Friday, January 14, 2005

Það er grein eftir mig á Vantrú í dag.

-=-=-=-=-=-=-=-=-=-=-=-

Frétt dagsins: 7 Ísraelar féllu í árás herskárra Palestínumanna á Karni-varðstöðina á Gaza. Ha'aretz segir reyndar að þeir hafi ekki verið 7 heldur 6. Það er sennilega rétt. Þeir á Ha'aretz kalla árásina enn fremur hryðjuverkaárás. Það er nú ekki rétt hjá þeim. Þetta hefði verið hryðjuverkaárás ef hún hefði verið í Eilat eða Tel Aviv eða annarri ísraelskri borg, en þegar þjóð veitir innrásarher viðnám kallast það ekki hryðjuverk, þótt það sé gert með vopnum. Þarna voru semsagt að verki skæruliðar, ekki hryðjuverkamenn.

Ísraelar hafa nú þegar lokað Gazaströnd af, og það má búast við grimmilegum hefndum fyrir þetta tilræði. Óbreyttir borgarar verða drepnir - og fleiri skæruliðar búnir til. Þetta er sérstaklega óheppileg tímasetning vegna þess hvernig Abu Mazen er að reyna að miðla málum, fá herskáar hreyfingar til að slíðra sverðin, og funda með Sharon.

-=-=-=-=-=-=-=-=-=-=-=-

Það er alvarlegt mál hvernig aðstoðarmenn Sistanis æðstaklerks shííta í Íraq falla hver af öðrum. Tveir myrtir á skömmum tíma, og ekki langt síðan einn eða tveir aðrir voru myrtir líka. Færð hafa verið rök fyrir því að Ayatollah Sistani gæti verið mikilvægasti maður heims um þessar mundir -- í þeim skilningi, að úrslit Íraqsstríðsins gætu oltið á honum. Sistani hefur óskaplegan fjölda fylgismanna og nýtur mikillar virðingar. Þótt hann sé á móti hernáminu er hann hæglátur og trúr shííta-íslam, sem þýðir að hann, sem kennimaður, skiptir sér ekki af veraldlegum stjórnmálum ef hann kemst hjá því. Það er virðingarvert; stjórnmál og trú eiga ekki að fara saman. Sistani sýndi samt vald sitt fyrir nokkrum mánuðum, þegar hann gafa merki og hundruð þúsunda stuðningsmanna hans flykktust út á götur til (að mestu leyti) friðsamlegra mótmæla -- sem lauk jafn snarlega og þau hófust. Það geta margir hafið mótmælafund, en það er kúnst að segja nokkur hundruð þúsund manns að þetta sé orðið gott, nú skuli menn fara heim til sín. Síðan er skemmst að minnast þess, hvernig Sistani leysti Moqtada al-Sadr úr herkví í Najaf. Sadr var innikróaður, mönnum hanns fór fækkandi og Bandaríkjaher sótti stíft ... en átti þó erfitt að sækja að honum inni í Imam Ali moskunni, þar sem slíkt hefði kostað almennan trylling meðal shííta - og annarra múslima - fyrir utan það að Sadr hefði orðið píslarvottur í fremstu röð. Sistani kom á svæðið og með honum mannsöfnuður sem nam tugþúsundum, og hann leysti málið.

Hver ætli sé að drepa frá honum aðstoðarmennina? Ekki veit ég það fyrir víst (þótt herskáir súnnítar komi óneitanlega upp í hugann) en hver sem er að verki hlýtur að vera að reyna að stefna Íraq í almenna ringulreið, reyna að efna til borgarastríðs. Eru það asnarnir sem þykjast fylgja hinum svokallaða Zarqawi? Eða ætli þetta séu bandarískar leynisveitir, í divide et impera-leik? Eða ætli Zarqawi sé kannski á mála hjá Bandaríkjamönnum?

No comments:

Post a Comment