Monday, December 8, 2008

Fimm ára afmæli

Í dag, áttunda desember 2008, eru fimm ár liðin síðan ég tók merkilega ákvörðun og hætti að éta kjúklinga og svínakjöt. Ástæðan er ógeð á illri meðferð á dýrum í verksmiðjubúskap og bruðli með land og vatn. Ég hugsaði með mér að ef ég gæti ekki hugsað mér að veita einhverju dýri einhverja meðferð, þá ætti ég ekki að borga öðrum fyrir að gera það. Eða, eins og vinur minn orðaði það, "Sá sem er ekki til í að drepa dýrið sjálfur á ekki skilið að éta það." Ég gæti alveg drepið dýr til að éta það eða klæða mig í það. En að loka það fyrst inni í pínulitlu búri í nokkur ár, þar sem það er þjakað af legusárum og sturlað af innilokunarkennd -- þar dreg ég mörkin.
Þann dag bloggaði ég þetta:

mánudagur, desember 08, 2003
Af stækum viðbjóði á meðferð sumra dýra er ég hættur að éta kjúklinga og svínakjöt nema ég hafi ástæðu til að ætla að viðkomandi skepna hafi sprottið úr grasi við viðunandi aðstæður.
Á þessum fimm árum hef ég haldið mig við þetta, og reyndar hefur þetta náð nokkur veginn yfir eldisfisk líka. Ég hef étið einn "free range" kjúkling og eitthvað smávegis af keti af "free range" svínum, sem ég hef þurft að fara til útlanda til að nálgast. Í tvö eða þrjú skipti hef ég í misgripum keypt svínakjöt á veitingastöðum erlendis. Þá hef ég hugsað að ég gæti nú eins étið þetta, fyrst ég var búinn að kaupa það hvort sem er. Í öll þessi tvö eða þrjú skipti hef ég fengið í magann. Iðrin í mér eru ekki spennt fyrir svínakjöti eftir að þau vöndust af því.

Ég veit að það er ekki allt í lagi í nautgripaeldi og meira að segja sauðfjárbúskap. Ég veit líka að loðdýr hafa það skítt í búrum. Ég held samt að svín og kjúklingar hafi það verst. Þar kreppir skórinn mest. Ég get ekki sagt að ég sakni þess að éta þau. Að vísu þætti mér ekki leiðinlegt að geta keypt beikon af "free range" svínum -- og reyndar líka "flæskesvær" -- en það er nú ekkert stórmál á móti því að éta með aðeins betri samvisku en áður.

No comments:

Post a Comment