Friday, October 17, 2008

Nepalskir maóistar búa sig undir að lækka rostann í sjálfum sér

Kommúnistaflokkur Nepals (maóistar) er víst að undirbúa það að leggja niður maóisma-endinn í nafninu sínu. Óskandi að það væri vegna skuldaskila við maóisma, en það er ekki svo.

Prachanda formaður, sem núna er einnig forsætisráðherra í Lýðveldinu Nepal, hefur verið í Kína og tekið upp vinsamleg samskipti við Kínverja. Flokksforysta hins rangnefnda Kommúnistaflokks Kína mun hafa stungið upp á því við hann og Nepalina að þeir sameinuðu hina mörgu kommúnistaflokka sína í einn.

Næstráðandinn, dr. Baburam Bhattarai, benti á að viðskeytin væru til að aðgreina flokkana hvern frá öðrum, t.d. Kommúnistaflokkur Nepals (marxistar), Kommúnistaflokkur Nepals (sameinaðir marx-lenínistar) o.s.frv. Þar sem maóistaflokkurinn ber höfuð og herðar yfir hina, sé kannski eðlilegast að hann kalli sig einfaldlega Kommúnistaflokk Nepals. Nú þegar standa yfir viðræður við Kommúnistaflokk Nepals (sameining-miðja-Masal) um sameiningu. (Sjá Times of India.)

Hugmyndafræðileg skuldaskil eru einkum þau að Nepalirnir segjast munu halda tryggð við fjölflokkalýðræði og federalisma, en hvorugt mun hafa verið Maó gamla að skapi.

Það er engin vanþörf á að endurskoða arfleifð Maós. Sú endurskoðun er hins vegar vandmeðfarin, eins og önnur pólitísk endurskoðun. Ég þori ekki að leggja höfuðið að veði að Nepalirnir endurskoði það slæma og haldi því góða.

No comments:

Post a Comment