Monday, November 24, 2008

Götubardagi, hryðjuverkamenn, sjóræningjar og ráðherrar!

Laugardagurinn var einn af þeim viðburðaríkari sem ég man eftir nýlega. Útifundurinn á Austurvelli gríðarlega vel heppnaður í alla staði. Katrín Oddsdóttir og Sindri Viðarsson með fantagóðar ræður -- og tímabærir úrslitakostirnir sem Katrín setti ríkisstjórninni: Stjórnin fær viku til að boða til kosninga, annars fer illa. Tímamörk voru það sem vantaði (eða a.m.k. eitt af því). "Hingað og ekki lengra"-lína. Auðvitað á ríkisstjórnin að boða til kosninga strax og það á ekki að þurfa margra vikna mótmæli til að leiða þeim það fyrir sjónir.

Ég leyfi mér að segja að það vilja fáir að næstu valdaskipti fari fram með illu, en ef þau fara ekki fljótlega fram með góðu munu þau fara fljótlega fram með illu! Ríkisstjórnin mun ekki hanga mikið lengur á roðinu. Úff, ég vona að þau komi því inn í þykka hausinn á sér að þau eru að leika sér að eldi. Hvað halda þau að þau græði á því að hanga svona!?

Það er líklega skynsamlegt af þeim að hafa lífverði þessa dagana. Án gríns.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Það er hægt að finna einhverjar hryðjuverkanaglaþjalir eða of stórar kókómjólkurfernur með öryggisleit á flugvöllum, en öryggið eykst ekki af viti með reaktífu rugli rugli. Sá sem ætlar sér í alvörunni að fremja hryðjuverk í kring um flugsamgöngur og veit eitthvað hvað hann er að gera, verður ekki stoppaður með strípimyndavélum. Það er bara of auðvelt.

Það er til nóg af útsmognum aðferðum sem er ekki séns að verjast. Ef þetta er stríð og víglínan er dregin á flugvellinum, þá er stríðið þegar tapað. Eina leiðin til að hindra hryðjuverk gegn flugvöllum er að banna flugvelli.

Í fyrsta lagi, þá eru hin réttu viðbrögð við hryðjuverkum ekki að þjarma að almenningi heldur að ráðast að rótum vandans. Hvers vegna fremur einhver hryðjuverk? Getur verið að það sé eitthvað athugavert hérna megin við járnmúr Vesturlanda, sem mætti bæta? Hvað með t.d. utanríkisstefnu? Hvað ef það væri tekin upp ábyrg utanríkisstefna í staðinn fyrir heimsvaldastefnu? (Það verður auðvitað ekki breytt um stefnu sem er inngróin í auðvaldsskipulagið nema skipta um þjóðskipulag -- ég er auðvitað fylgjandi því, en það er önnur saga.)

Í öðru lagi, þá snúast "hryðjuverkalög" ekki um að vernda okkur, vestrænan almenning, fyrir hryðjuverkum. Nei. Þau eru samt réttnefni. Þau snúast nefnilega um að beita okkur hryðjuverkum. Og hver skyldi gera það? Jú: Þeir sem þykjast vera að passa okkur. Það eru þeir sem eru að byggja upp eftirlitssamfélag, svipta burtu mannréttindum heima fyrir og leggja línurnar fyrir hátæknivætt lögregluríki þegar stéttabaráttan fer að fara harðnandi. "Hryðjuverk" eru oft sviðsett til þess að réttlæta óeðlilega útfærslu á valdheimildum valdstjórnarinnar, til að hræða okkur í fangið á stóra bróður. Dæmi? Ríkisþinghúsbruninn í Berlín 1933.

~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Í Sómalíu er íslamistarnir eina aflið sem er fært um að koma á lögum og reglu. Allir aðrir kostir í stöðunni eru verri.

Sómalía hefur, sem kunnugt er, verið án ríkisstjórnar síðan stjórn Siad Barre hrundi árið 1991. Hún hefur, sem kunnugt er, verið í hers höndum, eða réttara sagt hers, stríðsherra, ættbálkahöfðingja og íslamista.

Í fyrstu réðu stríðsherrar lögum og lofum. Síðan klufu tvö héröð sig frá, Sómalíland og Puntland, bæði norðantil í landinu, og lýstu sig sjálfstæð. Ættbálkahöfðingjar réðu miklu um það. Ættbálkurinn er sterkasta samfélagsfestið í Sómalíu, og er einmitt það samfélagsfesti sem torveldar samstöðu hvað mest. Ættbálkurinn stendur svo þétt saman, sér um sína og stendur fólki svo nærri. Þótt klofningshéröðin tvö hafi verið í raun sjálfstæð árum saman, hafa stríðsherrarnir haldið áfram að deila restinni af landinu á milli sín.

Bandaríkjaher reyndi að bæla Sómala niður fyrir hálfum öðrum áratug en snýtti rauðu, eins og lýst er í Black Hawk Down. Fyrir tveim árum réðust Eþíópíumenn inn, sem leppar Bandaríkjamanna og með stuðningi þeirra, að sögn til að koma til valda einhverri "stjórn" sem Sameinuðu þjóðirnar hafa úthlutað Sómalíu en Sómalir virðast ekki kæra sig um. Allavega hefur hún ekki fest rætur. Raunverulegur tilgangur innrásarinnar er auðvitað að tryggja siglingaleiðina um Aden-flóa og þar með Rauðahaf og Súez-skurð, siglingaleið sem stór hluti olíuframleiðslu heimsins fer um. Sómalir eru herskáir og hugrakkir og hafa snýtt Eþíópíumönnum duglega líka.

Nú, eitt er það samfélagsfesti sem er til í Sómalíu og sker þvert á ættbálkana. Það er íslam. Í stjórnlausu landinu sættust menn á að láta íslamska dómstóla skera úr í mörgum deilumálum, og smám saman öðluðust þeir viðurkenningu og vald. Vopnaðir menn fóru að ganga þeim á hönd og hjálpa til við að framfylgja dómum og treysta vald þeirra í sessi. Þetta hélt áfram þangað til Bandalág íslamskra dómstóla sté fram sem sterkasti aðilinn meðal deilenda í Sómalíu, og vígi stríðsherranna féllu eitt af öðru. Það leit út fyrir að upp úr rjúkandi rústum landsins væri að rísa afl sem gæti orðið nýtt ríkisvald.

Þessu undu Vesturveldin ekki og gerðu Eþíópíuher út af örkinni til að ráðast inn. Þeir bættust s.s. við sem enn ein fylkingin, fylking sem er frekar auðvelt að sameina Sómalina um vegna þess að innrásarherinn er erlendur. Íslamistarnir eru sterkir. Þótt þeir eigi í vök að verjast gegn bandarískum loftárásum, þá njóta þeir baklands meðal fólksins og heyja árangursríkan skæruhernað. Innrásarherinn getur ekki sigrað þá.

Ríkisvald er framkvæmdanefnd ríkjandi afla, það vitum við. Ríkisvald er ekki stöðugt nema það njóti stuðnings ríkjandi afla í landinu. Ríkisvaldið sem SÞ reyna að koma að mun aldrei geta setið á friðarstóli á meðan fólk tengir það við Bandaríkin og innrásarher. Aldrei. Ekki frekar en í Írak eða Afganistan. Eina leiðin til þess að koma á relatífum friði í Sómalíu er að eftirláta hana öflunum sem ráðandi öfl í Sómalíu velja sjálf -- það er að segja, íslamistunum. Þeir eru þeir einu sem geta þetta.

Það eru líka þeir sem hafa náð mestum árangri í baráttunni við sjóræningjana hingað til.
Sjóránum snarfækkaði nefnilega á meðan þeir voru á hátindi valda sinna. Þegar þeim var bolað burt (í bili) snarjukust sjóránin aftur.

Svipað og með ópíumræktun í Afganistan.

Valið í Sómalíu stendur milli þess að hafa skálmöld stríðsherra og sjóræningja eða röð og reglu að hætti íslamista. Það eru ekki aðrir kostir í boði.

(Ég reikna með að af þessum ástæðum styðji saúdi-arabískir olíuflytjendur íslamistana rausnarlega.)

~~~ ~~~ ~~~ ~~~

Forysta Samfylkingarinnar er ekki að fara að rjúfa samstarfið, einfaldlega vegna þess að hún á engan valkost sem hentar henni jafn vel.

Það er aftur spurning hvað öfl innan Samfylkingarinnar, sem eru ekki ofan á í svipinn, eru að spá. Það er óneitanlega mikil spenna í einum flokki þegar annar endinn vill fyrir alla muni vera í stjórninni en hinn armurinn alls ekki.

Hvað eru kjósendur að segja með því að þyrpast frá Sjálfstæðisflokki til Samfylkingar skv. skoðanakönnunum? Að þeir styðji ríkisstjórnina? Hljómar það ekki afkáralega? Og á maður að trúa því að þingmenn Samfylkingarinnar séu allir svona ánægðir með ástandið? Og vilji halda áfram að hafa Davíð Oddsson í boði Samfylkingarinnar?

Á sama tíma stynur Sjálfstæðisflokkurinn og er við það að rifna líka. Munu einhver öfl innan hans gera miðsvetrarhreingerningu á landsfundinum í janúar?

Ég held að þetta sé "a game of dare" -- hvor hrekkur og hvor stekkur? Annar hvor flokkurinn á eftir að bresta innan frá, bara spurning hvor verður á undan. Báðir flokkarnir hljóta að hugsa hvort það sé ekki réttara að slíta samstarfinu áður en samstarfsaðilinn dettur í sundur. Forysta hvorugs vill slíta því, en bakland Samfylkingarinnar vill það greinilega og bakland Sjálfstæðisflokks er eitthvað að stokkast upp og spurning hvert það fer.

Um leið og annar flokkurinn springur, þá verður stjórnarkreppa og hún endar varla öðruvísi en með kosningum. Það er bara tímaspursmál. Því lengur sem það bíður, þess verr mun það líta út fyrir Sjálfstæðisflokkinn, og þetta nýja fylgi Samfylkingarinnar er varla traust heldur.

Væri þá ekki snyrtilegast að horfast bara í augu við það og boða strax nýjar kosningar, kannski í febrúar?

No comments:

Post a Comment