Wednesday, October 27, 2004

Koizumi getur gert sig breiðan, enda er hans ájætta lítil. Er það ekki það sem kallast heigulsháttur, að etja öðrum fram í lífshættu, en sitja sjálfur heima og tala digurbarkalega? Það er eins og mig minni það. Annars er Koizumi kannski bara að fylgja hinu karlmannlega fordæmi starfsbræðra sinna Halldórs og Davíðs.



Fréttir frá Palestínu: "Ísraelska þingið samþykkti á sögulegum fundi í kvöld áætlun Ariels Sharons forsætisráðherra um brottflutning ísraelsks herliðs frá Gazasvæðinu og að ísraelskar landnemabyggðir þar og á hluta Vesturbakkans verði lagðar niður."

Gleðitíðindi? Því miður er ekki svo. Þótt auðvitað eigi Ísraelar að snáfa út af Gazaströndinni tafarlaust, þá er þetta ekki svo einfalt. Landtökubyggðir verða ekki einfaldlega lagðar niður -- landtökumennirnir gufa ekki upp. Þeir verða fluttir um set yfir í landtökubyggðir á Vesturbakkanum í staðinn, sem aftur þarf að stækka til að búa til pláss fyrir þá. Búseta þeirra verður alveg jafn ólögleg að alþjóðalögum. Ef þessar landtökubyggðir sem um ræðir á annað borð verða lagðar niður (sem kæmi mér á óvart) þá er um að ræða skipulegt undanhald; Ísraelar væru bara að sleppa landi sem borgaði sig ekki fyrir þá að verja, en í staðinn treysta þeir tökin á landræningjabyggðunum á Vesturbakkanum. Hér er komið að kjarna málsins: Svo lengi sem Sharon, Perez eða aðrir zíonistar ráða ríkjum í ógæfuríkinu Ísrael, þá verða ólöglegar landránsbyggðir ekki teknar niður og Palestínuríki ekki gert að veruleika. Það þarf að koma þessum skörfum frá völdum og áhrifum og búa svo um hnútana að þeir verði hættulausir, og til valda þarf að komast framsækið stjórnmálaafl sem gerir sér grein fyrir mikilvægi alþjóðasamstöðu vinnandi fólks og hikar ekki við að leggja til atlögu við afturhaldsöfl á borð við bókstafstrúarþjóðernissinnana. Ég er hins vegar hræddur um að þetta verkefni sé útlendingi eins og mér ofaukið; það hlýtur að þurfa að eiga uppsprettu sína meðal Ísraela sjálfra.

No comments:

Post a Comment