Thursday, October 7, 2004

Frábær fyrirlestur + fréttir



Fyrri fyrirlesturinn sem ég fór á sl. þriðjudag var fyrirlestur Jóns Ólafssonar heimspekings, „Vald og stýring“ -- um lygar í stjórnmálum. Þessi hádegisfyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélags Íslands var í hæsta máta áhugaverður. Jón talaði um kenningar Rorty, Arendt o.fl. um lygar í stjórnmálum, hvernig þær eru notaðar til að koma einhverju til framkvæmda eða til að auka vinsældir. Þegar sannleikanum er haldið fram er það oftar en ekki merki um hræsni frekar en sannleiksást. Kerfisbundinn lygavefur vindur upp á sig og bindur hendur þeirra sem eru háðir honum. Ef hann kemst upp er sjaldan gert veður út af því; sama sagan endurtekur sig því aftur og aftur og alltaf erum við jafn ginnkeypt. Bregðast þá ekki fjölmiðlar skyldum sínum? (Hafa fjölmiðlar ekki annars skyldur gv. lesendum?)

Stjórnmálamenn tala yfirleitt fyrir einhverri hugmyndafræði. Þar sem þeir reyna að hafa áhrifa á veruleikann reyna þeir að skýra hann, þ.e.a.s. skapa mynd af honum. Kerfi eða líkan. Þeir sem mest völd hafa njóta mestrar ráðleggingar frá sérfræðingum, sem allir halda fram sinni túlkun á veruleikanum. Því verður ráðgjöfin æ flóknari og heimsmynd valdamannsins hefur tilhneigingu til að skekkjast sem því nemur. „Blöff“ er eitt, bein lygi annað.

Ef sannleikurinn er ekki tilgangur í sjálfu sér, verður hann þá ekki merkingarlaus? „Hálfsannleikur oftast er óhrekjandi lygi“ - þarna er á ferðinni hin gamla góða valkvæma hugsun eða, réttara sagt, valkvæm orðræða: Sá hluti sannleikans sem gagnast sögumanni er sagður, restinni sleppt. Er brotið á einstaklingum með þessu? Það er kannski ekki spurning um að hlutlægar staðreyndir séu ekki aðgengilegar, heldur frekar, að frelsi manna til að mynda sér upplýstar skoðanir er þar með skert. Það er alvarlegt mál. Menn eru sviptir „frelsi til að treysta fréttum“ - og er það ekki komið inn á svið skoðana- og tjáningarfrelsis?

Þrenns konar algengar lygar:

* Menn taka þann kost að blöffa til að koma einhverju fram.

* Ímynd haldið fram, sem getur verið alvarlega á skjön við veruleikann.

* Tilbúinn veruleiki eða veruleiki sem er felldur inn í tilbúið kerfi eða líkan (aðlagaður).

Þegar lygi er haldið fram af stjórn er flokksaga beitt til að láta alla halda fram sömu lyginni. Sá sem ekki tekur þátt (stjórnarmaður eður ei) er stimplaður stjórnarandstæðingur eða stillt upp sem slíkum. Því kjósa ýmsir frekar að taka ekki afstöðu en að mótmæla (berum) lygum stjórnvalda, af því þeir eru kannski ekki stjórnarandstæðingar eða geta, stöðu sinnar vegna, ekki látið stilla sér þannig upp.

Hvernig eldist orðræðan sem við höldum fram? Styrkist hún með tímanum? Staðfestir reynslan að okkar túlkun eða okkar orðræða sé rétt?



Vonandi að einhverjum þyki þetta fróðlegt, hmm?





~~~~~~~~~~~~~

Sjómannasambandið stendur í stappi. Sex menn handteknir eftir að hafa haldið uppi sólarhrings löndunarbanni. Sex menn?? Hvar eru fjöldahreyfingin? Hvernig ætla þeir að halda uppi löndunarbanni með sex mönnum? Frjálslyndi flokkurinn styður þá í þessu ströggli. Hvar eru Vinstri-grænir? Ættu þeir ekki að standa þétt að baki þeim líka? Sem róttækur vinstriflokkur ættu þeir nú að styðja við bakið á launamönnum. Hvar eru þeir? (Mættu líka veita grunnskólakennurunum, blessuðum, meiri stuðning.) Að vísu hafa þeir ámálgað aðbúnað þrælanna við Kárahnjúka. (Ég verð að viðurkenna að það hvarflar að mér að á bak við það búi etv. annað en þeir láta uppi. Þ.e. ekki atkvæði launþegahreyfingarinnar heldur umhverfisverndarsinna sem eru á móti Kárahnjúkavirkjun. Vonandi hef ég rangt fyrir mér.)

~~~~~~~~~~~~~

Nú gengur þetta ekki lengur hjá þessum Þjóðverjum. Rasistar sækja í sig veðrið og borgaralegir spikbelgir sitja lúpulegir hjá og halda að þeir geti bannað fólki að hata. Þeir geta ekki bannað fólki að hata. Skoðanalögga er fyrirbæri sem mér býður við. Asnar hljóta að hafa rétt til að vera asnar, eða hvað? Ef forystumenn borgaralegra afla í Þýskalandi eru á annað borð ósammála rasistunum ættu þeir að reyna að útskýra fyrir þeim hvers vegna þeir hafa rangt fyrir sér. Ef þeir ráða ekki við vandamálin ættu þeir að víkja og hleypa framsæknari og skynsamari stjórnmálaöflum að í staðinn.

~~~~~~~~~~~~~

Matti Á. tók eftir þessari frétt sem fór framhjá mér. Þarna bætist eitt atriði á minn 17 m lista yfir ástæður fyrir að kjósa ekki Samfylkinguna. Svei!

~~~~~~~~~~~~~

Áðan sá ég brot af Þórhalli miðli á Stöð 2. Lífsauganu. Hafði aldrei séð það áður. Alveg var magnað að fylgjast með karlsmáninni blekkja sjálfan sig. Mér finnst hann eiginlega bara brjóstumkennanlegur. Og grey fólkið sem dýrkar hann og vill að hann sé eitthvað annað en illa heppnaður loddari. Ljóta þruglið.

Notast við cold reading og rennir hálf-blint í sjóinn með sjálfsagða og ómerkilega hluti. Spyr miðaldra konu hvort pabbi hennar sé ekki orðinn heilsulaus. Konu með glóðarauga hvort það sé eitthvað að á heimilinu.

Gullkorn:

„já, svo var eitthvað með handfangið á balanum“ „ha? nee.. ?“ „uu.. ja, það var handfang á þessum bala, er það ekki?“ „jajújú, eitt hvoru megin“ „takk fyrir það, takk fyrir“ [eru ekki handföng á bölum, svona almennt séð?]

„þekkirðu einhvern Magnús?“ [hver þekkir ekki einhvern Magnús?]

„það er steinhús hús sem fjölskylda þín bjó mjög lengi í“ „já“ „það eru miklar minningar tengdar þessu húsi“ „já“ [hver hefur búið mjög lengi í húsi án þess að miklar minningar tengist því?]




Ég held að ég gæti vel gert þetta. Byrja á að segja að „hér sé einhver Fjóla“. Miðaldra kona segir strax, „já, það var amma mín“. Ég gríp hana: „amma þín var mjög gestrisin kona“ „jújú“ „það var alltaf heitt á könnunni hjá henni“ „jújú“ „...og ekki sviku pönnsurnar?“ „nei, amma bakaði bestu pönnsur í heimi“ „takk fyrir, takk takk“ -- hljómar þetta ekki vel?



„Amma þín afturgengin segir þér að taka til í sokkaskúffunni.“

„Langalangamma þín er hér. Hún er með skotthúfu.“

„Áttirðu afa sem var bóndi? Hann ók þér í Willy's jeppanum.“




...og svo framvegis. Frábær skemmtun. Toppgaur.

No comments:

Post a Comment