Wednesday, January 5, 2005

Forsetakosningar palestínsku heimastjórnarinnar eru á sunnudaginn. Mahmoud Abbas (Abu Mazen) mun vinna þær, ég held það sé engin spurning. Hann ku vera með um 60% fylgi en Mustafa Barghouti tæp 30%. Ég, fyrir mitt leyti, held að það yrði mikið gæfuspor fyrir Palestínumenn að fá Mustafa Barghouti fyrir forseta. Marwan Barghouti, hinn fjarskyldi frændi hans, leiðtogi Tanzim-arms Fatah og pólítískur fangi í Ísrael, hefði kannski verið betri, en kannski verið of umdeildur. Mustafa Barghouti held ég hins vegar að hafi til að bera það sem palestínsku þjóðina vantar: Forystuhæfileika, lýðræðislegan hugsunarhátt, réttsýni, friðfýsi og óbilgirni. Ég held að hann gæti unnið mikil gæfuverk ef hann fengi umboð til þess. Ekki það, að hann hefur þegar unnið mikil gæfuverk með Palestínsku læknishjálparnefndunum, þar sem hann er formaður.



~~~~~~~~~~~~~~~~

Talandi um Palestínumenn, þá þykir mér ástæða til að benda á þessa grein Snorra G. Bergssonar. Hún er um samúð sumra Íslendinga með málstað nasista og andúð þeirra á gyðingum. Greinin er býsna góð, og ég hvet fólk til að lesa hana. Meðal annars kemur fram í henni þessi ógeðfellda tilvitnun í Morgunblaðið, þar sem Valtýr Stefánsson ritar:

Oftast er málið sett þannig fram, að þeir, sem orðið hafa fyrir ,,grimdaræði nazistanna" sjeu dýrðlingar einir, sem ekkert hafi til saka unnið annað en það að vera af öðrum þjóðflokki en nazista-,,böðlarnir". Nú er það vitað að þýska þjóðin stendur í fremstu röð um mentun og alla menningu. Þess vegna verður Gyðingahatur þeirra mönnum algerlega óskiljanlegt, ef því er trúað að hinir ofsóttu hafi ekkert til saka unnið. Hjer er ekki tilætlunin að bera blak af þýskum stjórnvöldum hvorki fyrir meðferðina á Gyðingum nje á pólítískum andstæðingum sínum. En hafa þá Gyðingarnir í Þýskalandi ekkert unnið til saka?


Úff ...

Maður spyr sig stundum hvernig sé ástatt með múslima og Bandaríkjastjórn í dag.

Það mætti fylgja heimildaskrá með þessari grein, eða vísun á stað þar sem finna mætti heimildirnar.

No comments:

Post a Comment