Sunday, March 6, 2005

Matti hefur svarað færslu minni frá því í gærkvöldi. Skoðið svar hans áður en lengra er haldið. Svo það komi fram, þá hef ég engan áhuga á hlutverki dogmatistans í svona umræðum. Matti skrifar „Ef menn vilja endilega trúa því að bandaríska leyniþjónustan standi á bak við hryðjuverkin 11. september nenni ég ekki að eyða endalausri orku í að sannfæra þá um annað.“ Ég skil það vel. Ég vil ekki trúa því að bandaríska leyniþjónustan standi á bak við árásirnar, enda snýst þetta mál ekki um trú í mínum huga. Margar efasemdaraddir hafa heyrst og ýmislegt í opinberu sögunni hefur hlotið harða gagnrýni. Maður hlýtur að taka tillit til þess sem er sagt og um leið til rakanna sem eru færð. Gild rök á ekki að þurfa að endurtaka ef allt er með felldu.
Matti skrifar:
Það eru nokkrar staðreyndir í þessu máli. Staðreyndir sem er búið að sanna yfir allan vafa. Þessar helstar.
* Fjórum farþegaþotum var rænt þann 11. september 2001.
* Tveimur var flogið á tvíburaturnana, einni á Pentagon og hin þriðja hrapaði eftir að farþegar höfðu reynt að ná völdum yfir henni.
* Saddam Hussein stóð ekki á bak við árásirnar.
Þeir sem neita þessu þrátt fyrir að hafa kynnt sér málið eru, að mínu hógværa mati, haldnir ranghugmyndum. Það er hægt að efast um ýmislegt í þessu máli, en svo eru ákveðin mörk. Þetta er komið langt út fyrir þau mörk.

Ég hef hingað til efast um að farþegaflugvél hafi verið flogið á Pentagon. Sá efi er hins vegar ekkert dogma fyrir mér, og ekki stendur á mér að kannast við góð mótrök þegar ég heyri þau. Matti vísar í ítarlega grein á AboveTopSecret.com. Þessi grein er nokkuð löng, en ég hvet fólk eindregið til að lesa hana. Í henni eru færð rök fyrir því að Boeing 757 hafi í raun lent á Pentagon eins og stjórnvöld segja, og margt hrakið af því sem efasemdamenn hafa haldið fram. Þetta er góð grein og að henni lesinni held ég að ég geti fallist á að farþegaflugvél hafi í raun flogið á Pentagon. Já, það eru ennþá sandkorn í tannhjólunum, en nei, ein og sér duga þau varla til að vísa aðalatriðunum á bug.

Enn skrifar Matti:
Stórkoslegar fullyrðingar krefjast stórkostlegra sannana. Það gildir einnig í þessu máli. Sannanirnar benda allar í eina átt, samsæriskenningarnar allt aðra.

Ég vil hér benda á eitt: Skýring Bandaríkjastjórnar á atburðum 11. september er líka samsæriskenning. Ef efasemdamenn hafa rangt fyrir sér um atriði á borð við hvort farþegaflugvél hafi flogið á Pentagon eða ekki, þá er vitanlega ekki þar með hrakið annað í kring um þetta. Auk þess eru fleiri álitamál en bara sjálfar árásirnar, en þau eru svo sem ekki til umræðu hér.

Matti skrifar:
Spurningin er kannski, hvað dugar til að sannfæra þá er aðhyllast samsæriskenningar um 11. september, að atburðarrásin hafi verið eins og opinbert er talið?

Ég get sagt hvað dugar til að sannfæra mig um annað - sannanir. Bara einhverjar helvítis sannanir. Ekki endurtekningar á bulli sem margoft hefur verið sýnt fram á að er rangt.

Ég tek heils hugar undir þetta: Þegar sýnt hefur verið fram á að eitthvað sé rangt, þá á vitanlega ekki að halda áfram að endurtaka það. Ekki ef menn eru í leit að sannleikanum. Gagnrýnin sannleiksleit græðir á öllum gildum rökum og sennilegum tilgátum, en reynir ekki að sýna fram á fyrirfram gefna niðurstöðu. Þeir sem neita að trúa öðru en því sem stendur í blöðum eru á jafnhálum ís og þeir sem tortryggja allt sem stendur í þeim.

„Róttæklingar gætu gert margt gáfulegra við tíma sinn“ segir Matti, frekar en að gleyma sér í tæknilegum atriðum varðandi 11. september. Ég tek undir það. Í mínum huga eru það heldur ekki tæknilegu atriðin sem skipta höfuðmáli. Ég get vel fallist á að farþegaflugvél hafi flogið á Pentagon en ekki Global Hawk, að eldflaug hafi ekki komið við sögu og ýmislegt annað. Reyndar er varla við öðru að búast. Þegar menn á annað borð fyllast tortryggni er í sjálfu sér ekki skrítið að þeir „komist að“ einhverju sem reynist ekki vera á rökum reist. Það er gott, þegar rangar fullyrðingar eru hraktar, því þá komast menn nær því að vita hið rétta. Þetta gildir um fullyrðingar, óháð því hvort þær eru settar fram af stjórnvöldum eða einhverjum öðrum.

Nú gefum við okkur að þetta sé satt og rétt:
* Fjórum farþegaþotum var rænt þann 11. september 2001.
* Tveimur var flogið á tvíburaturnana, einni á Pentagon og hin þriðja hrapaði eftir að farþegar höfðu reynt að ná völdum yfir henni.
* Saddam Hussein stóð ekki á bak við árásirnar.


Enn eru opnar spurningar á borð við þessar: Hver skipulagði þessi ódæðisverk? Hver framdi þau? Hver vanrækti skyldur sínar? Hvað gekk mönnum til? Hver hagnast? Hvernig verða grunsamleg viðskipti með hlutabréf í flugvélögunum skýrð? Hvernig verða grunsamlegar millifærslur milli CIA (USA), ISI (Pakistan) og al Qaeda skýrð? Hvernig tengist Mossad (Ísrael) atburðum þessa örlagaríka dags? Hvers vegna hafa bandarísk stjórnvöld gert rannsakendum erfitt fyrir? Hvers vegna voru rústir WTC hreinsaðar burt áður en tími gafst til að rannsaka þær gaumgæfilega?
Spurningarnar eru fleiri, en ég ætla ekki að fara nánar út í þær að sinni.

No comments:

Post a Comment