Wednesday, November 26, 2008

Piparúði, Taíland og Kosovo

Á laugardaginn lét löggan bara vaða með piparúðanum, fólkið var ekki varað við. (Fólk hefði hvort sem er varla heyrt það vegna hávaða og troðnings.) Úðinn fór bara af stað. Á myndbandsupptökum heyrist greinilega kallað "Gas gas" -- það eru mótmælendur sem kalla það til að vara aðra mótmælendur við, eftir að gasið er byrjað að sprautast.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er ekki allt sem sýnist í þessum mótmælum í Taílandi. Fólkið hefur auðvitað góða ástæðu til að mótmæla og vera reitt, en mótmælahreyfingin er leidd af annarri spilltri valdaklíku sem er engu betri en sú sem er við völd. Þessi mótmæli eru ekki byltingarsinnaðri en svo að konungurinn og herinn tilheyra klíkunni sem leiðir þau. Hver veit samt, þegar svona eldar eru einu sinni kviknaðir kann að vera að þeir njóti hans ekki síðastir sem fyrstir kveiktu þá. Kannski bera Taílendingar gæfu til að steypa öllu gamla draslinu og reisa betra ríki á rústum þess gamla. Það er samt ekki ýkja líklegt held ég. Lesið um málið á WSWS: Thailand’s political crisis intensifies amid economic slowdown.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Þrír Þjóðverjar í gæslu í Kosovo segir Mogginn.

Í stjórnkerfum heimsins vinna menn sem eru heiðarlegir og grandvarir og menn sem eru óheiðarlegir og svífast einskis. Þeir síðarnefndu eru hlutfallslega fleiri í leyniþjónustunum en öðrum stofnunum stjórnvalda. Stundum sjá þeir að óhæfuverk geti komið þeim vel ef það er hægt að kenna andstæðingunum um þau. Stundum komast þeir á snoðir um óhæfuverk sem andstæðingarnir eru að plana en sjá sér leik á borði með því að stöðva þau ekki heldur nýta sér þau. Dæmi um þetta er byssupúðursplottið í London árið 1605 og neðanjarðarlestasprengingarnar í sömu borg í júlí 2005. Þessi grófa taktík er stundum kölluð "LIHOP" (fyrir "Let it happen on purpose").

Nú, svo er það stundum að þessi krímínel element sjá að eitthvert óhæfuverk mundi hræða almenning til að sætta sig við útfærðar valdheimildir, eða jafnvel fagna þeim, án þess að andstæðingarnir séu með neitt slíkt á prjónunum. Þá er alltaf hægt að fremja bara sjálfur óhæfuverkin, gæta þess vandlega að enginn sjái í gegn um samsærið, kenna andstæðingunum strax um og hjóla beint í að þjarma að þeim. Sígilda dæmið um þetta er þinghúsbruninn í Berlín 1933. Önnur dæmi þar sem þetta er sennileg skýring er þegar USS Maine sprakk í höfninni í Havana árið 1898 og varð Bandaríkjamönnum tilefni til stríðs við Spánverja, þar sem þeir unnu Kúbu og Filippseyjar af þeim, -- og síðan 11. september 2001, sem varð Bandaríkjastjórn tilefni til að hjóla í mannréttindi bandarískra borgara og ráðast inn í a.m.k. tvö ríki, allt í nafni "stríðs gegn hryðjuverkum". Þessi grófa taktík er stundum kölluð "MIHOP" (fyrir "Made it happen on purpose").

En svo er það stundum að heiðarlegir menn, sem oft eru í lögreglunni, fletta ofan af svona plottum og ná jafnvel að stöðva þau. Þegar G8-fundurinn stóð yfir í Heiligendamm í Þýskalandi í fyrra, þá voru mjög mikil mótmæli gegn þeim í Rostock og víðar í nágrenni Heiligendamm. (Þorpið sjálft var girt af og gríðarlega öflug löggæsla hélt því einangruðu frá mótmælum.) Nú, á einum vegatálmanum fundu öryggisverðir þýsku lögreglunnar sprengiefni í bíl sem nokkrir bandarískir leyniþjónustumenn óku. Þeir sögðu lúpulegir að þeir hefðu nú bara verið að reyna hversu örugg öryggisgæslan væri. Einmitt.

En núna eru það þýskir leyniþjónustumenn sem böndin berast að, í Kosovo. Spurningin hlýtur að vakna, hvað gengur þeim til? Hvaða hagsmunir búa að baki? Ég veit það ekki. Kannski vilja þeir láta líta út fyrir að reiðir Kosovo-Serbar séu að hegna ESB fyrir að styðja sjálfstæði Kosovo.

En eitt er víst: Svona fréttum verður að halda til haga.

No comments:

Post a Comment