Friday, October 1, 2004

Lyddur, mannfórnir og þrælslund



Já, ég er að tala um þingflokk Framsóknarflokksins. Þingmennirnir í þingflokknum sitja ýmist þegjandi hjá meðan Kristni er slátrað, meðan einum úr þeirra röðum er fórnað. Gott hjá Kristni að standa við sína sannfæringu, það mættu fleiri gera. Hugsa sér, hvað er það annað en lydduskapur, að sitja þegjandi meðan samverkamaður manns er hýddur saklaus? Árni Magnússon, Birkir J. Jónsson, Dagný Jónsdóttir, Guðni Ágústsson, Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, Hjálmar Árnason, Jón Kristjánsson, Jónína Bjartmarz, Magnús Stefánsson, Siv Friðleifsdóttir og Valgerður frænka mín Sverrisdóttir fá öll risastóran mínus í kladdann. Sum þeirra hafa svo marga mínusa fyrir að það er orðið vandasamt að koma fleirum fyrir! Þetta mál sýnir þeirra innræti. Þetta er sama sagan og þegar krakki er lagður í einelti og allir sitja þegjandi hjá af ótta við að vera lagðir í einelti sjálfir. Minnir líka á mennina sem fyrir stríðsglæpadómstól segjast "bara hafa verið að hlýða fyrirmælum". Lydduskapur. Hvers vegna nýtur ríkisstjórnin ennþá stuðnings Kristins, Sivjar og Jónínu? Þau gætu, þrjú í sameiningu, fellt ríkisstjórnina og myndað nýja stjórn með stjórnarandstöðunni. Hvers vegna gera þau það ekki? Hvers vegna heldur Kristinn ennþá tryggð við þennan fúna afturhaldsflokk sem er búinn að sýna innræti sitt í verki og bregðast Kristni sjálfum þegar hann gerði ekki annað en reyna að vera maður orða sinna? Fari Framsóknarflokkurinn og veri. Þegar flokkshollustan yfirgengur svona sans manna er illt í efni. Kristinn segir sjálfur, í Fréttablaðinu í dag: „Menn verða að vera frjálsir í skoðunum sínum til þess að stjórnmálaflokkur sé í raun lýðræðisleg hreyfing“ -- og nú hefur Framsóknarflokkurinn, enn eina ferðina, sýnt að hann er það ekki. Eftir hverju er Kristinn að bíða? Hvað skuldar hann þessum spilltu hrokagikkjum sem hafa hædjakkað flokknum hans? Hvers vegna geir hann ekki annað hvort, að gera hallarbyltingu og fá almenna flokksmenn í lið með sér og taka flokkinn aftur, eða, ef þeir vilja það ekki, fylgja þá orðum sínum eftir með því að hætta í flokknum og hætta stuðningi við ríkisstjórnina? Þingflokkur Framsóknarflokksins samanstendur hér um bil af tómum lyddum. Þingmenn flokksins geta rekið af sér slyðruorðið með því að standa á sínu og láta ekki fámenna klíku pólítískra búllía ráðskast með sig.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Mogginn stendur með sínum eins og endranær. Gott fyrir eigendur hans að vita að hann muni aldrei æmta né skræmta gagnvart hægrimönnum, svo lengi sem þeir eru nógu hægrisinnaðir. Er ekki óforskammað hvað þetta blað, sem þykist vera svo virðulegt og ráðvant, sýnir sig trekk í trekk fyrir að vera það afturhaldsafl sem það er? að þetta blessaða fólk skuli ekki kunna að skammast sín.....

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Horfði á forsetaframbjóðendadebattið í nótt. Annar hausinn á þursinum rassskellt hinn hausinn. Kerry skylmdist fimlega og kom vel fyrir, end a segja menn að hann hafi unnið þessa viðureign. Með öðrum orðum, bandaríska valdastéttin vann þessa viðureign.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Geir Haarde er spilltur og ætti að skammast sín. Hann er bara dóni! Hvernig hvarflar það að honum að bjóða Íslendingum upp á svona bersýnilega flokkspólítíska skipun í hæstarétt - enn eina ferðina?? Ég segi fyrir mitt leyti, að ég sé ekki hvernig ég get álitið mig bundinn af dómum dómstóls sem ég get ekki viðurkennt vegna pólítískrar litunar. Ég bara sé það ekki. Ekki að það skipti neinu máli; ef ég léti á það reyna að hlíta ekki dómum hæstaréttar kæmi bara lögga með kylfu og lemdi mig í hausinn.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Ísraelar fara mikinn í morðum á Gazaströndinni. Hvað ætli þeir geti gengið langt áður en Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson stynja upp athugasemdum fyrir hönd íslensku þjóðarinnar? Ég spái því að þeir geti gengið alla leið til helvítis. Hvort þeir ættu afturkvæmt þaðan veit ég ekki, en þangað stefna þeir alla vega.

No comments:

Post a Comment