Sunday, January 23, 2005

Í Morgunblaðinu í dag (sunnudag) er viðtal við Magnús Þorkel Bernharðsson, um Íraq. Hið áhugaverðasta viðtal, verð ég að segja. Það er nýkomin út bók eftir hann, hana mun ég kaupa og lesa um leið og ég hef tækifæri til (eftir ca. tvær vikur).

Og talandi um Morgunblaðið í dag, þá segir Styrmir Gunnarsson í Reykjavíkurbréfi sínu:
Er ágreiningur milli [Össurar og Ingibjargar] um utanríkismál? Varla. Bæði leggja mikla áherzlu á að berja á stjórnarflokkunum út af Íraksstríðinu. Bæði eru gamlir herstöðvaandtæðingar og erfitt að taka mikið mark á þeim, þegar þau ræða um íslenzk öryggismál af þeim sökum.


Það er nefnilega það. Það er erfitt að taka mark á þeim sem eru ósammála Styrmi Gunnarssyni um að Íslendingum beri að sýna Bandaríkjastjórn fulla fylgispekt. Erfitt að taka mark á þeim sem vilja ekki hafa skotmark fyrir eldflaugaárásir á Miðnesheiði. Erfitt að taka mark á þeim sem vilja hvorki þekkja sverð né blóð. Ég held að kominn sé tími til þess, að Styrmir Gunnarsson komi upp í skotgröfinni. Kalda stríðinu er lokið. Stalín er dauður. Rauða hættan heyrir sögunni til. Það er hrein tímaskekkja, að Atlantshafsbandalagið sé eitthvað varnarbandalag (sem ég efast reyndar um að það hafi nokkurn tímann verið). Hafa Íslendingar ástæðu til að vera með í hernaðarbandalagi? Lengst af hafa Íslendingar ekki átt sökótt við neinn og enginn átt sökótt við okkur. Þannig vil ég hafa það. Kæri mig ekki um að vera tjóðraður við heimsvaldastríðsvagna erlendra ríkja.

~~~~~~~~~~~~



Ekki nóg með að Styrmir sjái ástæðu til að "skjóta sendiboðann" í afvopnunarmálum, heldur sér hann einnig sérstaka ástæðu til að ausa Hvítasunnusöfnuðinn lofi. Hvað er eiginlega í gangi? Hvaða sigurgöngu er þessi söfnuður eiginlega að ganga? Hvaða glígja er fyrir augunum á svona mörgum samborgurum mínum, að þeir gleypi öngla þessara nöttkeisa? Bókstafstrú ætti ekki að fyrirfinnast annars staðar en á forngripasafni. Sem bókstafstrúarvini er erfitt að taka mark á Styrmi Gunnarssyni þegar hann ræðir um Hvítasunnusöfnuðinn. Hin daglega Biblíutilvitnun í hausnum á Dagbókinni gleður mig heldur ekki sérstaklega. Tilvitnun dagsins í dag er reyndar ein af þeim betri, og tvímælalaust sú sem ég hef oftast vitnað í:
Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá. (Hebreabréfið, 11:1)
Páll postuli hefur þarna lög að mæla: Já, trú er órökstudd sannfæring. Það er ótrúlegt að fullorðið fólk sem hefur meira að segja gengið í skóla skuli aðhyllast þessa forneskju.

~~~~~~~~~~~~



Fyrst ég er að gera mér trú og bókstafstrú að umtalsefni, þá er einmitt góð hugvekja þess efnis á Vantrú í dag. Þetta er ekki meinlaus tískubylgja, þetta er skaðlegur faraldur og okkur sem erum ósmituð ber skylda til að róa gegn þessari óværu.

~~~~~~~~~~~~



Á bls. 39 ritar Indriði Aðalsteinsson á Skjaldfönn um veiðiþjófnað og utanvegaakstur. Byssubullur og ökuníðingar eru smánarblettur. Ölvaðir menn í torfæruakstri og hermannaleik, limlestandi rjúpur með ólöglegum skotvopnum og skiljandi þær eftir liggjandi í blóði sínu. Smánarblettur.

No comments:

Post a Comment