Wednesday, October 13, 2004

Í gær fór ég í bankann og ætlaði að kaupa þar nokkrar ávísanir í erlendum gjaldmiðli til að greiða fyrir áskrift að nokkrum kommablöðum sem mig langar í. Ólukkans ávísanaprentarinn tók upp á því að vera ekki tengdur vegna breytinga, svo lítið varð úr því að sinni. Kaupi þessar ávísanir í staðinn í dag, og verð von bráðar orðinn stoltur áksrifandi að nokkrum ágætis blöðum.



~~~~~~~~~~~~~~~~



Í gærkvöldi var fundur í Norræna húsinu þar sem Sveinn Rúnar Hauksson og Arna Ösp Magnúsardóttir sögðu frá ferðum sínum í Palestínu í sumar. Þá las Einar Már Guðmundsson úr bók sinni, Bítlaávarpinu. Fundurinn var ekki auglýstur sem skyldi, en var þó þokkalega sóttur. Hann var vel heppnaður, held ég að megi segja. Hins vegar held ég að FÍP mætti alveg standa fyrir nokkrum fundum í viðbót í haust, það væri engin skömm að því.



Talandi um Palestínu: Reynt að drepa Moussa Arafat. Moussa Arafat þessi var tekinn sem gísl fyrir nokkrum mánuðum af herskáum, palestínskum gagnrýnendum palestínsku heimastjórnarinnar. Krafa þeirra var að Moussa Arafat yrði rekinn úr stöðu sinni sem yfirmaður öryggismála -- ellegar yrði hann drepinn. Frændi hans, Yasser Arafat, sá ekki annan kost í stöðunni en að verða við kröfum mannræningjanna. En hver er þessi Moussa Arafat? Hann er sagður vera einn af spilltustu embættismönnum palestínsku heimastjórnarinnar, en halda stöðu sinni eingöngu vegna skyldleika við forsetann. Hann hefur áunnið sér óvild margra Palestínumanna vegna spillingarinnar, en einnig vegna mikillar hörku þegar andstæðingar hans eru annars vegar. Þar sem hann er óvinsæll meðal Palestínumanna sjálfra - og af mörgum álitinn veikja mjög stöðu heimastjórnarinnar - skyldi mann ekki undra að þessi árás hafi verið skipulögð af öðrum Palestínumönnum. (Eða, að hann hafi sviðsett hana sjálfur til að styrkja stöðu sína og réttlæta atlögu gegn óvinum sínum.)

No comments:

Post a Comment