Thursday, January 6, 2005

Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag (bls. 47) er vitnað í áróðursgrein gegn Palestínumönnum, af heimasíðu SUS. Þar er talað um stöðu samkynhneigðra í Palestínu. Eftir því sem ég kemst næst er stöðu samkynhneigðra í Palestínu mjög ábótavant, eins og reyndar í flestum öðrum arabalöndum. Ég skil samt ekki hvers vegna höfundurinn, Friðjón R. Friðjónsson, hnýtir í því samhengi í Palestínumenn sem slíka eða vini þeirra á Íslandi. M.a. segir hann:

Íslenskir aðdáendur Palestínu þegja yfir þessu, aðdáendur morðingjanna, fólk eins og Sveinn Rúnar Hauksson og Björk Vilhelmsdóttir kalla á Íslendinga að styðja þessi morðóðu stjórnvöld.


Kommon, er þetta sanngjarnt? Er það sanngjarnt að kalla fólk "aðdáendur morðingja" ef það styður þjóð í frelsisbaráttu? Eða ætli til séu heimildir fyrir því að téð fólk hafi tekið afstöðu með illri meðferð á samkynhneigðum eða tekið afstöðu með hryðjuverkamönnum? Og "morðóðu stjórnvöld"?



Það er eitt sem ég tel ástæðu til að leggja áherslu á. Deilurnar í Palestínu eru hvorki fyrst og fremst átök milli Ísraelsstjórnar og Palestínsku heimastjórnarinnar, né milli ísraelsku þjóðarinnar og palestínsku þjóðarinnar. Það sem er á seyði er að Ísraelsstjórn herjar á palestínsku þjóðina. Ísraelsstjórn nýtur stuðnings Bandaríkjastjórnar og er að reka erinda valdastéttarinnar í Ísrael og Bandaríkjunum. Hinn almenni Ísraeli á ekki hagsmuna að gæta, að ísraelsk stjórnvöld herji á nágranna hans. Hinn almenni Ísraeli hefur hagsmuni af því að lifa í friði við nágranna sína, friði sem annars vegar stjórnvöld og hins vegar öfgafullir zíonistar leitast stöðugt við að spilla.

Á hinn bóginn er palestínska þjóðin, fátæk og undirokuð, tvístruð milli margra landa og að miklu leyti á vergangi. Hverjir eru bandamenn hennar? Í reyndinni á hún sér fáa virka bandamenn. Palestínska heimastjórnin hefur ekki staðið sig eins vel og hún ætti að gera við að reka erinda síns fólks -- fyrir utan að hún er ekki einu sinni fulltrúi allra Palestínumanna (flóttamenn eru undanskildir). PLO eru hins vegar kallaðir fulltrúar palestínsku þjóðarinnar sem slíkrar. Þeir sem eru raunverulegir vopnabræður Palestínumanna eru stéttarbræður þeirra um víða veröld. Næstum allir Palestínumenn teljast tvímælalaust til stéttar eignalausra vinnandi manna, eins og reyndar flestir aðrir arabar, eins og flestir Ísraelar og reyndar eins og langflest fólk í veröldinni.

Þannig að svona lítur dæmið út: Valdastétt Ísraels og Bandaríkjanna herjar á palestínsku þjóðina og þrengir að henni á alla lund. Á sama tíma líður ísraelskur almenningur einnig þjáningar: Skelfingu vegna árása herskárra Palestínumanna, tortryggni gagnvart nágrönnum sínum, bágt atvinnuástand, mannfórnir í formi fallinna hermanna og fleira. Palestínsku heimastjórninni ráða, sem stendur, menn sem reka erinda umbjóðenda sinna með minna harðfylgi en þeir ættu að gera, en hafa á hinn bóginn lítið svigrúm, enda í raun upp á náð og miskunn Ísraela og Bandaríkjamanna komnir og því í erfiðri stöðu. Fyrir utan það eru mjög margir Palestínumenn ekki búsettir á yfirráðasvæði Palestínsku heimastjórnarinnar og hún rekur því ekki erinda þeirra að nauðsynjalausu. Í umheiminum standa margar ríkisstjórnir með Bandaríkjastjórn og Ísraelsstjórn í þessum hernaði. Fæstar gera það opinberlega, en flestar gera það þó í raun. Ríkisstjórnir arabalandanna líka. Ef ekki beint, þá með aðgerðaleysi. Víðast hvar í veröldinni stendur almenningi ógn og skelfing af framferði Ísraelsstjórnar og þjáningum fórnarlamba hennar, en fær þó lítið aðhafst, ýmist vegna þess að hann skorti stéttarkennd, vegna þess að hann sé tvístraður, eða vegna þess að hann eigi sér ekki sjálfstæðan málsvara.



Friðjón R. Friðjónsson hallar réttu máli í grein sinni, hvort sem það er af yfirlögðu ráði eða ekki. Það er miður. Svo orð mín skiljist örugglega rétt vil ég taka þetta fram: Ég óska frelsis fyrir þjóðir Ísraels og Palestínu og annarra landa og þar sem fólk er kúgað eða þjáist, þá óska ég þess að kúguninni eða þjáningunni verði aflétt tafarlaust. Til að sú niðurstaða fáist þarf að skoða hlutina í samhengi, sjá hverjir eru í alvörunni fórnarlömb og hverjir eru í alvörunni sökudólgar og allt þar á milli.

No comments:

Post a Comment