Sunday, March 20, 2005

Gagnrýni og sjálfsgagnrýni í stjórnmálum


Málefnaleg gagnrýni á grasrótarstjórnmál og annað stjórnmálavafstur er hverri hreyfingu nauðsyn. Sjaldan er árangurinn svo góður að ekki sé hægt að gera betur og sjaldan er reynsla svo ómerkileg að ekkert megi læra af henni. Gagnrýni á ekki að snúast um að gera lítið hvert úr öðru eða hvert úr annars störfum. Hún á að benda á styrkleika og veikleika, svo að leggja megi rækt við styrkleikana en finna lausnir á veikleikunum. Ef gallar eru á starfinu er mikilvægt að benda á þá, og því mikilvægara sem gallarnir eru mikilvægari. Annars vil ég benda fólki á að lesa kafla úr Rauða kverinu: "Um gagnrýni og sjálfsgagnrýni."

Þegar hreyfingin sem mótmælir Íraksstríðinu er annars vegar, þá verður að viðurkennast að ekki er allt sem skyldi. Hvar voru æskulýður og verkalýður Íslands í gær? Hvers vegna er vinnandi fólk heima hjá sér að horfa á Stöð 2 í stað þess að mótmæla stríði gegn vinnandi fólki? Hvers vegna tekur það þetta ekki til sín?

Segjum að sigur ynnist. Hvað tæki við? Bið eftir næsta stríði? Það þarf að andæfa stríði og andaæfa því með öllum ráðum. Andæfa stríði með stríði, ef með þarf. En ef andóf er ómarkvisst, þá er ólíklegt að það verði neitt annað en andóf. Okkur vantar frumkvæði. Framsækna og réttsæla hreyfingu fyrir félagshyggju, mannréttindum og lýðræði. Hreyfingu sem getur axlað það verk að breyta þessu þjóðfélagi til hins betra. Sem fyrr er ég til viðræðu ef einhver hefur áhuga.

No comments:

Post a Comment