Saturday, January 29, 2005

Vinstri-grænir, sósíalisminn og fleira í íslenskri pólítík: Sleggjan reidd til höggs



Þetta byrjaði sem andsvar mitt í kommentum, en er efni í sjálfstæða færslu:
Ég hef stundum spurt mig (og aðra): Hvað mundu VG gera ef þeir hefðu hreinan meirihluta? Hvað mundi gerast á fyrsta kjörtímabili? Hvað mundi gerast á 20 árum af hreinum VG-meirihluta?


Já, ég spyr mig að þessu. Hvað ef? Nú á ég ekki von á að til þess komi nokkurn tímann að VG verði með hreinan meirihluta í sveitarstjórnar- eða landsmálum. Spurningin er góð og gild fyrir því. Reyndar vildi ég sjá henni svarað formlega og ítarlega af landsfundi VG, hvorki meira né minna.



Ég hef borið þetta undir þónokkra VG-menn án þess að hafa fengið almennileg svör. Ég hef spurt ónefnda forystumenn í ungliðahreyfingunni og þeir hafa yfirleitt kinkað kolli og tekið undir að þetta væri góð spurning, án þess svosem að geta svarað henni sjálfir. Ég hef líka spurt ónefndan forystumann í VG að þessu einu sinni, nánar tiltekið með tilliti til þess hvort efnahagskerfið yrði áfram kapítalískt (að miklu leyti) eftir 20 ára hreina VG-stjórn og hvernig væri t.d. með stéttabaráttuna. Ég fékk þá þau svör að stéttabaráttan væri nú ekki á dagskrá hjá VG og að ekki yrði gerð nein aðför að kapítalisma sem slíkum þótt ríkisrekstri yrði gert mun hærra undir höfði og yrði líka fjölbreyttari.



VG er ekki kommúnistaflokkur, ekki marxískur flokkur og það er skilgreiningaratriði hversu mikinn sósíalistaflokk er hægt að kalla hann. Alþýðuflokkurinn var upp úr stríði vinstra megin við það sem VG er í dag. Upp úr stríði var Alþýðuflokkurinn að tala um þjóðnýtingu á ýmsum atvinnuvegum, nauðsyn ríkiseinokunar á utanríkisverslun og fleira, meðan Sósíalistaflokkurinn var með háleitar hugmyndir um lýðræðislega leið Íslands til austurevrópsks sósíalisma. Í þá daga var Alþýðuflokkurinn kallaður sósíaldemókrataflokkur og Gylfi Þ. Gíslason skrifaði bókina Jafnaðarstefnuna, þar sem hann hikaði ekki við að telja upp, meðal brautryðjenda, Marx, Luxemburg, Lenín og fleiri í sömu andrá og Stauning, Bernstein eða Jón Þorkelsson. Sósíaldemókratar ársins 1949 voru m.ö.o. vinstra megin við Vinstri-græna ársins 2005. Sósíalistaflokkurinn langt til vinstri. Í millitíðinni hefur miðjan færst langt til hægri.

Hvernig flokkur er Vinstrihreyfingin - grænt framboð? Sósíalistaflokkur? Ég er ekki viss. Alla vega má færa a.m.k. jafnsterk rök fyrir að þeir séu sósíaldemókratar. Og nei, Samfylkingin er ekki sósíaldemókratískur flokkur. Hún er smáborgaralegur hentistefnuflokkur málefnafátækra tækifærissinna (ath. "smáborgaralegur" í hinum marxíska skilningi orðsins). Ég hugsa reyndar að hún væri kannski gildandi sem frjálslyndasti flokkur Íslands, og út af fyrir sig er það ágætt. VG er að minnsta kosti ekki meðal þeirra flokka sem keppa um þann titil. Kannski að það mætti kalla hann smáborgaralegan græningjaflokk? Franskur kommúnisti spurði mig einu sinni hvort VG væru endurskoðunarsinnar -- og þegar ég gat ekki einu sinni sagt að þeir væru það varð ég hugsi.



Samfylkingin er frjálslyndur en málefnafátækur, tækifærissinnaður og smáborgaralegur hentistefnuflokkur sem styður meiri einkavæðingu og lifir samlífi við nýríka stórburgeisa, Baug og aðra. Ekki er hún að gagnrýna mikið gífurlega samþjöppun auðs og valda hér síðustu árin. Hún virðist samt standa m.a. fyrir mikið pólítískt frelsi, en efnahagslegum jöfnuði virðast ekki vera gerð góð skil. Hún boðar að með hennar ríkisstjórn við stýrisvöl þjóðarskútunnar verði tilberar auðvaldsins áfram aldir undir handarjaðri þjóðfélagsins, og gott ef hún boðar ekki sk. sósíalisma andskotans: Einkavæðum gróðann, þjóðnýtum tapið. Í öðrum málum er hún óljós eða sundurleit og ekki gott að festa fingur á neina hugsjón eða heildarstefnu.



Frjálslyndi flokkurinn byrjaði sem eins-máls-flokkur, sem var að hefna hrakfara Sverris Hermannssonar á pilsfaldakapítalistum íslenska auðvaldsins og sparka í rassgatið á kvóta-slúbbertunum. Nú er kvótakerfið að mínu mati stærsta einstaka vandamál Íslendinga og af einstökum innanríkismálum væri þjóðnýting kvótans efst á blaði hjá mér. Afnám kvótakerfisins og upptaka sanngjarns fiskveiðistjórnunarkerfis er því hið verðugasta innanríkismál til að láta flokk snúast um, og við hefur bæst stefna sem er að mörgu leyti ágæt.

Framsóknarflokkurinn er skólabókardæmi um hentistefnuflokk tækifærissinnaðra smáborgara, spilltra skriffinnsku-síð-SÍSara, ungs fólks sem vill komast til metorða í flokki sem hefur metorðin ein á dagskrá og er meira að segja með merki sem er líkast grænum kýrrassi. Flokkur sem hafði ýmislegt ágætt til málanna að leggja í frumbernsku en hefur allt frá millistríðsárunum farið mjög niður á við. Undantekningin er Steingrímur Hermannsson, sem er í sérklassa.

Um Sjálfstæðisflokkinn þarf ekki að fjölyrða, flokkinn sem er blanda af burgeisavaldi, kvótaspillingu, einkavinavæðingar-öfgamönnum, sýndarmennskulýðræði, heildsalavaldi, hermöngurum og stríðsæsingamönnum og virðist hafa þá stefnu í verkalýðsmálum að vinnandi fólk megi éta það sem úti frýs, ætti ekki að mega skipuleggja sig í verkalýðsfélög og að auðvaldið eigi að hafa skilyrðislausan rétt til að slógdraga það og loka inni í einangrunarklefum þá sem mögla. Þetta er búið grímu svokallaðs "lýðræðis" og "frelsis", sem er ekkert annað en nauðgun á þessum orðum og hugmyndunum sem þau standa fyrir. Þökk sé þróttmiklum áróðri og hugvitssamlegum umbunum gleypir þó stór hluti þjóðarinnar við þessu og veitir flokknum atkvæði og er jafnvel flokksbundið. Sjálfstæðisflokkurinn má samt kallast stéttvísasti flokkur Íslands, því hann gerir þó vel við sína.



Af þessari úttekt má sjá að ég er ekki ánægður með neinn af núverandi flokkum landsins. Ég hef andúð á stjórnarflokkunum og stjórnarandstöðuflokkarnir hafa allir eitthvað til síns ágætis þótt allir hafi þeir galla líka. Ef það væru kosningar á morgun mundi ég kjósa Vinstri-græna, því þótt forsjárhyggja og umburðarlyndi gagnvart stéttakúgun sé mér ekki að skapi, þá komast þeir næst því að eiga við mig.



Í stuttu máli sagt, þá tel ég vera brýna þörf fyrir nýtt vinstriafl í íslenskum stjórnmálum, vinstriafl sem væri framsækið og stéttvíst og væri ekki bara skjöldur heldur sverð í stéttabaráttunni. Ég vil sjá stjórnmálaafl sem er reiðubúið að taka ærlega til hendinni á Íslandi og er í senn raunverulega sósíalískt og raunverulega lýðræðislegt og lýðræðissinnað. Afl sem gæti fylkt lýðræðislega þenkjandi og frjálslyndum jafnaðarmönnum saman í hamalt sem mundi byggja upp samfélagshætti í anda pólítísks og efnahagslegs lýðræðis, mannréttinda, jafnaðar, mannlegrar reisnar og réttlætis. Afl sem skyti rótum meðal þeirra sem höllum fæti standa, afl sem gæti sameinað uppgefna og stórskulduga launaþræla í krepptum hnefa ef því væri að skipta. Framsækið þjóðfélagsafl fyrir fólk, hugumstóra pólítíska dráttarvél, með almannahagsmuni og framsýni við stýrið.



Ef einhver hefur áhuga á að vera með í að sjóða saman slíkt stjórnmálaafl, þá má hinn sami hafa samband: vangaveltur@yahoo.com.

No comments:

Post a Comment