Saturday, October 9, 2004

Bigley og Peak Oil



Bigley



Þá er búið að gera Bigley höfðinu styttri, virðist vera. Ljóta helvítis villimennskan og grimmdin. Hverju halda þessir asnar að þetta skili þeim? Eru þetta vinnubrögðin til að byggja upp draumasamfélagið? Ofbeldi í líkingu við þetta hefur mikla tilhneigingu til að vinna gegn tilætluðu markmiði sínu. Að vísu er sennilega mikið til í því sem fréttaskýrendur segja, að almenningur í Bretlandi muni kenna Bliar um þetta og þannig veikist staða hans. Það má auðvitað segja það, að hann ber hluta af ábyrgðinni. Það er samt ömurlegt, alveg ömurlegt, að þetta skuli vera svona. Breti er drepinn og allir trompast. Hvað með alla Íraqana sem hafa verið drepnir? Hvers vegna hafa glæpir gegn mannkyninu, sem Bliar og aðrir vestrænir leiðtogar hafa framið, s.s. með viðskiptabanninu á Íraq, hvers vegna hafa þeir glæpir ekki vakið óhug og hrylling almennings svo hann sópaði glæpamönnunum úr valdasessi?

Hvers vegna hefur glæpamönnunum ekki verið sópað úr valdasessi Íslands? Erum við að bíða eftir að íslenskur "friðargæsluliði" í Kabúl verði afhöfðaður? Munu Íslendingar þá verða slegnir óhug?





Peak Oil



Á olíumörkuðum Nýjujórvíkurborgar komst hráolían upp í 53,31 dal tunnan í gær. Það er nýtt met.

Við skulum horfast í augu við að þetta er enginn tímabundinn öldutoppur. Olíuverð mun ekki lækka til muna. Þetta háa verð er komið til að vera.

Menn eru að bera fyrir sig ástandið í Íraq, í Nígeríu, í Venezúela og eitthvað, en þetta er bara fyrirsláttur. Fyrirsláttur til að villa um fyrir okkur, almennum borgurum. Hvað er að gerast? Svar: Birgðir jarðarinnar af olíu eru ekki óþrjótandi og við erum komin að þeim vendipunkti, að framboð á olíu annar ekki eftirspurninni lengur. Olía er ekki framleidd, það er borað eftir henni. Þegar olíulind er hætt að skila mönnum olíu þarf að finna nýja.

Klárast olían? Nei, það verður bara svo dýrt að vinna hana að það hættir að borga sig. En hærra olíuverð hlýtur að gera fleiri olíulindir hagkvæmari? Já, til að byrja með, en það flýtir bara hruninu; olían eykst ekki, og það kemur að því að það er spurning um orku: Um leið og það þarf meiri orku til að ná olíunni upp úr jörðinni en við fáum með því að brenna hana, þá borgar það sig ekki lengur. Því hraðar sem við klárum birgðirnar, þess fyrr verða þær búnar. Í rauninni má segja að til lengri tíma litið sé hátt olíuverð gott fyrir heimsbyggðina. Það þýðir vonandi að það er minna notað af henni. Það er stærsta vandamál minnar kynslóðar, að takast á við Peak Oil -- ekki bara stærsta vandamál minnar kynslóðar, heldur kannski stærsta vandamál sem mannkynið hefur tekist á við. Siðmenningin, eins og við þekkjum hana, nálgast kannski endalok sín. Lesið nánar um Peak Oil hér -- þótt það sé það eina sem þið lesið þetta árið, þá er það vel þess virði.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~



Sólbaksmálið umdeilda snýst að miklu leyti um það, hvort hásetarnir á Sólbaki séu neyddir til að lúta samningaumboði stéttarfélagsins sín. Hvort þeir hafi félagafrelsi eða ekki, og hver eigi að semja um þeirra kjör, þeir sjálfir eða félag sem áskilur sér rétt til þess. Hafa menn ekki félagafrelsi? Eiga stéttarfélögin að vera eins og handjárn á mönnum? Óljúf kvöð sem menn reyna að sleppa undan? Þetta er merki um að það er eitthvað að. Ef menn sjá sér ekki hag í því sjálfir að vera í stéttarfélagi er það vísbending um að eitthvað sé að. Að stéttarfélaginu. Hvers vegna geta hásetar á sólbaki náð betri samningum en stéttarfélagið? Getur verið að stjórn stéttarfélagsins sé of upptekin af að spila bridds við auðvaldið, til að sinna skyldum sínum? Getur verið að þarna sé á feðrinni félag sem er hvorki stéttvíst né harðskeytt (nema kannski gagnvart félagsmönnum sínum) heldur svikult? Ég spyr. Getur það verið? Ég get sagt það um mitt stéttarfélag, Eflingu, að ég er ákaflega óánægður með hvernig það stendur sig. Ákaflega óánægður. Ef ég mætti velja væri ég í SFR (Starfsmannafélagi ríkisins), en mér og vinnufélögum er hótað illu ef við svo mikið sem látum okkur detta það í hug. Það var þá félagafrelsið. Ef stéttarfélag vill hafa ánægða félagsmenn þarf það að ávinna sér þá ánægju. Það er ekki hægt að sitja á rassinum og láta eins og mðaur eigi hrós skilið. Þannig virkar stéttabaráttan ekki, og það er varasamt að hafa slíka forystu fyrir verkalýðnum.

~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~



Egill Helgason vitnar í þessi ummæli mín á Skoðun um daginn:

Ég verð nú að viðurkenna að orðið „fjölmenningarsamfélag“ lætur illa í eyrum mínum. Ekki vegna þess að ég hafi neitt á móti fólki, heldur vegna þess að hugmyndin um „margar menningar“ í einu samfélagi hljómar eins og hálfgerð þversögn í mínum eyrum. Ég sé fyrir mér samfélag með fjölbreyttu fólki, en einni menningu: menningu lýðræðis, umburðarlyndis, manngildis og mannlegrar reisnar. Ég held reyndar að það sé ósköp svipað þeim skilningi sem þeir sem þú kallar „fjölmenningarsinna“ (en ég mundi frekar kalla umburðarlynda) leggja í orðið „fjölmenning“...

No comments:

Post a Comment