Tuesday, January 4, 2005

Sjónvarpsraunir



Ég hugsa að það hafi verið 1986 eða 1987, að ég sat í sófa á efri hæðinni heima hjá mér, og var að horfa á sjónvarpið, sem stóð á borði og sneri að sófanum. Skyndilega ... án þess að nokkur mannlegur kraftur kæmi þar nálægt ... datt sjónvarpið fram fyrir sig, hlunkaðist í gólfið og var örent. Það sem verra var, það lenti ofan á uppáhalds He-Man-karlinum mínum, Man-At-Arms. Hann sakaði reyndar ekki. Í minningunni var borðið þannig á ganginum að það var í raun ekki gengt um hann. Þar sem ég var ekki nema 5 eða 6 ára þegar þetta var, þá hygg ég að einhver smáatriði hafi skolast til. En allavega var sjónvarpið ónýtt.

Farið var á stúfana og nýtt sjónvarp keypt, þetta líka glæsilega Luxor-tæki. Það var meira að segja hægt að fá fjarstýringu með því (sem við fengum okkur reyndar aldrei) og það var nýmóðins "tölvuheili" sem tók heila eilífð að ræsa sig eða stilla sig eða eitthvað. Það tók lengst þegar uppáhalds þátturinn manns var í þann mund að byrja. Í fyllingu tímans varð komist fyrir tæknilega örðugleika með þetta sjónvarp og það þjónaði tilgangi sínum eins og til var ætlast ... allt þar til nú í haust.

Myndin hafði lengi verið óskýr, stöðvarnar brenglaðar og horfnir nokkrir takkar af því, sem ónefndur heimilismaður braut af í brjálæðiskasti. Innviðirnir voru svo rykugir að eldhætta var líklega veruleg, í skraufþurru timburhúsinu. En það var allavega hægt að horfa á það. Þangað til í haust.

Nýja sjónvarpið gaf semsé upp öndina. Það var aðeins 17 eða 18 ára gamalt. Ágætis ending, býst ég við. Það kom karl á sendibíl og sótti það -- og rak upp stór augu. Luxor-tæki hafa víst ekki verið flutt til Íslands í ansi mörg ár. Kannski tuttugu.

Það var svosem ekki mikill asi á heimilismönnum að kaupa nýtt. Sjaldan horft á sjónvarp hér á bæ. Samt var það nú gert, í desember, en gamla gafst endanlega upp í september eða október.



Af hverju eru annars öll nýleg rafmagnstæki grá á litinn? Er það eitthvað flottara? Hvað ef ég kæri mig ekki um grá tæki? Hvað ef ég vil frekar svört?

No comments:

Post a Comment