Tuesday, October 7, 2008

Kraftur og slen

Síðasta vika var mjög kraftmikil, en fór öll í garðvinnu á meðan veður leyfði, þ.e.a.s. þangað til snjór var kominn yfir allt. Ekki eltist ég jafnmikið við fréttir og umræðu alla dagana. Ég fór svo og sá Tý á laugardagskvöldið og einhvern veginn fór sunnudagurinn að miklu leyti í eitthvert slen. Ekki var það þó vegna þess að ég hefði tekið svona hraustlega á því kvöldið áður, meira vegna óreglulegs svefns, held ég.

Á gamals aldri er ég farinn að taka eftir þeirri ónáttúru hjá sjálfum mér, að verða syfjaður þegar fer að rökkva og vilja helst fara að sofa fyrir miðnætti, en vakna helst vel í tæka tíð fyrir morgunfréttir RÚV. Mjög hentugt fyrir næturvörð, hmm?

Ég lét loksins verða af því í vor, að ganga í Kvæðamannafélagið Iðunni. Hef nú farið á nokkra fundi, sett saman nokkrar vísur sem ég hef fleygt hér á blogginu, og legið yfir silfurplötunum líka. Þetta er hobbí sem ég kann að meta.

Örvæntingin, sem stór hluti þjóðarinnar var að sökkva í síðast þegar ég vissi, hefur farið nokkurn veginn fram hjá mér. Mikið er ég ánægður með reka hvorki bíl né skuldabagga.

No comments:

Post a Comment