Tuesday, October 7, 2008

Við hvað eru Ung vinstri-græn feimin?

Ef „Ung vinstri græn telja einsýnt að dagar þessa óhefta heimskapítalisma séu senn taldir“ og harma að „hrun hins óhefta og ómannúðlega heimskapítalisma skuli nú bitna á þeim sem síst skyldi“, hvað vilja þau þá að komi í staðinn? Í ályktun þeirra get ég ekki séð að þau stingi upp á nýju þjóðskipulagi í stað þess sem þau sjá að er að hrynja. Það er út af fyrir sig flest rétt sem kemur fram í þessari ályktun UVG, svo langt sem hún nær. En hvers vegna fara Vinstri-græn alltaf í kring um aðalatriðið eins og heitan graut?

Lausnin heitir sósíalismi. Hann hefur ekki verið á dagskrá Vinstri-grænna hingað til, og meira að segja verið bannorð þar á bæ. Hann er það greinilega ennþá. Djörfustu ályktanir ganga ekki svo langt að leggja til upptöku sósíalísks hagkerfis. Þarna sjáið þið ástæðuna fyrir því að ég er ekki félagi í VG. Þarna er ástæðan lifandi komin.

Sjá meira um málið:

* VG eru vinstrikratar

* Við þurfum öðruvísi flokk
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
"Smástirni á leið til jarðar" Það fyrsta sem mér datt í hug var að þetta smástirni væri íslenska hagkerfið.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Yrði það ekki kaldhæðnislegt ef Björgólfur Guðmundsson yrði höfuðpaurinn í nýju máli, þar sem Eimskip kæmu í stað Hafskips og Landsbankinn í stað Útvegsbankans?
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Sá sem birti FL-Group myndböndin, með atbeina Jóns Geralds Sullenberger fyrir nokkrum vikum, hefur nú sett saman tvö afhjúpandi myndbönd til viðbótar, sem setja málefni líðandi stundar í samhengi: Glitnir 1 og Glitnir 2. Látið þetta ekki fram hjá ykkur fara. Í myndböndunum eru einfaldlega tekin saman atriði sem hafa komið fram í fréttum og túlkað og skýrt með trúverðugum og allsgáðum hætti hvernig óprúttnir fjármálamenn spiluðu með fólk og högnuðust sjálfir gríðarlega á því.

No comments:

Post a Comment