Tuesday, October 14, 2008

Hvað ber að gera og hvað ber ekki að gera?

Á Austurvelli eru dagleg mótmæli gegn efnahagsástandinu, klukkan tólf á hádegi. Mætið á morgun og takið vini og ættingja með. Sýnum ráðamönnum að okkur sé ekki sama, að við krefjumst breytinga. Rekum af okkur það slyðruorð, að við nennum aldrei að mótmæla neinu, þótt ekki sé nema í þetta eina skipti.

Ráðamenn þjóðarinnar spóla í sinni eigin for og á meðan sökkvum við dýpra og dýpra. Sumir þeirra tala um Evrópusambandið eins og einhvern Mahómet sem muni leysa málin. Aðrir tala um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, eins og hann muni redda okkur. Þeir sem þannig tala eru greinilega haldnir alvarlegum misskilningi. Þórarinn Hjartarson rekur það í grein dagsins á Egginni:

Náð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er dauði.

~~~ *** ~~~ *** ~~~

"Stefanía Óskarsdóttir ... segir að Íslendingar standi frammi fyrir því að ræða alvarlega, í hvers konar þjóðfélagi þeir vilja búa." (*) Það eru orð að sönnu. Það er kominn tími til að taka allt til endurskoðunar, ekki bara stýrivexti og krosseignatengsl, heldur líka lýðræðið, stjórnmálaflokkana, eðli hagkerfisins, stjórnarskrána og heilan helling af öðru. Við þurfum að taka allt þjóðfélagið til endurskoðunar, halda í það sem er þess virði að halda í en henda miskunnarlaust í burtu því sem spillir og finna nýtt í staðinn.

~~~ *** ~~~ *** ~~~

Ég er sammála Guðna Ágústssyni um að við eigum ekki að koma skríðandi til Evrópusambandsins. Ef Ísland hefur þörf fyrir meiri samninga við það, þá á að semja þegar samningsstaðan er sterk, ekki þegar við þurfum að koma eins og beiningamenn.

Hér er grein um málið, eftir sjálfan mig: Nokkrar ástæður fyrir andúð á Evrópusambandinu;

...einnig má benda á grein Ólafs Þórðarsonar: Hrædd og skjálfandi í pilsfaldi ESB.

~~~ *** ~~~ *** ~~~

Össur vill lífeyrissjóði í Kaupþing. Grétar hvetur til varkárni í þeim efnum. Ég sammála Grétari -- án þess að maður útiloki neitt, þá væri glapræði að hlaupa að neinu. Á þeim nótum er hér vísukorn:

Púkkar upp á auðvaldið
sem okkur hefur glapið.
Össur bindur vonir við
að við öll borgum tapið.

No comments:

Post a Comment