún sé ógæfuplagg. Hvaða stjórnarskrá kveður á um að efnahagskerfið skuli vera kapítalískt? Eftir því sem ég kemst næst gerir ESB-skráin það.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Annað slæmt varðandi ESB, ESB samþykkir Wolfowitz: „Wolfowitz segist [vilja] berjast gegn fátækt“ ... einmitt, berjast gegn fátækt. Þeirra ríkustu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Rasismi færist í aukanna, a.m.k. í yngri kynslóðum. Það kemur í sjálfu sér ekki mikið á óvart. Meiri blöndun menningarheima hlýtur að skerpa andstæðurnar, á sama tíma að auka umburðarlyndi sumra og hún minnkar umburðarlyndi annarra. Ég held að rasismi hætti ekki að vera vandamál meðan skoðanamyndandi stéttin lætur stjórnast af borgaralegum kapítalisma. Hins vegar held ég að rasismi yrði fljótur að heyra sögunni til ef fólk væri bólusett gegn honum með bestu bólusetningunni: Stéttarvitund og skilningi á mikilvægi þess að vinnandi fólk um veröld víða standi saman gegn kúgurum sínum. „Tryggð við föðurlandið“ eða „kynþáttinn“ er ekkert annað en (lítið) dulbúin tryggð við höfðingjastéttina, við elítuna. M.ö.o. þjónar slík tryggð elítunni og vinnur gegn hagsmunum vinnandi fólks.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Annað dæmi um afleiðingar blindrar græðgi auðvaldsskipulagsins er þessi svarta skýrsla. Peningakvarnir kapítalismans mola sundur náttúruna og stunda skefjalausa rányrkju á auðlindum - og fólki. Afraksturinn er sá að vistkerfunum er fórnað fyrir eigingjarnan stundargróða.

No comments:

Post a Comment