Friday, October 10, 2008

Tilkynning og hugleiðingar dagsins

Það á víst að láta þetta berast áfram. Ekki stendur á mér að verða við því:
Við krefjumst þess að Seðlabankastjórar segi af sér á stundinni. Nú er nóg komið!
Safnast verður saman við styttuna af Ingólfi Arnarssyni
kl. 12, þann 10. október og rölt yfir að torginu fyrir framan Seðlabankann.
Nallinn verður sunginn og gjallarhorn til staðar fyrir þá sem taka vilja til máls.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Menn segja að eins og General Motors fer, svo fari Bandaríkjunum. Nú, í gær lækkuðu bréf GM um 31%. Miðað við hvernig reksturinn hjá þeim gengur, þá eiga þeir eftir að missa fleiri spóna úr aski sínum áður en langt um líður. Og svo fer Bandaríkjunum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Gærdagurinn bar þó a.m.k. eina gleðifrétt í skauti sér: SPRON og Kaupþing eru ekki að fara að sameinast! Guðlegt inngrip? Ég skal ekki segja – en ég er alla vega hress með það. Eins og ég rakti í bréfi til stjórnenda SPRON um daginn, nenni ég varla að hætta viðskiptum við Kaupþing í annað sinn, þótt fyrra skiptið hafi verið mjög ánægjulegt nú fyrr á árinu. En ég þarf kannski ekki að hafa áhyggjur af því þessa dagana. Hitt veit ég, að SPRON fær áframhaldandi séns.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Björgólfarnir bera ekki nafn með rentu. Ég spái því að þeir séu nú í Sviss og hafi látið breyta á sér andlitunum með skurðaðgerð. Nema þeir séu í felum í helli í ættbálkahéröðum í Norður-Pakistan, þar sem ég held reyndar líka að Elvis dyljist. Síðari tilgátan kann að vera sennilegri; ég sá það í fréttum að Pakistan er líka í björtu báli af efnahagserfiðleikum.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Það er ekkert annað en móðgun út í okkur öll, þegar Davíð Oddsson þykist enga ábyrgð bera á ástandinu. Það er móðgun að ætlast til þess að við séum nógu heimsk til að trúa því. Hann kennir auðvaldsdólgunum um að hafa „misnotað frelsið“ og það sé þeim sjálfum að kenna. Nei Davíð, þeir misnotuðu forréttindin. Það „frelsi“ sem Davíð innleiddi var ekki frelsi fyrir fólk heldur fyrir peninga – það er að segja, gegn fólki. Auðmagn fylgir einfaldri reglu: Að éta eða vera étinn. Við vorum étin. Verði okkur að góðu.
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Talandi um snillinga og frjálshyggju (og menn í felum), þá hefur bloggið hans Friðbjörns Orra breytt um svip síðan ég sá það síðast. Er þetta nýskeð? Ég er mun ánægðari með það svona!
~~~ ~~~ ~~~ ~~~
Ég vil annars líka vekja athygli á þessu.

No comments:

Post a Comment