Monday, June 9, 2008

Ferðasaga frá ágúst 2007 -- III. hluti

Vegna lengdar pósta ég þessari sögu í nokkrum hlutum. Þetta er þriðji hluti. Hér má lesa: I. hluta og II. hluta. Afgangnum verður póstað á næstu dögum.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Lestin kom til Ljubljana klukkan 06:05 að morgni fimmtudaginn sextánda ágúst. Ég var örþreyttur og glorsoltinn. Ég stakk farangrinum mínum inn í þar til gert hólf, borðaði svo það skásta sem ég fann á lestarstöðinni, sem var eitthvað snakk og kaka. Svo settist ég á kaffihús, fékk mér kaffisopa og tvo bjóra og las frameftir morgni. Þar kláraði ég síðustu síðurnar í Opið land (og ég get ekki sagt að ég sé bergnuminn af lestrinum) og las síðan Að vera eða sýnast eftir Hörð Bergmann, og það er bók sem allir ættu að lesa; hnífskörp greining á sýnimennsku og látalátum markaðsskrumara og auglýsingasnápa, orðræðu og skilyrtri hugsun og þar frameftir götunum – í alvöru talað, lesið hana, hún er stutt og hnitmiðuð og auðlesin, en skilur mikið eftir sig.
Ég gekk sem leið lá frá lestarstöðinni í Ljubljana, eftir stórri götu, þangað til ég kom að Drekabrú. Svo gekk ég eftir suðurbakka árinnar þar til ég kom að Þreföldubrú, og norður yfir hana, þar sem ég settist á gangstéttarkaffihús og kvittaði fyrir komuna með því að skrifa nokkur póstkort. Kaffihúsið var á aðaltorginu í miðbænum, með Þreföldubrú á aðra hönd og Laxableikukirkju á aðra. Í flestum borgum er aðaltorgið prýtt styttu af einhverjum kóngi á hesti og með sverð í hendi, en í Ljubljana er það þjóðskáldið sem vakir yfir aðaltorginu. Yfir honum er listadís sem heldur lárviðarkransi yfir höfði hans, og sú dís táknar stúlkuna sem hann fékk aldrei að kvænast, en varð honum innblástur í óteljandi harmaljóð. Sönn skáld eru í ástarsorg alla ævi, ekki satt? Eftir þetta fór ég yfir á Lýðveldistorg og leit á háskólann sem Hrafn meðleigjandi minn var á leiðinni í. Síðan fór ég yfir á Torg frönsku byltingarinnar, og aftur suðurfyrir ána og austur eftir bakkanum og inn í gamla bæinn og skoðaði hann; gullfallegur. Þegar ég hafði gengið nokkurn spöl eftir helstu götunni í gamla bænum, ákvað ég að leggja leið mína í gegn um einhver undirgöng sem voru upphaf á þröngri, gamalli götu. Heitir sú Kljucavnicarska, og þar, í húsi númer fimm, fann ég krá sem heitir Pr’ Skelet – Beinagrindabar. Það er kannski flottasta krá sem ég hef séð. Kjallari, allur innréttaður með beinagrindum, bæði af fólki, dýrum, og ýmsum skrímslum og meira að segja dreka. Þegar ég ætlaði á klósettið fann ég það ekki, spurði hvar það væri og var bent á að fara „út eftir þessum gangi og til hægri“ – og þar sá ég ekkert klósett. Þá kom afgreiðslustúlkan með mér og ýtti á bókahillu – sem opnaðist og við blasti þetta líka huggulega kló!
Ég fór svo frá Pr’ Skelet til að sækja Rósu á lestarstöðina. Hún var væntanleg um klukkan 14 frá München, og lestin hennar kom frekar stundvíslega. Það urðu fagnaðarfundir. Við fórum svo og fundum okkur gistingu. Ég reyndi líka að ná í Mateju og Drago, vinafólk foreldra minna sem býr í Ljubljana, en það svaraði ekki hjá þeim og ekki hjá Urc syni þeirra heldur, því miður. En þar sem ég var búinn að skoða margt af því helsta, þá var ég fljótur að sýna Rósu það líka. Síðan fórum við á gistihúsið. Þetta gistihús var dálítið spes. Það er semsé heimavistarskóli á vetrum, en gistihús á sumrum, og allt innréttað eins og frekar óvistlegur austurevrópskur heimavistarskóli. Morgunmaturinn var ekki sérlega góður heldur. En það var ekki dýrt.
Seytjánda ágúst fórum við af stað og tókum kláf upp í Ljubljana-kastala. Hann er ansi hreint flottur. Þar ægir öllu saman, rómverskum hleðslum, rómönskum byggingarstíl, hinum og þessum síðari tíma stílum og síðan hrikalegum steinsteypukassa frá áttunda áratugnum. Við fórum upp í útsýnisturninn, þaðan sem sér yfir um þriðjung Slóveníu í góðu skyggni. Fengum okkur líka öl, og litum inn í gallerí þar sem má kaupa slóvenskt handverk. Þar á meðal voru hefðbundnar framhliðar á býflugnakassa. Þær voru alveg æðislegar; mótífin voru eitt og annað úr reynsluheimi og ævintýrum fólks í gamla daga; þar á meðal kóngurinn sem situr við borðið sitt, sem svignar af gullpeningum, með skegg svo sítt að það nær niður á borð. Einnig „útför veiðimannsins“, mótíf sem kom fyrir í nokkrum útgáfum, þar sem veiðimaðurinn er dauður og dýrin eru að bera hann til grafar: Gaupa með prestakraga, rebbi heldur á krossi, hérinn og úlfurinn halda á líkbörunum og fleiri veiðidýr fylgja á eftir, eitt klætt sem meðhjálpari og annað með Biblíuna og eitt þerrar hvarmana með vasaklút. Eitt mótífið sýndi Kölska haldandi andlitinu á konu niður að hverfisteini – það táknar hina hvössu tungu sem konur nota víst til að slúðra með – og svo var eitt þar sem björn var að stela býflugnabúi, býflugurnar flugu sjóðvitlausar í kring um hann en býflugnabóndinn skaut á hann með haglabyssunni sinni. Svakalega skemmtilegar, naívar og sjarmerandi myndir.
Þar sem lestin okkar átti að fara upp úr hádegi stöldruðum við ekki svo lengi við í kastalanum, en á leiðinni þaðan komum við samt við á Pr’ Skelet til þess að fá okkur einn Gorski Skrat – fjalladverg – kokteil sem samanstendur af 1 melónuvodka, 1 amaretto, 1 malibu, dass af grenadine, ananassafa og ísmolum, og smakkast hreint ljómandi vel. Og síðan héldum við á lestarstöðina, en næst ætluðum við til Podgorica.
Lestin til Podgorica fór semsagt upp úr hádegi. Júgóslavneskar lestir eru ekki beint fljótar í förum, og auk þess er lestakerfið býsna götótt, þannig að við þurftum að fara í gegn um Zagreb og Beograd – það er að segja í risastóran krók – og ferðalagið tók 19 klukkutíma! Við ókum og ókum, átum, lásum, spjölluðum, sváfum, en þessi ferð virtist engan endi ætla að taka. Nokkru eftir miðnætti þurftum við að skipta um lest. Karl og kona frá Serbíu stóðu sig eins og hetjur í að útskýra fyrir okkur á serbókróatísku að við ættum ekki að fara út þarna heldur þarna – og í leiðinni sagði karlinn okkur að við skyldum kíkja til Lovcen í Svartfjallalandi; kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.
Á lestarstöðinni í Novi Beograd stigum við út og biðum í hrollkaldri nóttinni eftir lestinni okkar. Hún kom fljótlega, og upp í hana fórum við, og í henni gátum við loks lagt okkur, og var ekki vanþörf á.
Við vöknuðum frekar árla morguns þann átjánda ágúst og vorum þá búin að skröltast alla nóttina í þessari mjög svo nýtískulegu lest. Við ókum í gegn um fjallgarð, ýmist um göng eða einstigi, þar sem útsýnið var í einu orði sagt stórfenglegt. Alveg stórfenglegt. Hrikaleg fjöll, öskuljós að lit, snarbrattar hlíðar og hamrarnir uppeftir öllu og allt saman vaxið runnum og smátrjám á stangli, en hyldjúpir dalir kljúfa fjöllin í rætur niður og gljúfur og gil rista þau þver og endilöng, en lækjarsprænur skoppa niður eftir giljunum og ár bugðast eftir dalbotnunum.
Við störðum hugfangin út um gluggana og tókum myndir. Síðan nálguðumst við Podgorica – sem fyrrum hét Titograd, höfuðstað Svartfjallalands. Borgin sú er á stærð við Reykjavík og nágrenni – nálægt 180.000 íbúar, en tæplega 700.000 í landinu öllu, sem er nálægt 30.000 ferkílómetrum að stærð. Leiðin lá í gegn um skítug, lágreist og gisin úthverfi, lestarteinarnir voru ekki girtir af. Ég ætla ekki einu sinni að lýsa klósettinu.
Þegar við stigum út í Podgorica var semsagt skammt liðið á morgun laugardagsins 18. ágúst. Klukkan var á áttunda tímanum. Við litum í kring um okkur á brautarpallinum; járnbrautarstöðin var lítil og lág og virtist þarfnast viðhalds. Þjóðernissinnað veggjakrot var sýnilegt út um allt. Við fórum inn, vorum svöng svo við litum inn á matsölustað sem var þarna á lestarstöðinni. Lögregluþjónn og lestarvörður sátu og drukku kaffi, grindhoraður þjónn á miðjum aldri, með mjög stórt yfirvararskegg, fékk okkur matseðil en við fundum ekkert þar sem okkur leist á. Við sáum inn í eldhúsið, þar sem stóðu nokkrar gríðarstórar grýtur sem bullsauð í, allt frekar skítugt og fátæklegt. Við þökkuðum fyrir okkur og fórum út.
Við áttum pantað herbergi á Hótel Europa, sem við vissum ekki hvar var. Planið var því að fá okkur að éta og finna svo hótelið og gera svo eitthvað annað. Við byrjuðum á því að spyrja í hvaða átt miðbærinn væri, og gengum svo þangað. Litum inn í nokkrar búðir á leiðinni til að biðja um plan grada (kort af bænum) og spurðum líka til vegar nokkrum sinnum. Í hvert skipti spurði fólk okkur hvaðan við værum, og var alltaf jafn hissa – „Hvers vegna Svartfjallaland??“ vorum við spurð oftar en einu sinni. Gjaldmiðillinn í Svartfjallalandi er evra, eftir aðskilnaðinn frá Serbíu 2006. Við sáum lókal bjór, sem kostaði eina evru eða svo, og keyptum hann til að smakka – hann heitir Niksicko, og er alveg ljómandi góður, alveg hreint ljómandi. Á leiðinni niður í bæ gengum við fram á dálitla búð, þar sem við keyptum okkur ýmislegt matarkyns, en okkur var farið að svengja. Eftir dálitla göngu (kannski 2 kílómetra) komum við að lystigarði, þar sem við settumst á bekk og tókum til matar okkar. Rúgbrauðið sem ég hafði keypt reyndist vera eins konar jólakaka, með einhverjum hrísgrjónum í, ekki vond, svosem, en ekki heldur það sem mann langaði að éta eintómt klukkan níu að morgni í steikjandi hita á bekk í Podgorica. Svo ég henti henni. Í lystigarðinum sáum við eðlu, pínulitla og græna, sem stóð fyrst og góndi upp í loftið en þaut svo í burtu þegar hún varð þess áskynja að það var verið að horfa á hana. Maurarnir urðu líka hressir yfir jólakökumylsnunni sem hraut niður á gangstéttina. Við sáum einn maurinn taka stykki af skorpunni, sem var á stærð við nögl á litla fingri, og rogast með það, fyrst framaf gangstéttarbrún, og síðan upp eftir þverhníptri hliðinni á gangstéttarhellunni. Það var mögnuð sjón, pínulítið kvikindið með að minnsta kosti fimmtíufalda þyngd sína í eftirdragi upp lóðréttan hamarinn – rétt eins og ég væri að tosa sendiferðabíl upp brúnina á Almannagjá.
Þegar ég var í Ungverjalandi um árið, þá sá ég furðulega margar verslanir sem seldu kvenföt og kvenskó af lakara taginu. Ég furðaði mig samt ennþá meira yfir fjölda brúðarkjólaleiga. Í Podgorica eru það apótekin sem varla er þverfótandi fyrir. Alveg hreint ótrúlega mörg. Á einu fjölbýlishúsinu sáum við þrjú hlið við hlið á jarðhæðinni, og eitt eða tvö til hliðanna.
Við spurðum konu til vegar, í hvaða átt Hótel Europa væri, og hún benti til suðausturs og sagði að það væri við hliðina á rútustöðinni, sem væri við hliðina á lestarstöðinni, sem við vorum að koma frá. Jæja, við snerum þá við og gengum þangað, og eftir drjúgan spöl spurðum við aftur til vega, og höfðum þá farið allt of langt. Við snerum þá aftur við, fundum rútustöðina, og spurðum þjón á veitingahúsi til vegar, og þá sáum við hvar Hótel Europa var.
Hótelið var skínandi fínt. Hverfið sem þar er í er allt drabbað niður – og húsin af miklum vanefnum byggð. Nema þetta hafi verið fátækrahverfi frá upphafi. Kassafjalir og bárujárn; þetta minnti helst á Mexíkóborg eða eitthvað. Ryk og drasl. En alveg hreint skínandi huggulegt hótel. Það var nú ekki ókeypis, en bæði snyrtilegt og rúmgott herbergi, og ég hugsa að við höfum fengið hreppstjórasvítuna, þar sem við fengum svalir sem vissu út yfir laufskálann á framhliðinni, með ægifagurt útsýni yfir ryðgaða lestarvagnana á lestarstöðinni við hliðina. Loftkælingin var með sterkara móti. Rósa lagði sig, en ég settist út á svalirnar með bjór í annarri og bók í hinni, á nærbrók einni fata. Vegna sterkrar sólar var ekki hægt að sitja á garðhúsgögnunum nema breiða blaut handklæði á þau fyrst. Það fór nú bara ansi vel um okkur, þannig að okkur lá lítið á.
Það leið á daginn og það fór að rökkva. Við hugsuðum okkur til hreyfings, enda var okkur farið að svengja. Við röltum út af hótelinu og ætluðum að finna okkur veitingastað – það gat varla verið erfitt. Það vildi svo til að við vorum mun fljótari að finna krá, litla svakalega „lókal“ krá þarna rétt við hlið hótelsins. Þar sem við vorum líka þyrst, ákváðum við að tékka á henni. Fórum inn. Kráin var tvískipt; aðalstofa fyrir innan og forskáli fyrir framan. Við fórum á barinn, ég pantaði „dva pivo, molim“ og svo settumst við út í horn, við borð sem þar var.
Lókal fólkið á lókal barnum sá langar leiðir að við vorum útlendingar – það var dálítið horft á okkur. Fljótlega kom karl af næsta borði og gaf sig á tal við okkur. Hann var forvitinn um hver við værum og hvaðan og hvers vegna og allt það. Hann reyndist sjálfur vera eigandi apóteks, og var á djamminu með tveim eða þrem aðstoðarmönnum sínum. Við skröfuðum og skröfuðum. Hann var á sjöunda eða áttunda glasi. Hann sagði okkur hvað hann væri hrifinn af gengilbeinunni. Líka hvað Svartfellingar hefði stórt hjarta – „hér er pláss fyrir alla“ sagði hann, og nefndi til dæmis að einn félaga hans, hann Slavko, væri Serbi. Þriðjungur landsmanna væru Serbar, og það gerði ekkert til, hér væri nefnilega pláss fyrir alla, allir velkomnir í þessu litla landi með stóra hjartað. Hann spurði hverrar trúar ég væri. Ég sagðist vera trúleysingi. „Nú? Jæja, það er allt í lagi líka,“ sagði hann, „hér eru allir vinir. Hér í Svartfjallalandi eru allir orþódoxar, í serbnesku rétttrúnaðarkirkjunni, allir!“ sagði hann. Ég spurði hvort það væru ekki 12% landsmanna Albanar – væru þeir ekki múslimar? Lyfsalinn hristi hausinn og fussaði. „Tölum ekki um þá,“ sagði hann. Við Rósa kímdum.
Næst á dagskrá var tónlistaratriði. Karl lék á skemmtara og kona söng og sló tambúrínu. Þetta var svartfellskt popp, sterklega innblásið af þjóðlagahefð. Svartfellingar halda enn þétt í gamla menningu, eldri en nágrannaþjóðir þeirra sem voru meira eða minna undir Tyrkjum og Austurríkismönnum, með tilheyrandi menningarblöndun. Tónlistina sjálfa hefði ég satt að segja tæpast þekkt frá annarri þjóðlegri tónlist frá Balkanskaga – og textarnir voru áþekkir milljón öðrum textum líka. Lyfsalinn knái þýddi þá yfir á ensku jafnóðum, eftir bestu getu – þeir voru yfirleitt á þá leið að skáldið elskaði konu svo mikið að það hefði getað dáið fyrir hana, hún vildi ekkert með hann hafa og hvað gat hann þá gert? – semsagt, mjög skemmtileg tónlist, fjörug og melankólísk.
Slavko og lyfsalinn og þeir buðu okkur upp á umgang til að sýna gestrisni sína. Áður en við náðum að bjóða þeim upp á umgang, buðu þeir okkur upp á annan umgang. Þannig að við buðum þeim upp á tvo umganga – og þeir okkur síðan aftur og svo við þeim. Þá sættumst við á að segja þetta gott. Við höfðum þá drukkið sjö drykki og þeir einhverju fleiri.
Klukkan var á ellefta tímanum að kvöldi þegar við komum út af kránni. Það rifjaðist upp fyrir okkur að við áttum ennþá eftir að snæða kvöldmat, svo við ákváðum að kíkja bara niður í bæ. Gengum þangað sem ég held alveg örugglega að sé aðaltorgið. Það er umkringt fjölbýlishúsum í júgóslavneskum stíl – ekki nein fagurfræðileg stórvirki þar á ferð, en óneitanlega mun vistlegra en kassafjalaskúrarnir í hverfinu þar sem hótelið okkar var. Við fórum á hálfgerðan handborgarastað og keyptum okkur handborgara. Sami staður var jafnframt bakarí (þar sem var hægt að fá mjög snotra Barbie-afmælistertu fyrir börn) og einnig var þar bjórkælir. Ég bað um Niksicko, en afgreiðslustúlkan bað mig vinsamlegast um að fara í bolinn minn – það samræmdist víst ekki dresskódinu að vera ber að ofan, þótt hitasvækjan væri lítt bærileg. Jæja, ég gerði það, fékk minn bjór, við keyptum þessa handborgara og settumst út á bekk.
Sígaunarnir komu aðvífandi. Hópur af sígaunastrákum á unglingsárum, á BMX-hjólunum og í hvítu íþróttagöllunum. Ég veit ekki hvað það er með mig og sígauna, en þetta var í annað skiptið sem ég tala við sígauna (fyrra skiptið var í Bosníu-Herzegóvínu árið áður), hann talaði þessa fínu þýsku eins og sá fyrri og hann reyndi líka að snuða mig. Armin hinn bosníski náði af okkur nokkrum dínörum, sem mér var svosem sama um (vorkenndi meira Kananum í næsta klefa sem missti bakpokann sinn) og þessi – tja, eftir að ég sagði honum að ég nennti ekki heim til hans að tala við pabba hans og gista, þá sníkti hann af mér tvær eða þrjár evrur. Ekkert mál – ég átti svosem skítnóg af þessum evrum – en mikið finnst mér betl eitthvað leiðinlegt. Þeir sígaunar sem ég hef kynnst hingað til hafa ekki verið þjóð sinni til sóma.
Eftir að hafa stutt fordóma mína gegn sígaunum með reynslu númer tvö, þá fórum við á Hótel Evrópu og lögðumst til svefns.

No comments:

Post a Comment