Sunday, October 24, 2004

Á Pólitík.is er grein Hildar Eddu Einarsdóttur um fjölmenningarsamfélag á Íslandi. Í umræðunni um innflytjendur er ýmislegt sem mér þykir ekki viðfeldið. (Ég tek fram að ég er að tala um umræðuna almennt, frekar en þessa tilteknu grein.) Fyrir það fyrsta: Það eru miklir fordómar í gangi. Ekki bara meðal rasista. Jákvæðir fordómar - mér liggur við að segja jákvæður rasismi - eru líka til. Eins og neikvæðir fordómar einblína á, sannar og lognar, neikvæðar hliðar innflytjenda einblína jákvæðir fordómar á, sannar og lognar, jákvæðar hliðar þeirra. Mikið heyrist frá öðrum herbúðunum en miklu minna úr hinum (ekki það að ég sakni þess....).

Við vitum að það er þónokkur andúð á innflytjendum. Hvers vegna heyrum við þá ekki af henni? Er hún þögguð niður? Þarf að bíða eftir að það verði stofnaður nasistaflokkur, til þess að þessi umræða komi upp á yfirborðið?

Þögn er ekki antitesa við fordóma, fáfræði eða hatur. Antitesan er upplýsing, fræðsla og hlýja. Þessa fræðslu og upplýsingu finnst mér vanta og hlýjan mætti vel vera meiri.



Að þessum formála viðhöfðum sný ég aftur að grein Hildar Eddu. Hún segir: „Í þessarri grein ætla ég að fjalla um jákvæðu hliðar fjölmenningarlegs samfélags en ekki hinar neikvæðu, sem því miður allt of margir einblína á.“ Ég sakna ekki neikvæða umtalsins, en þar sem ég veit af því finnst mér einkennilegt að það heyrist ekki meira. Ég vil frekar ræða málin út núna en að sæta ofsóknum eða standa í götubardögum vegna þeirra seinna.

Er verið að þagga eina tegund af fordómum og hampa annarri tegund af fordómum, meðan gagnrýnin umræða ber skarðan hlut frá borði? Hvernig ætli skoðanir landans mótist?

Nækvæðu hliðarnar eru til, svo mikið er víst. Auðvitað þarf að ræða þær líka. Meðal þeirra sem ættu ekki að verða útundan er hvernig stéttir blandast inn í þetta: Næstum allir innflytjendur eru vinnandi fólk. Þeir keppa á vinnumarkaði við innfætt vinnandi fólk -- sem sumt hvert fær þá andúð á samkeppninni, sem þýðir lægri laun -- en keppa innflytjendur við valdastéttina? Nei, það gera þeir ekki. Ætli rasismi sé stéttbundinn? Það væri fróðlegt að vita.

Rasismi er neikvæð hlið á búferlaflutningum milli landa. Nú er ég ekki viss um hvernig best er að takast á við hann. Röksemdafærsla dugir oft ekki, því rasismi, eins og trúarbrögð, byggist ekki á rökum heldur tilfinningum. Þannig að það þarf kannski að hugsa strategíuna upp á nýtt svo baráttan sé sem áhrifaríkust. Ég veit um eitt sem ekki er mikið talað um en vinnur beint gegn rasisma: Alþjóðleg samstaða vinnandi fólks gegn auðvaldinu: Hin raunverulega átakalína er ekki milli fólk sem er mismunandi á litinn heldur fólk sem hefur mismunandi hagsmuni. Valdastéttin hefur hagsmuni af auðvaldi því þá getur hún arðrænt vinnandi fólk. Vinnandi fólk hefur hagsmuni af afnámi auðvaldsins því þá hættir valdastéttin að geta arðrænt það. Þetta er átakalínan sem höfð var í huga með lokaorðum Kommúnistaávarpsins: Öreigar allra landa, sameinist! ...og þessi orð eiga alveg jafn vel við nú og 1848 - betur ef eitthvað er.

Að lokum geri ég athugasemd við orðið „fjölmenning“. Þessa athugasemd gerði ég á Skoðun um daginn:
Ég verð nú að viðurkenna að orðið „fjölmenningarsamfélag“ lætur illa í eyrum mínum. Ekki vegna þess að ég hafi neitt á móti fólki, heldur vegna þess að hugmyndin um „margar menningar“ í einu samfélagi hljómar eins og hálfgerð þversögn í mínum eyrum. Ég sé fyrir mér samfélag með fjölbreyttu fólki, en einni menningu: menningu lýðræðis, umburðarlyndis, manngildis og mannlegrar reisnar. Ég held reyndar að það sé ósköp svipað þeim skilningi sem þeir sem þú kallar „fjölmenningarsinna“ (en ég mundi frekar kalla umburðarlynda) leggja í orðið „fjölmenning“...


~~~~~~~~~~~~~

Í Ástralíu er verið að rannsaka hvort bóluefni gegn bólusótt, sem bólusett var með á 6. áratugnum, hafi verið krabbameinsvaldandi. Þetta vekur upp ýmsar spurningar. Óvönduð vinnubrögð? Þöggun? Hagsmunir stórfyrirtækja? Lyfjamafían lætur víst ekki að sér hæða.

~~~~~~~~~~~~~

Ólafur Hannibalsson ritar stórgóða grein í Fréttablaðið í dag: „Kosningar án lýðræðis“ nefnist sú. Það er tvennt annað í Fréttablaðinu sem vakti sérstaka eftirtekt mína: Tímabær fréttaskýring Sigríðar D. Auðunsdóttur um handrukkarafárið. Eins alvarlegt og þetta mál er, þá er nú best að láta það ekki breytast í hysteríu. Þjóðsögurnar eru fljótar að spinnast og lifa sjálfstæðu lífi....

Loks er viðtal við Arrin Hawkins, varaforsetaframbjóðanda Socialist Workers Party í Bandaríkjunum. Mér hefði nú þótt áhugavert að komast á fund með henni eða eitthvað -- eða jafnvel bjóða henni niður í Snarrót í spjall um málefni. Það kann að hafa farið fram hjá mér, en ég sá ekki fara mikið fyrir auglýsingum um þessa heimsókn. Reglulegir lesendur þessa bloggs vita hvern ég styð í forsetakosningunum í Bandaríkjunum -- en engu að síður hefði nú verið fróðlegt að spjalla við þessa konu. Gott hjá Kommúnistabandalaginu/Ungum sósíalistum að koma henni í viðtal hjá Fréttablaðinu.

Árni Bergmann skrifar einnig mjög góða grein í helgarblaði DV um hinn meinta „heimskommúnisma“ og samanburð við „hryðjuverk“ nú á dögum. Ansvíti er ég ánægður með þá grein.

~~~~~~~~~~~~~

Derren Brown heitir maður sem setti upp sjónvarpsþátt, þar sem hann sagði fólki að það stæði í sambandi við framliðna í gegn um andaglas. Fólkið gleypti við þessu og eftir þáttinn ljóstraði hann því upp, hvernig hann hefði blekkt það með brellum. BBC fékk meira en 700 kvörtunarbréf vegna þessa uppátækis! Þennan þátt hefði ég viljað sjá! (Sjá frétt.)

No comments:

Post a Comment