Friday, January 28, 2005

Mig dreymdi óvenjulega síðustu nótt



Í morgun - þ.e.a.s. að morgni fimmtudags 27. - vaknaði ég með orð klingjandi í kollinum. Ég mundi lítið af draumnum sem mig hafði verið að dreyma áður en ég vaknaði, en þetta eina orð. Í draumnum hafði ég endurtekið það, aftur og aftur, til þess að vera viss um að muna það. Ekki hvarflaði það að mér, reyndar, að reyna að muna það þegar ég vaknaði, enda vissi ég ekki í draumnum að ég væri sofandi, en af einhverjum ástæðum var mér mikið í mun að gleyma ekki þessu orði. Þessu nafni: Skanderbeg.



Ég vaknaði, og þetta var brakandi ferskt í huga mér. Skanderbeg. Skanderbeg. Mannsnafn. Það vill svo til að ég vissi hver Skanderbeg var: Hann var Albani, sem á miðöldum barðist frækilega fyrir frelsi Albana og gegn ásælni Tyrkja. Ég sá hans getið fyrir meira en ári í bókinni Heimsvaldastefnan og byltingin eftir Enver Hoxha, og var búinn að steingleyma honum.



Fyrst mig var nú að dreyma þetta hlaut ég að fara á Wikipedia og fletta Skanderbeg upp. Hér er grein um hann. Þetta var hinn merkilegasti maður og virðist alveg verðskulda þann sóma sem honum hefur verið sýndur. Að vísu var SS-sveit sem kenndi sig við hann í stríðinu, hann verðskuldaði það nú kannski ekki. Nafnið er víst ekki albanskt að uppruna, það er samansett úr Alexander -> Iskander -> Skander og bey, sem var aðalstitill hjá Ottómönum, og varð að beg í meðförum Albana. Skanderbeg þýðir þannig Alexander herra eða Alexander lávarður og vísar til Alexanders mikla, en réttu nafni hét Skanderbeg víst Gjergj Kastrioti.



Jamm, merkilegt þetta.

No comments:

Post a Comment