Tuesday, October 26, 2004

Ögn um ábyrgð á fjölmiðlum



Gjarnan birtist efni í fjölmiðlum án þess að tilgreint sé hverjir eru höfundar eða hvaða heimildir er stuðst við. Hver er að tala til okkar? Ef við lesum grein eða frétt í blaði, hver er það þá sem er að tjá sig? Hvaða tengsl búa að baki? Hvaða hagsmuni hefur sá sem setur textann saman? Hvað gengur honum til?

Ef fjölmiðill fer með rangt mál eða birtir texta sem er hlutdrægur, ærumeiðandi, rætinn, eða á annan hátt athugaverður, við hvern er þá að sakast? Segjum að fjölmiðill flytji frétt sem misbýður mér gróflega. Á ég þá að gagnrýna fjölmiðilinn fyrir að hafa sagt eitthvað? Hann segir ekki neitt! Hann er miðill! Hann er sápukassi, megafónn, vettvangur fyrir einhvern til að koma áleiðis sínum skoðunum, sínum túlkunum, sinni afstöðu og svo framvegis. Um leið og málfrelsi verður að vera tryggt, þá verður og að vera tryggt að menn séu ábyrgir orða sinna. Frelsi án ábyrgðar, hvað er það? Ef á annað borð er hægt að tala um slíkt, þá er maður kominn á hálan ís.

Höfundar aðsendra greina skrifa undir nafni og standa þannig við skrif sín. Hvers vegna er það ekki almenn regla á fjölmiðlum? Hvaða heimild hafa menn til að flytja nafn- og ábyrgðarlaust mál?

Hér eftir stefni ég að því að vitna ekki í mállausa, dauða hluti. Að baki orði er manneskja. En ef sá sem segir orðið dylst bak við grímu firrts bákns, þá er sá ábyrgur sem leggur honum til miðilinn. Ef blað flytur nafnlausa frétt hlýtur maður að líta svo á að það sé ritstjórinn sem flytur hana -- og þá skal líka til hans vitnað.



~~~~~~~~~~~~~



Í fréttum: Ef Ísraelar hleypa Arafat frá Ramallah til að leita læknis, hverjar eru þá líkurnar á að hann eigi afturkvæmt þangað? Ansi er ég hræddur um að þær séu ekki miklar. Ætli hann sé ekki annars búinn að fá algjört ógeð á al-Muqata húsaþyrpingunni þar sem hann hefur dvalið undanfarin fjögur ár?

Hvað ætli sé hægt að drepa marga menn með 350-400 tonnum af sprengiefni? Ófáa, býst ég við.

Gott hjá Framsóknarmönnum í Dalasýslu. Flokksforystuelítu á ekki að haldast uppi að beita ólýðræðislegum vinnubrögðum, hvorki innan flokks né utan og best að aðhaldið innan flokks komi frá óbreyttum flokksmönnum.

Er þetta trúverðugt? Ef maður heyrði ekki frá öðrum heimildum en Bandaríkjaher, þá gæti maður haldið að þetta Íraqsstríð líktist meira skurðaðgerð en stríði.

Sharon segir meintan fyrirhugaðan brottflutning landtökumanna frá Gaza munu "styrkja Ísrael". Ef maður lítur á málin í samhengi sést að það er bara verið að tala um að þessir landtökumenn verði færðir um set (og fái ríflegar "skaða"bætur) og verði plantað niður aftur í öðrum landtökubyggðum, bara á Vesturbakkanum. Með öðrum orðum, umræðan snýst um hvort eigi að gera skipulegt undanhald á einum vígstöðvum til þess að geta einbeitt sér 100% að hinum vígstöðvunum. Á þetta að heita framsækið? Hugsa sér að vestrænir ráðamenn (á borð við ónefnda Íslendinga) standa eins og glópar og þykjast ekki skilja neitt í neinu. Svei!

Margit Sandemo segir sér hafa verið nauðgað sem barni en hún hafi orðið nauðgaranum að bana og huslað hann síðan í síki. Var það ekki bara vel af sér vikið hjá henni?



Áhugaverð grein: „Spinning Iraqi Opinion at Taxpayer Expense“ eftir Juan Cole á Anti War. Cole skrifar þarfa grein um írasqa skoðanakönnun og hvernig fréttum af niðurstöðum hennar er hagrætt með orðalagi og áherslum til að það líti betur út fyrir Bush.

No comments:

Post a Comment