Monday, September 1, 2008

Heill hildi frá ... svona nokkur veginn

EFtir sex vikna ferðalag um Evrópu sneri ég heim rifbeinsbrotinn og hef verið á leyfi frá vinnu vegna þess. Undanfarnar vikur hafa ekki verið alveg viðburðasnauðar þótt ég hafi lítið bloggað. Ég fór ásamt Rósu austur í sumarbústað, þar sem ég tíndi kíló af krækiberjum og 5 kíló af bláberjum. Þá fór ég í berjaferð á Fáskrúðsfjörð/Reyðarfjörð (með viðkomu í Grímsnesi), þar sem ég tíndi allt í allt um 25 kíló af krækiberjum, 7 kíló af bláberjum og 5,5 kíló af aðalbláberjum. Fyrir utan þetta hef ég tínt eitt og hálft kílí af sólberjum og ellefu af rifsberjum og á eftir að tína eitthvað meira. En er s.s. kominn upp í um það bil 56 kíló allt í allt. Ekki slæm byrjun það, eða hvað?



Árið 2003 mætti til leiks á Töfluna notandinn Tanngnjóstur, sem því miður hefur verið tekinn af lífi núna. Í einum umræðum, þar sem spurt var hvað fólk mundi velja ef það mætti velja sér dauðdaga sjálft, þá sagðist Tanngnjóstur óska þess að vera étinn af villidýri. Þá orti ég til hans gagaraljóðið "Tanngnjóstur reynir að láta ísbjörn éta sig" og póstaði því. Í fyrradag tók ég það ljóð, sem er löngu dottið út, og fínpússaði það aðeins. Hér er afraksturinn:

Tanngnjóstur reynir að láta ísbjörn éta sig II
(Upphaflega ort 21. nóvember 2003, fínpússað 29. ágúst 2008)
Vésteinn Valgarðsson

Leggur hafís landi að.
Lítur út að sjónarrönd
ungur maður, þenkir það:
„Þetta er tími að fórna önd.“

Skíði bindur skóna á,
skellir á sig húfubút.
Hugsar: „Því að nesta ná?“
Næst frá hlaði rennur út.

Heldur út á hafsins þak,
hemin brakar undir fír.
Sér á hjarni hramma tak
- hér mun gott að elta dýr.

Fylgir Gnjóstur fóta slóð,
fæti veldur lagður sjór.
„Dreifast mun vort dýra blóð,
drekka skal það kaldur snjór.

Étinn trú'eg verði vel,
villidýr skal mettun fá.
Þar í iðrum dimmum dvel,
dauði væri flottur sá!“

Sígur rökkur austri úr
- ekki styttir skugga þá.
Úr lofti finnur skafla skúr.
Skata faðmar þoka grá.

Gegnum veður vont hann brýst,
vandfundin er skepnu leið.
Dýrið finnur seggur síst,
sárna gerist kulda neyð.

Gnjóstur fram á gengur dýr,
gleiðan hefur skolt og þjó.
Æpir, stappar borgarbýr,
björninn ekki vaknar þó.

Nemur af sér skati skíð.
Skepna verði á fætur ræst.
Sefur björninn sem í híð
sé og ekki vakna læst.

Af afli tekur halur hopp
- hygg eg lipurt væri mjög.
Lendir - brestur! - *skvúmp* og *skvopp*
- skvettist sjór á fannalög.

Dettur kappi kraps í vök,
köldum sjó hann dreypir á.
Sunds þó reynir rekkur tök
- rostungar hann etið fá.


Þegar þessari endurgerð var lokið hugsaði ég að það mætti nú gera betur en þetta. Svo ég ákvað að yrkja allt saman upp, undir dýrari bragarhætti. Mansöngserindið er sjöþætt braghenda, hinar skárímaðar, frumþrístiklaðar, síðhendar braghendur. Takið, með öðrum orðum, eftir innríminu:

Tanngnjóstur reynir að láta ísbjörn éta sig III
(Ort upp úr (II) þann 29. ágúst 2008)
Vésteinn Valgarðsson

Vil ég bjóða vænum fljóðum Vestra róður.
Vil eg hljóð að veitist óðum,
vil eg tróður hugi að ljóðum.

Lífs úr sút þá leit hann út, hann lagðahrútur,
breiðu ísa gefur gætur,
gjörði rísa strax á fætur.

Tækifæri telur hæru-Týr að væri
lífi að fórna, létt í spori
leika skórnir sem á vori.

Ísaröndu rekkur öndrum rann frá löndum.
Vetti bar á báðum mundum
- blástur var á frosnum grundum.

Lífs ei gjarn nú lýður hjarna- leitar -bjarnar.
Dauðaþrár hann dreymir ærnar,
dýrið fláa noti klærnar.

Veðrið lægir, lýðum vægir lagður Ægir.
Sporin hrammahunds er eygir
hraðar þrammar bogasveigir.

Laut var freðin, ljúft á beði lá þar héðinn.
Af sér losar skati skíðin,
í skottið tosar ekki kvíðinn.

Bersi ei gegnir Gnjósti er egnir gramur þegninn.
Áfram lúrir heimskauts högninn,
þótt hvetji búri raddar gögnin.

Æstum Gnjósti býr í brjósti bráðar þjóstur.
Röddu dátt hann brýnir byrstur,
belgja knátti dauðaþyrstur.

Gnjóstur klappar, knýr og stappar kuldahrappi.
Er í blundi bjarnarseppi,
brestur undan klaki greppi.

Sundtök drengur æfir, engist, illa gengur.
Veisla rostungs verður lungur
í vök við brostin ísaklungur.

No comments:

Post a Comment