Tuesday, November 4, 2008

Mótmæli, lýðræði og spilling

Einhver reyndi að segja okkur það einhvern tímann að kerfið á Íslandi væri hið "óspilltasta" í heimi. Ég trúði því nú aldrei, en núna hugsa ég að það séu ansi margir fleiri sem trúa því ekki. Ef mælingamennirnir voru ekki beinlínis að skrökva, þá eru mælikvarðarnir þeirra alvarlega gallaðir. Og ef mælikvarðarnir eru ekki gallaðir, þá er heimurinn í verri málum en ég hélt...

Það eru ekki lítil umbrot sem við getum séð fram á í stjórnmálaumhverfinu hér á Íslandi á næstunni. Það þarf svosem enga spádómsgáfu til að segja þetta. Ef það verður ekki beinlínis bylting, þá verða eflaust mjög miklar umbætur. Ef það verður ekki bylting, þá veit ég ekki nema ég finni óspilltasta land í heimi og flytji þangað. Og þó. Ef það verður ekki bylting, þá verður áfram þörf fyrir byltingarsinnana, er það ekki?

Enginn af stjórnmálaflokkunum er mér að skapi. Nei, ég er ekki vinstri-grænn. Ég er ekki spenntur fyrir borgaralegum stjórnmálum og hef engan áhuga á því að "bæta kapítalismann". Það þarf nýjan stjórnmálaflokk sem er ekki enn einn krataflokkurinn heldur stefnir beinlínis að því að taka hér upp nýtt þjóðskipulag sem meikar sens, er réttlátt og auk þess lýðræðislegt. Ef stefnan er á eitthvað minna, þá hef ég meiri áhuga á kartöflugarðinum mínum.

Mótmælin undanfarið hafa verið mjög áhugaverð. Mogginn dregur úr fjöldanum eins og alltaf. Mitt gisk er að það hafi verið rúmlega 2000 á Austurvelli á laugardag. Kannski 2500. Það er náttúrlega massamæting -- en hvers vegna var hún ekki tíföld það? Ég er kannski of óþolinmóður. Fólkið á eftir að vakna við vondan draum. Fleira og fleira. Það mun fjölga í mótmælunum og það kemur ekki til af góðu.

Það er til fólk sem er ennþá svo sofandi að það amast við því að það sé verið að mótmæla. Ég hreint og beint átta mig ekki á þessu. Það er pínulítill hópur óreiðumanna, klaufa og mafíósa sem er að kurla hagkerfið í smátt og leggja þrælahlekki á okkur sem tekur margar kynslóðir að losna úr. Látum það vera að einhverjum lítist vel á þær horfur. Hann um það. En að ætlast til þess að öðrum lítist líka á þær, kommon!?!

Það hefur ekki farið framhjá mörgum að það er klofningur í mótmælahreyfingunni. Hann skrifast á tækifærissinna sem reyna að hædjakka þessari óánægjuöldu. Ég veit ekki í hvaða tilgangi -- en mig grunar það. Þetta er óþolandi ástand, það verður að segjast eins og er.

Lýðræði er hugtak sem margir misskilja. Sumir halda að það þýði það sama og kapítalismi. Aðrir halda að það þýði að kjósa Sjálfstæðisflokkinn á fjögurra ára fresti og halda kjafti þess á milli. Hvort tveggja er langt úti á þekju.

Að því sögðu ... þá kann að vera kominn tími til að dusta rykið af lýðræðisfrumvarpinu.

No comments:

Post a Comment