Wednesday, January 5, 2005

Magnað



Í gluggakistu í herbergi mínu kom ég fyrir nokkrum döllum með mold, potaði þar niður nokkrum reyniberjum, fræjum að hvítri papriku, einhverjum kartöflum, nokkrum afleggjurum af trjám og fleiru. Paprikuplönturnar komu fljótt upp, sú fyrsta náði nokkurri stærð (ca. 6 cm hæð, 10 cm þvermáli) og hætti svo að vaxa, og þær allar. Ekki veit ég hvers vegna það var, en grunar að kuldinn eigi hlut að máli. Trjá-afleggjararnir hafa flestir brumað smávegis, þar af einn töluvert. Ég vona að mér takist að koma þeim á legg.

En um daginn skaut planta upp kollinum. Í fyrstu sýndist mér á laufunum að það væri kartöflugras, en brátt kom í ljós að svo er ekki. Asnalega sem það hljómar, þá veit ég ekki hvaða planta þetta er. Hún hefur vaxið með ógnarhraða. Er orðin næstum því 40 cm á hæð og eru ekki nema 8 dagar, að því er me´r telst til, síðan hún fyrst skaut upp kolli. Merkilegt kvikindi.



~~~~~~~~~~~~~~~~

Eftir að nýja sjónvarpið kom hef ég horft aðeins á það. það hefur, m.ö.o., haft í för með sér tímasóun af minni hálfu. Ég sá t.d. sjónvarpsstöðina FOX í fyrsta sinn. Ég trúði því varla að það væri satt, að ein sjónvarpsstöð geti verið eins og FOX hafði verið lýst fyrir mér, en hún gat það nú samt. Svei mér þá, þvílíkt og annað eins.

Annar þáttur sem ég horfði á fyrir ekki svo löngu síðan er 70 mínútur. Gengur þessi þáttur ekki út á neitt annað en að selja litlum krökkum auglýsingar? Ekki spennir hann bogann hátt þegar fyndni, smekkvísi eða hæfileikar eru annars vegar, svo mikið er víst.

Ég held það sé kominn tími til að skrúfa aftur niður í sjónvarpinu, sem ég hafði tekið mér svo ánægjulega hvíld frá.

No comments:

Post a Comment