Monday, October 11, 2004

Ég bendi áhugasömum á mjög góða grein MIFTAH, "Delaying Tactics", um stefnu Ísraelsstjórnar. Dov Weisglass, æðsti ráðgjafi Sharons, hefur upplýst í viðtali við blaðið Ha'aretz, að stofnun Palestínuríkis er ekki á dagskrá og það er bara verið að tefja hið svonefnda friðarferli. Ekkert sem maður vissi ekki fyrir, en maður bjóst kannski ekki við að þetta væri sagt berum orðum. Um sama efni skrifar Uri Avnery mjög góða grein, "Don't Believe a Word", sem einnig er þess virði að lesa hana.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Bandaríkjamenn segja að kosningarnar í Afghanistan séu lögmætar (=að Hamid Karzai sé réttkjörinn forseti). Kemur á óvart. Condoleezza Rice lætur eins og hún hafi einhvern rétt til að segja til um það. Bandaríkjamenn eiga mikilla hagsmuna að gæta í þessum kosningum og þeir segja að þeirra maður sé réttkjörinn! Ég væri hissa ef ég héldi að hún væri að reyna að blekkja einhvern, því blekkingin er ótrúverðug. Hinsvegar er ég farinn að hallast að því að ráðamönnum sé alveg sama. Þeir treysta því að við gerum ekkert í málunum. Það er líka iðulega raunin. Við gerum sjaldan nokkuð í málunum.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Bráðabirgðaþing Sómalíu hefur kjörið bráðabirgðaforseta, sem vill svo til að er atvinnuhermaður að uppruna. Ég veit nú bara ekki hvað mér á að finnast. Ég er tortrygginn, en vísa þessu samt ekki alveg á bug. Í öllu falli er þarna að ganga úr greipum tækifæri sem varla nokkur hefði nýtt hvort sem er (né getað nýtt) þannig að ... ætli maður voni ekki bara það besta?

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Frjálshyggjufélagið boðar til fundar um verkföll í Iðnó á morgun, þriðjudag:

Hádegisfundur um verkföll

12. október 2004

Í ljósi atburða síðustu daga og vikna efnir Frjálshyggjufélagið til málfundar um verkföll.

Fundurinn verður haldinn í Iðnó, þriðjudaginn 12. október kl. 12.00 - 13.00.

Ræðumenn verða:

1. Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

2. Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands.

3. Gunnlaugur Jónsson, formaður Frjálshyggjufélagsins.

Búast má við líflegum umræðum og er fólk hvatt til að mæta á fundinn.




Ég hef nú öðrum hnöppum að hneppa, en það væri ekkert endilega leiðinlegt að mæta. Hef einu sinni mætt á myndbandakvöld hjá þeim og þótt ég sé ósammála þeim um grundvallaratriði, þá hef ég lengi stefnt að því að fara á fleiri fundi. Ég hef þá kenningu að "frjáls"hyggja jafngildi fasisma í praxís. Ég veit ekkert hvort ég kemst, en hugsa að ég reyni.

No comments:

Post a Comment