Saturday, November 29, 2008

Hugleiðing um byltingu

Síðasta bloggi mínu svaraði Eva Hauksdóttir í kommenti. Í staðinn fyrir að svara kommentinu þar, ætla ég að svara því og leggja út af því hér, í sér bloggi.

Það eru orðalagshártoganir hvort byltingar verða eða koma eða hvort fólk gerir byltingu eða byltir. Merkingin er sú sama. Það sem kemur og fer er byltingarástand. Kapítalisminn gengur í bylgjum; það skiptast á vaxtarskeið og kreppur og þegar kreppurnar brenna upp afkomu fólks er það sem byltingar komast á dagskrá. Fólk gerir ekki byltingar fyrr en það á engar aðrar leiðir út úr stöðunni. Fólk vill ekki leggja sig í hættu eða vandræði og þess vegna gerir það ekki byltingar meðan einhverjar aðrar leiðir virðast færar. Umbæturnar trompa byltinguna alltaf í venjulegu árferði vegna þess að þær eru ekki eins eldfimar.

Byltingin er ekki spurning um hvort fólk nennir eða ekki, heldur hvort fólk neyðist til þess eða ekki að gera hana eða, réttara sagt, hvenær fólk skilur að það neyðist til þess. Byltingar verða ekki í flippi eða vegna þess að einhver "nenni" að gera þær. Þær eru nauðsyn og þær koma ekki til af góðu. Þegar kerfið hrynur og fólk missir viðurværið, þá opnast augu þess: Kerfið bregst því og það skuldar þessu kerfi ekki neitt. Kerfið er heimskulegt og ósanngjarnt og það verður að koma á nýju kerfi sem er skynsamlegra og sanngjarnara.

Það eru vissulega til byltingarsinnar sem vilja byltingu en hafa "ekki skýra hugmynd um hvað eigi að taka við" og fá ekki "nógu marga með sér fyrr en við förum að sjá hungurdauða" og það eru til byltingarsinnar sem vilja byltingu en eru svo hræddir "um að fá bara verra ástand" að þeir leggja "ekki í að bylta neinu" sjálfir. Eva skipar sjálfir sér í fyrri flokkinn en mér í þann síðari. Ég held að æði margir byltingarsinnar séu í fyrri flokknum. Hver veit hvað "á að taka við"? Ekki þykist ég geta hannað hið fullkomna þjóðfélag. Ég get lagt fram vissar forsendur sem það ætti að byggja á, en ég veit ekki hvort ég treysti mér til að útfæra það í smáatriðum. En það er heldur ekkert mitt hlutverk. Það eru ekki róttæklingarnir, hvorki sem hópur né sem einstaklingar, sem gera byltingar, það er bara venjulegt fólk. Byltingin stendur og fellur með alþýðunni.

Þar stendur nefnilega hnífurinn í kúnni. Ástæðan fyrir því að ég hef ekki gert byltingu er ekki sú að ég sé smeykur við hvernig málin gætu þróast. Ástandinu gæti alveg hrakað mjög mikið, en ef það væri gerð bylting þykir mér samt líklegra að það mundi skána. Málið er bara að hingað til, a.m.k. frá því í stríðinu, hefur íslensk alþýða ekki verið á byltingarbuxunum. Fyrr en kannski núna á allra seinustu vikum.

Eva svartsýna skrifar að "þeir sem á endanum munu gera byltingu eru þeir sem kæra sig því aðeins um byltingu að þeir fái völdin sjálfir" -- þessu játa ég bæði og neita. Ég neita því að litlar klíkur geri byltingar. Þær gera valdarán. Oftast vinna þær sig samt upp metorðastiga kerfisins án þess mikilla átaka; það er auðveldara og öruggara fyrir alla hlutaðeigandi. Hins vegar játa ég því að þeir sem á endanum geri byltinguna geri það til að fá völdin sjálfir. Skárra væri það nú. Það er nefnilega alþýðan sem gerir byltinguna þegar öllur er á botninn hvolft, alþýðan og alþýðan ein.

Hún hefur ekki gert það hingað til vegna þess að skilyrðin hafa ekki verið rétt. Það eru tvenns konar skilyrði sem þurfa að passa til þess að bylting geti orðið:

(A) Hlutlæg (objektíf) skilyrði eru efnahagsástandið. Á meðan flestir eru mettir, þá eru flestir latir og hafa engan áhuga á að gera byltingu. Þegar hin reglubundna kreppa kemur -- og hún kemur alltaf aftur og aftur -- þá byrjar fjöldinn að missa viðurværið eða hrapar í lífskjörum. Því verra sem ástandið verður -- og það verður verra og verra þangað til kreppan leysist (og til að leysa kreppur þarf vanalega annað hvort stríð eða byltingar) -- þess fleiri sjá að bylting er eina leiðin. Þegar hlutlæg skilyrði hafa opnað augu nógu margra, þá getur orðið bylting.

(B) Huglæg (súbjektíf) skilyrði eru vitundar- og skipulagsstig fjöldans, hin viljaða og/eða vitaða hlið á málinu. Það hefur til skamms tíma ekki verið hátt á Íslandi. Flest fólk hefur ekki áhuga á að velta fyrir sér stéttapólitík eða byltingu fyrr en það fer að leita að rótum vandamálanna, og það gerir það ekki fyrr en vandamálin reka það af stað til þess og lausnirnar láta á sér standa. Huglægu skilyrðin fela m.a. í sér hversu meðvitað fólk er um hvernig kapítalisminn virkar, hvort það skoðar samfélagið út frá þjóðerni, stéttum eða öðru og hvort það á sín eigin óháðu baráttusamtök.

Til skamms tíma hafa huglægu skilyrðin ekki verið til staðar og þau hlutlægu ekki heldur. Þegar hlutlægu skilyrðin byrja að breytast -- þ.e.a.s. þegar kreppan kemur -- þá snúast hjólin hins vegar hratt og breytingarnar geta orðið örari en við áttum okkur á. Fólk getur logað upp í skilningi, meðvitund og umfram allt hneykslun og reiði og baráttuanda á svipstundu. Það hefur verið að gerast hér á Íslandi undanfarnar vikur.

Spurningarnar er bara hvað þessi öldudalur verður djúpur og langvarandi og hversu fljótt fólk er að tileinka sér baráttuanda og skynsamlegar hugmyndir. Það eru atriðin sem skera úr um hvort það verður bylting eða ekki.

Ég er sæmilega bjartsýnn.

No comments:

Post a Comment