Friday, January 21, 2005

Pólítísk nátttröll og önnur tröll



Ég minni í síðasta sinn á stofnfund Hins íslenska tröllavinafélags sem verður haldinn í kvöld klukkan 20:00 í Snarrót, Garðastræti 2. Nánari upplýsingar hér.



~~~~~~~~~~~~~~~~~~~~

Valgerði Sverrisdóttur ofbýður víst umræðan um Íraqsstríðið. Mér ofbýður hins vegar stríðið sjálft. Mér ofbýður að Halldór og Davíð skuli voga sér að bendla Íslendinga við stríð, og vera svo ekki einu sinni menn til að standa við það eftir á. Mér finnst með ólíkindum hvað hér á Íslandi er eins og menn í opinberum stöðum þurfi aldrei að standa reikningsskil gjörða sinna.



Svo Valgerði ofbýður Íraqsstríðið, já. Ég get ekki sagt að ég kenni mikið í brjósti um hana. Hún má kallast vel sloppin ef þetta eru allar afleiðingarnar af því að veita pólítískan stuðning árásarstríði.

Hvaða vitleysa er þetta annars með að það "sé enginn listi"?? Allir vita að þessi listi er ekki aðalatriðið. Þetta er sk. red herring (=athyglinni beint frá aðalatriðinu) hjá hinum svonefnda Framsóknarflokki, þar sem hver étur upp eftir öðrum að það "sé enginn listi" ... (a) auðvitað er listi, Ísland er á honum, (b) aðalatriðið er ekki að Ísland á listanum heldur hvernig Ísland komst á hann: Með því að styðja ólögmætt - og óréttlætanlegt - árásarstríð gegn Íraq.

Hver man nú sakirnar sem Ribbentropp og Göring voru dæmdir fyrir í Nürnberg?



Ég verð nú að viðurkenna að ég hálf hlakka til að sjá hinn svonefnda Framsóknarflokk, þetta nátttröll íslenskra stjórnmála, í næstu kosningum. Sjá hann bíða sögulegt afhroð og Halldór Ásgrímsson eins og geithafur í framan að segja að hann bara skilji þetta ekki. Hvað er eiginlega málið með þennan flokk? "Framsókn"? Sókn fram til hvers? Hvaða hugsjónir á þessi svonefndi Framsóknarflokkur? Að hverju stefnir hann? Hvers virði er hann?



Ráðamenn Íslands mundu gera vel með því að rifja upp að þeir eru ekki herrar íslensku þjóðarinnar, þeir eru þjónar hennar. Við erum vinnuveitendurnir. Af hverju erum við ekki búin að reka þetta lið?

No comments:

Post a Comment