Saturday, March 19, 2005

Ef lögreglan stjakar við mér er hún að vinna vinnuna sína...


...en ef ég stjaka við lögreglunni er það brot gegn valdstjórninni.
Eins og fleiri var ég áðan í mótmælum gegn Íraksstríðinu. Hófust með fundi á Ingólfstorgi, þar sem ég bar fána Íraks á stöng. Eins og World Socialist Web Site bað lesendur sína að gera dreifði ég auk þess slatta af þessu ávarpi frá Socialist Equality Party. Eftir Ingólfstorgsfundinn var gengið að Stjórnarráðinu og mótmælt þar.

Vandsveinar valdstjórnarinnar stóðu ábúðarmiklir og gættu þess að fólkið léti að stjórn. Eftir að flestir voru farnir urðu sumir eftir - þar á meðal ég - og héldu áfram mótmælunum. Þegar löggunni sýndist fundurinn vera fjaraður út fjarlægði hún gula borðann sinn fína, svo við - 10-15 talsins - gengum auðvitað inn á lóð Stjórnarráðsins. Þaðan stjakaði lögreglan okkur burtu með valdi - og ég var meðal nokkurra sem hún bar á höndum sér af lóðinni. Engar skýringar: Valdstjórninni ber að hlýða vegna þess að annars stjórnar hún bara með valdi. Við eigum m.ö.o. að hlýða þeim vegna þess að þeir segja það. Háleit siðfræði þar á ferð.

Það er merkilegt - eiginlega ótrúlegt - að fylgjast með atferli löggunnar í svona sitúasjónum. Þegar hópur af krökkum er bersýnilega að storka löggunum bregðast þær við með fullkomlega fyrirsjáanlegum og reaktífum hætti: Það fýkur í þær og í stað þess að bíða í kortér þangað til krakkarnir nenna þessu ekki lengur og fara, þá fara þær að stympast við þá og reka burtu með valdi. Til að valdstjórnin haldi áfram að vera valdstjórn, þá getur hún ekki annað en sýnt vald sitt. Í stað þess að gefa þumlung eftir og spara öllum vesen, þá espast hún upp eins og smákrakki. Með hverjum er hún í liði? Hver er vandamálið, sá sem skrifar upp á stuðning við morð og mannréttindabrot, eða sá sem mótmælir morðum og mannréttindabrotum?

Auðvitað hvarflar það ekki að mér að breytingum verði komið til leiðar með svona reaktífum aðferðum. Reaktífar aðgerðir kalla bara á ennþá reaktífari gagnaðgerðir sem enginn græðir á þegar öllu er á botninn hvolft. Það er hægt að fara og mótmæla, koma heim með eplakinnar og góða samvisku, án þess að neinum breytingum hafi verið komið til leiðar. Það er líka hægt að fara og storka mönnum sem hafa það í starfslýsingunni að vera uppstökkir og óþolinmóðir og láta friðsama óhlýðniseggi ekki komast upp með múður. Afraksturinn er auðvitað sá að við næstu mótmæli verður sjálfsagt bara meiri viðbúnaður til að hafa stjórn á sitúasjóninni. Það er vafasamt að segjast hafa stjórn á sitúasjóninni ef fólk gerir allt sem það vill. Ef löggan gerir málamiðlanir, þá er hún að gefa eftir. Til að sýna að hún ráði þarf hún að vera að banna fólki eitthvað. Setja skilyrði. Skilyrði er fáránleg ef þau snúast um það sem fólk vill sjálft. Skilyrðin verða að banna því eitthvað svo að löggan geti framfylgt einhverju og þannig sýnt að hún ahfi vald. Annars getur hún ekki sagst hafa stjórn á málunum. Ef hún þokar þumlung í dag, þokar hún þá tvo þumlunga á morgun? Nei, þá brynjar hún sig bara meira og við borgum með skattpeningunum okkar.

En sem ég segi, þá hvarflar það ekki að mér að breytingum verði komið til leiðar með mótmælum. Borgaraleg óhlýðni er eitt -- góð og gild í sjálfu sér -- en hún kemur seint breytingum til leiðar ein og sér.

Mótmæli eru reaktíf. Ef þau eru friðsamleg, þá eru þau ekki þrýstingur á ráðamenn. Ófriðsamleg mótmæli skila sjaldan árangri vegna þess að það er einatt sá sterkari sem græðir á ofbeldi. Það eru meira en 70 ár síðan mótmælendur áttu síðast alls kostar við íslenska ríkisvaldið og maður sér ekki fyrir sér að það endurtaki sig í bráð, þannig að það væri tómt mál að tala um, fyrir utan alla hina gallana við slíkar aðferðir. Ef mótmælendurnir eru sterkari, geta þeir þá ekki eins unnið sína sigra friðsamlega? Valdið veit vel að það borgar sig ekki að leggja til atlögu við ofurefli. Ef það er hægt að vinna sigur með ofbeldi, þá hlýtur að vera hægt að vinna hann án ofbeldis.

Ef mótmæli eiga að skila árangri, þá þurfa þau að vera rosaleg. Til að hnekkja stuðningi ríkisstjórnarinnar við Íraksstríðið, þá dugar ekki 500-1000 manna fundur. Nei, það þarf tugþúsundir. 40.000 manna mótmælafundur, samhliða allsherjarverkfalli og þess háttar -- það gæti neytt stjórnina til að skipta um skoðun. En 400 manna fundur gerir það ekki og 4000 manna ekki heldur. 40.000 manna fundur gæti unnið áfangasigur eða varnarsigur, en framsækinn sigur ynnist ekki án þess að á ferðinni væri hreyfing sem stefndi leynt og ljóst að slíku. Vel skipulagður sósíalistaflokkur er það sem okkur vantar. Annars vegar sósíalistaflokkur, hins vegar manngrúi til að knýja áfram breytingarnar. Byltinguna.

Ég tek þátt í mótmælum og ég stunda borgaralega óhlýðni annað slagið. Ég ímynda mér ekki að það muni koma í kring breytingum. Hvers vegna geri ég það þá? Tja, ætli það sé ekki eigingjörn aðgerð, blanda af spennufíkn og útrás fyrir særða réttlætiskennd? Ég kem heim með eplakinnar og góða samvisku, en hef í raun ekki áorkað neinu.

Ég verð að viðurkenna að ég er orðinn þreyttur á þessu. Ég nenni ekki að eyða kröftum mínum eða tíma í tómt andóf. Pólitískur eldmóður minn fær ekki farsælan farveg ef sá farvegur er valinn af andstæðingunum. Til að vinna réttlætinu, frelsinu, friðnum og - í rauninni - mannkyninu sjálfu sigra, þá þarf maður að velja sjálfur sínar vígstöðvar, setja sjálfur skilyrðin, marka sjálfur stefnuna og framkvæma sjálfur breytingarnar. Sá sem setur traust sitt á einhverja aðra hefur ekki við neinn að sakast annan en sjálfan sig þegar þeir bregðast traustinu.

Ef einhver hefur áhuga á að koma á laggirnar annars konar stjórnmálaafli, þá er ég til viðræðu.

No comments:

Post a Comment