Friday, October 8, 2004

Um daginn heyrði eg af töff kofabyggð uppi í Skammadal. Skammidalur er dalverpi austan við Helgafell, sem er austan við Mosfellsbæ. Liggur norður í Mosfellsdal. Þegar eg var barn kom eg þangað a.m.k. einu sinni og man ekkert eftir því annað en rigningu og mold undir nöglum. Í Skammadal voru kartöflugarðar áhugafólks um kartöflurækt.



Í dag ók eg við annan mann upp eftir til að skoða þessa töff kofabyggð. Þ.e.a.s. skúra eða hjalla sem téðir kartöfluáhugamenn hrófluðu upp til að geyma áhöld og hita sér kaffi. Við ókum veg sem hlýtur að vera sá versti í öllum landsfjórðungnum, sunnan að dalnum. Sá vegur sem er venjulega farinn liggur norðan að honum. Jæja, við stöðvuðum bílinn við gil eitt, og gengum síðustu 50 metrana inn í kofabyggðina. Skammidalur ber nafn með rentu. Kofarnir voru alltöff. Allir pínulitlir, nokkrir algerlega niðurníddir, nokkrir sem var vel við haldið og nokkrir sem voru málaðir og skrautlegir en þó hin verstu hrófatildur. Gamlar vinnuvélar mátti sjá, hálffallna skurði, og sölnuð kartöflugrös. Það eru ennþá ræktaðar þarna kartöflur, en ekki eins mikið og mig minnir að hafi verið þegar ég var krakki. Við gengum í gegn um kofabyggðina, ca. 50-60 hús allt í allt. Urðum lítið varir við mannaferðir, en sáum þó konu eina og roskin hjón. Eða systkini.

Það var hem á pollum og ekki hlýtt í veðri. Við vorum ekki meira en kílómeter frá efstu húsum í Mosfellsbæ, og í hina áttina kílómeter frá efstu húsum í Mosfellsdal. Í afskekktri sveit, sem var töff í afkáraleik sínum. Skammidalur var þess virði að heimsækja hann. Man bara að koma úr norðri næst.

No comments:

Post a Comment