Friday, October 22, 2004

Ætli sé verið að brjóta stjórnarskrárbundin mannréttindi á æskulýð Íslands? Í Netmogganum segir: „Starfsfólk Reykjavíkurborgar gengur svonefndar leitarvaktir í hverfum borgarinnar þessa vikuna til að ná sambandi við unglinga og koma í veg fyrir óæskilega hópamyndun, að því er fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.“ Stjórnarskráin segir hins vegar í 74. grein: „Rétt eiga menn á að safnast saman vopnlausir.“ Hvernig ætli sé „komið í veg fyrir óæskilega hópamyndun“? Og hver ætli skilgreini hvaða hópamyndun er „óæskileg“ og hvaða hópamyndun er það ekki?

~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Frá Palestínu er m.a. þetta að frétta: Háttsettur Hamas-leiðtogi drepinn. Það er ekki sterkur leikur að drepa pólítíska forystu Palestínumanna, hvorki forystu herskárra né sáttfúsra. Fyrir utan að þetta er gert utan dóms og laga og er í raun morð, þá er annað: Hver á að taka forystu og leiða Palestínumenn til friðar ef einhvern tímann kemur að því? Hver á nógu mikla pólítíska innistæðu til að geta tekið þátt í samningum og verið trúverðugur í augum annarra Palestínumanna, ef það er búið að drepa alla leiðtogana? Þetta mundu margir kalla glapræði og heimskupar hjá Ísraelum. En er það svo? Tja, miðað við stefnu þeirra er það reyndar alls ekki heimskulegt að drepa háttsetta leiðtoga Palestínumanna. Níðingsverk þýða áframhaldandi ófrið, sem er stefna harðlínuzíonistanna sem stýra Ísrael. Eins truflandi og það hljómar er það samt alveg satt, því miður. Sharon, Mofaz, Shalom og þessir gaurar allir, eru ekki að sækjast eftir friði. Þeir vilja ekki frið.

675 manns eru heimilislausir eftir atganginn á Gazaströndinni undanfarið og meira en 130 fallnir - þar af næstum 30 börn. Ég bendi aftur á góða yfirlitsgrein um þessa fólskulegu atlögu að óbreyttum borgurum.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Morgunblaðið hefur uppi órökstuddar fullyrðingar: „Al-Qaeda stóðu að árásunum á Bandaríkin 11. september 2001.“ Þessu halda stjórnvöld fram, já, en þetta er ennþá ósannað. Hins vegar er þetta orðið að viðteknum „sannindum“ vegna þess að a)stjórnvöld segja það og b)stjórnvöld hamra á því. Fréttastofur éta gagnrýnislaust upp eftir stjórnvöldum, efasemdaraddir eru þaggaðar niður. Sannleikanum er ekki leyft að koma í ljós. Ef þessi fullyrðing er sönn, hvers vegna eru þá ekki lögð fram sönnunargögn?

No comments:

Post a Comment