Thursday, June 19, 2008

Ferðasaga frá ágúst 2007 -- IV. hluti

Þetta er fjórði og síðasti hluti af ferðasögunni frá því í fyrra. Hér má lesa: I. hluta, II. hluta og III. hluta.

Ég man ekki hvað klukkan var þegar við fórum á fætur þann 19. ágúst. Plan dagsins var svosem einfalt: Ganga um gamla bæinn og miðbæinn. Við vorum vopnuð „plan grada“ svo við gengum beint niður í gamla bæ – Stari grad. Ef gamla bæ skyldi kalla. Eftir að hafa farið í súpermarkað og keypt mat og drykk og gætt okkur á því á einhverju sem leit út eins og áhorfendabekkir umhverfis stórt blómaker (?). Þjóðernissinnað veggjakrot var áberandi – einkum serbakrossar og áletranir svartfellskra snoðkolla.
Að kýldri vömb, röltum við inn í gamla bæinn, sem var síst beysnari en fátækrahverfið þar sem hótelið var. Furðulega rislítil hús, og fæst virtust einu sinni vera sérlega gömul. Helst einn turn, sem gat verið meira en aldar gamall. Eftir að hafa gengið þarna um og séð, tja, ekki neitt, þá fórum við á veitingahús og fengum okkur að éta. Ljúffengar steiktar lambapylsur. Eineygður flækingsköttur fékk líka bita.
Svo fórum við og skoðuðum „Þúsaldarbrú“, ferlega ljóta brú byggða í tilefni af árþúsundamótunum, tvær-þrjár styttur í stórum almenningsgarði og eitthvert hverfi þar sem annað hvert hús virtist vera yfirgefið og niðurnítt, og hefði getað orðið fyrirtaks hippakommúna. Vínviður og kívíjurtir í laufskálum spilltu ekki fyrir. Við enduðum á Búdda Bar, flottri knæpu með flottum innréttingum, sem var mælt með í Lonely Planet-bókinni. Jamm, fínasta knæpa það. Eftir að hafa setið þar í nokkra klukkutíma gengum við í gegn um miðbæinn, aftur á hótelið, og fórum frekar snemma að sofa.
Þann tuttugasta ágúst vöknuðum við snemma, pökkuðum niður farangri okkar, tékkuðum okkur út og fórum út á rútubílastöðina við hliðina. Þar keyptum við okkur miða með rútunni til Cetinje, og svo þaðan til Kotor.
Cetinje er gamla höfuðborgin í Svartfjallalandi. Ástæða þess að það er svona fátt að sjá í Podgorica er, að hún hefur einfaldlega ekki verið höfuðborg það lengi. Varla meira en öld. Í Cetinje eru hallirnar, söfnin o.s.frv. Við stigum út úr rútunni á rútubílastöð og vingjarnleg kona sem rak greiðasöluna þar lofaði okkur að geyma farangurinn okkar hjá sér fyrir eina evru. Ekkert mál. Því næst gengum við niður í bæinn (m.a. framhjá íþróttavelli sem hin pólitíska þróunarhjálp Bandaríkjanna kostaði). Við eina götuna gat að líta lágreista kumbalda við hlið glæsihalla sem eitt sinn hýstu erlend sendiráð í Svartfjallalandi. Við fundum almenningsgarð, þar sem við settumst og supum einn bjór. Síðan var það þjóðminjasafnið. Það var sko þess virði að heimsækja! Þar gat að líta sömu rómversku fornleifarnar og á flestum þjóðminjasöfnum Evrópu, og allstóra sýningu um júgóslavnesku andspyrnuna í stríðinu – aftur, eitthvað sem mátti sjá víðar – en loks var það aðalatriðið: Þannig er mál með vexti, að Svartfellingar héldu sjálfstæði sínu (gegn Tyrkjum) í um 800 ár – frá því á 13. öld og þangað til þeir gengu sjálfviljugir inn í júgóslavneska ríkjasambandið upp úr fyrri heimsstyrjöld. Tyrkir reyndu ítrekað að leggja landið undir sig – oh, hvað þeir reyndu – en urðu frá að hverfa í hvert einasta sinn. Svartfjallaland var eins og brimbrjótur, sem stóðst hverja holskefluna á fætur annarri. Tyrkir gerðu semsé heilar 44 innrásir á þessum átta öldum eða svo, og um það vitnar þjóðminjasafnið: 44 herteknir, tyrkneskir gunnfánar! Það var óneitanlega glæsileg sjón, og vel þess virði að koma til Cetinje til að sjá þá!
Auk þjóðminjasafnsins, skoðuðum við Lovcen-klaustrið, sem er frá 13. öld. Það er voða snoturt, en við skoðuðum það bara lauslega. Þar keypti ég mér þó svartfellskan hatt, með serbakrossi uppi á kúfnum. Klæðilegasta flík. Eftir að hafa skoðað klaustrið ætluðum við að fá okkur einn kaldan, settumst inn á gangstéttakaffihús, en eftir að þjónninn hafði gengið fram hjá okkur svona 20 sinnum á hálftíma, fórum við aftur á rútustöðina. Hana fundum við eftir dálitla leit, og tókum næstu rútu til Kotor.
Leiðin lá eftir hlíð Lovcen-fjalls, og síðustu kílómetrana var farið í óteljandi kengkröppum bugðum niður bratta og háa brekku. Lækkunin var vel yfir hálfur kílómetri, og bugðurnar á að giska tuttugu. Fyrir neðan okkur opnaðist Kotor-fjörður, dýpsti fjörður Miðjarðarhafs, og innst við hann borgin. Gamla borgin er á heimsminjaskrá UNESCO, enda með órofnum borgarmúr, sem er sambyggður við kastala uppi á hamri fyrir ofan með tveim nánast þverhníptum veggjum. Ekki er hægt að koma við bílaumferð um þröngar göturnar, þannig að allar götur eru göngugötur í gömlu borginni. Í mesta lagi ein og ein vespa sem þar sést. Fyrir framan aðalhliðið var markaður, þar sem mér bauðst að kaupa nokkuð flotta brjóstmynd af Tító á heilar svimandi 40 evrur – og standmynd sem ég spurði ekki einu sinni hvað kostaði.
Ef Podgorica og Cetinje eru ósnortnar af ferðamönnum, þá er Kotor það ekki. Minjagripabúðirnar voru alls staðar, seljandi allt frá friðuðum kuðungum í útrýmingarhættu niður í snjóknetti og staup, framleidd í Kína. Skran og skrum. Mér datt helst í hug einhvers konar kappát, eins og hjá pírana-fiskum. Það, eða diskótek. Erill og ös, feitir Þjóðverjar á hverju strái, fólk sem var í baðstrandarhugleiðingum. Semsagt, fólk sem var þarna í öðrum erindagjörum en við Rósa. En borgin var geysilega falleg. Við tékkuðum okkur inn á gistihús og vorum svo heppin að fá herbergi þar sem glugginn vissi ekki út að mestu ösinni, svo það var sæmilegur svefnfriður. Um kvöldið fórum við út og borðuðum mjög ljúffenga sjávarrétti – Rósa fékk sér svart risotto með kolkrabba; ég fékk mér fylltan smokkfisk. Það var sko matur. Eftir matinn gengum við meira um borgina, m.a. framhjá götusalanum sem ætlaði að okra á mér með Tító-brjóstmyndina. Ég spurði hvað standmyndin kostaði. Sá sem var að afgreiða var auðvitað þýskumælandi sígauni, og auðvitað reyndi hann að hössla mig: 120 evrur, takk fyrir! Spes verð fyrir mig því ég var svo frábær: Bara 90 evrur! Ég skoðaði standmyndina aðeins betur: Það vantaði nefið og önnur „smáatriði“ og hún var ekki einu sinni almennilega fest á sökkulinn. Nei takk. Hins vegar sá ég stóra brjóstmynd af Slobodan Milosevic – stóra, þunga og örugglega dýra. En það hefði óneitanlega verið gaman að eiga hana... Við fórum frekar snemma að sofa, enda höfðum við farið víða þennan dag.
Þann 21. ágúst vöknuðum við snemma, átum ljúffengan morgunverð og tékkuðum okkur út. Þar sem við höfðum dálítinn tíma, skoðuðum við nokkrar kirkjur og sjóminjasafn, en Kotor var mikill verslunarstaður fyrr á tíð (og er það sjálfsagt enn). Svo tókum við rútu áfram til Dubrovnik, í Króatíu. Hún var nokkra tíma á leiðinni. Við ókum meðfram ströndinni lengst af, framhjá óteljandi þorpum og sumarbústöðum og strandhúsum af öllum stærðum og gerðum. Í hlíðunum á hægri hönd var gróðurinn áberandi dökkur – oftar en ekki beinlínis svartur. Við vissum ekki hvers vegna, en héldum (og höldum enn) að það gæti tengst miklum skógareldum sem höfðu geisað á Grikklandi skömmu áður. Voru trén brunnin? Ég veit það ekki. En svört voru þau.
Þegar við komum til Dubrovnik, í síðdeginu, vissum við ekkert hvað við ættum næst að gera. Við vorum ekki með pantaða gistingu eða neitt slíkt. Á rútustöðinni var allt fullt af fólki sem bauð ferðamönnum gistingu. Eftir að hafa veifað svona sjö frá okkur, þá datt okkur í hug að tékka á þessu. Fullorðin kona var sú heppna, og keyrði okkur heim til sín, þar sem þau hjónin höfðu innréttað þetta líka glæsilega gistirými. Þar gistum við semsagt næstu tvær næturnar.
Þar sem aðeins var farið að síga á síðdegið ákváðum við að geyma gömlu borgina til dagsins eftir, og gengum þess í stað niður að höfninni, þar sem voru snekkjur í hundraðatali og skemmtiferðaskip fyrir landi. Í Lonely Planet-bókinni fundum við veitingastað sem var hrósað í hástert og ákváðum að tékka á honum. Það reyndist þrautin þyngri að finna hann, svo þegar við gengum fram á annan veitingastað sem einnig fékk góða dóma, þá prófuðum við hann bara í staðinn. Þetta var sjávarréttastaður. Ég man hvorki hvað hann hét né hvað ég fékk mér, en við vorum mjög ánægð með hann. Það kvöldaði og við fórum á gistihúsið og lögðumst til svefns.
Þann 22. ágúst, afmælisdag bróður míns, ákváðum við að skoða gömlu borgina. Á meðan ég var að hafa mig til, talaði Rósa við einhvern mann sem stóð fyrir utan gistihúsið, og hann sagði okkur margt og mikið um afstöðu sína og Króata almennt til Tító-tímans og stríðsins og þess alls. Meðal þess sem hann sagði var að fólk saknaði Tító-tímans almennt, en þetta hefði hrunið eftir að hann féll frá – auk þess sem Króatar og Slóvenar væru „vestrænir“ en Serbar og alveg sérstaklega Kosovo-Albanar væru „austrænir“. Þeir ættu einfaldlega svo fátt sameiginlegt menningarlega að það hefði verið ómögulegt að búa í sama ríkinu, eða alla vega sæju Króatar og Slóvenar ekki hvaða erindi þeir ættu í sama ríki og Kosovo, fátæku og vanþróuðu. Króatar í dag, sagði maðurinn, væru ennþá súrir út í Serba eftir borgarastríðið, og fannst þeir hafa gengið fram af hörku og grimmd. Meðal annars með stórskotaliðsárásum á friðsælar borgir eins og Dubrovnik. Þeir væru samt ekkert sérlega súrir út í Svartfellinga, og það mætti vel vingast við þá.
Þegar ég var loks til, þá héldum við af stað. Það var á að giska klukkustundar gangur til gömlu borgarinnar. Á leiðinni stoppuðum við á veitingahúsi og fengum okkur að borða. Gamla borgin er á heimsminjaskrá UNESCO, eins og gamla borgin í Kotor. Hún er líka með órofinn borgarmúr frá því í gamla daga og ber aldurinn vel. Hún ber það samt með sér að hafa verið miklu auðugri en Kotor – eða borgir yfirleitt – því mikið var af afar skrautlegum byggingum. Já, og göturnar voru hellulagðar með marmarahellum. Án djóks. Við skoðuðum okkur dálítið um. Gömul, há hús, þröngar brattar götur með þvottasnúrum strengdum yfir, kaffihús og veitingahús o.s.frv. Rósa tyllti sér á kaffihús á meðan ég spásseraði niður að gömlu höfninni, um torg eitt og svo upp eina götuna upp að gamalli sýnagógu og gyðingasafni sem ég skoðaði. Aðgangseyririnn var hár miðað við hvað safnið var fáfengilegt. Sýnagógan var aðeins áhugaverðari; ég hafði aldrei komið inn í slíkt samkunduhús áður og það var athyglisvert. Eftir þetta fór ég og fann Rósu og við gengum meira um þangað til við ákváðum að líta á veitingastað og fá okkur meira að éta. Bosnískur staður varð fyrir valinu og þar átum við bosnískar pylsur úr lambakjöti, ljúffengar mjög. Það kom kvöld, við tókum leigubíl upp á gistihúsið, pökkuðum dótinu okkar og lögðumst til svefns.
Hinn 23. ágúst vöknuðum við snemma, tékkuðum okkur út og fórum út á flugvöll. Við áttum flugmiða með innanlandsflugi til Zagreb, þar sem við ætluðum að hitta félaga Jón Karl og taka síðan lest þaðan til Þýskalands. Það var löng bið eftir því að tékka inn. Þegar það var búið fórum við inn í einhvern biðsal, og eftir langa bið þar fórum við í gegn um vopnaleit. Þá kom í ljós að ég hafði auðvitað gleymt að taka töngina mína upp úr handfarangrinum. Öryggisvörðurinn sem leitaði leit mjög stórt á sig og ég held að hann hafi verið í einhverjum minnimáttarkenndar-fílingi, að Króatar yrðu að sanna það í augum Vesturlandabúanna að hér væri hart tekið á öryggismálum, svo þeir ættu skilið að fá að ganga í Evrópusambandið og þann pakka allan. Það var alla vega það sem við hugsuðum.
„Og hvað er þetta?“ spurði hann með töngina í hendinni. „Þetta er töng,“ sagði ég, „hvað með það?“ „Það má nota hana sem vopn!“ sagði hann. „Nei,“ sagði ég, „þetta er meinlaust verkfæri og væri glatað sem vopn.“ Hann opnaði töngina, sneri henni við, tók á henni innan frá svo handföngin sneru sitthvoru megin út úr hnefanum á henni: „You could do anything with this,“ sagði hann. „Fífl,“ hugsaði ég, „ef þú reyndir eitthvað með töngina svona, þá mundirðu bara klípa sjálfan þig í lófann eða greipina.“ Ég lét mér nægja að segja að það væri rangt hjá honum, það væri alls ekkert hægt að gera hvað sem er með þessu. Þá, já haldið ykkur nú fast, krafðist hann þess að fá að sjá vegabréfið mitt – og skrifaði númerið á því niður. Það var og. Bara settur á svartan lista hjá innanlandsflugvellinum í Dubrovnik fyrir að rífa smá kjaft við einhvern bjálfa. Það þýddi ekki að þræta við þennan herramann, svo við ypptum öxlum og leyfðum honum að hirða þessa töng, sem hann þóttist geta gert hvað sem er með. Þannig séð var þetta nú eiginleg aheppilegt; út af veseninu með töngina tók hann ekki eftir því að ég var með vasahnífinn í vasanum, sem mér hefði orðið ólíkt sárara um að missa.
Við lentum í Zagreb, tókum lest inn á aðalbrautarstöðina og þar tróðum við farangrinum inn í geymsluskáp. Ég hugsaði með mér að það væri best að vera sniðugur, stakk hattinum mínum með inn í skápinn og setti í staðinn svartfellska hattinn með serbakrossinum á hausinn. Voða fyndið í Króatíu. Við fundum Jón Karl fljótt og hann benti mér á augngoturnar sem ég fékk. Karlarnir þarna í Króatíu – og það ber að taka fram að Zagreb ku vera höfuðborg nýnasisma í Evrópu – hafa auðvitað þekkt hattinn um leið og merkið líka, virt mig síðan fyrir sér og hugsað að ég hlyti að vera heimskur túristi sem fattaði ekki ögrunina sem fælist í þessu. Enda fattaði ég hana ekki. Ekki strax. „Hverjum er ekki sama um einhvern hatt?“ hugsaði ég. En Jón Karl fékk mig til að setja hattinn ofan í poka áður en við rækjumst á einhverja snoðkolla með hnífa. Það var líklega skynsamlegt. Við litum á krá, svo í búð þar sem við keyptum svolítið nesti, þar á meðal hinn ágæta króatíska Karlovacko Pivo, og síðan litum við á aðra krá áður en við þurftum að ná lestinni. Kvöddum Jón og ókum svo í næstum sólarhring, í gegn um Slóveníu, Austurríki og Þýskaland alla leið til Århus, þangað sem við komum að kvöldi 24. ágúst.
Þann 25. ágúst pakkaði ég til Íslandsferðar, og svo fórum við bæði tvö með lest til Kaupmannahafnar. Í sjálfu sér dreif ekki margt á daga okkar þar; við gistum tvær nætur hjá Eiríki bróður Rósu, heimsóttum höfuðstöðvar Kommunistisk Parti og skoðuðum ritstjórnarskrifstofu og prentsmiðju blaðsins þeirra, Arbejderen, í leiðinni. Bo vinur okkar sýndi okkur það allt saman og síðan borðuðum við kvöldmat með honum og Lene, konu hans.
Þann 27. ágúst flaug ég síðan heim og lýkur þar með frásögn þessari.

No comments:

Post a Comment