Sunday, January 30, 2005

Íraq, Nepal, Palestína og meira um róttæka pólítík á Íslandi



1. Palestína



Abbas og Sharon ætla að funda 8. febrúar. Ég bíð með eftirvæntingu. Ekki mikilli bjartsýni, verð ég að viðurkenna, en áhuga. Ég hef nákvæmlega enga trú á friðarvilja Sharons, en hvernig sem þessi fundur fer, þá hlýtur hann að hafa eitthvað merkilegt í för með sér. Meistari Avnery skrifar grein um þetta þar sem hann lýsir tilfinningum manna þessa stundina.

~~~~~~~~~~~~~~~~



2. Meira um róttæka pólítík á Íslandi





Spurt var:

Hvað koma fyrir?

Fara allir vinstrimenn yfir á miðju með tímanum,

meðan hægri menn fara lengra og lengra til hægri?




Það er nú vel þekkt sú almenna tilhneiging til að fólk verði minna róttækt með aldrinum eða, réttara sagt, sé róttækt þegar það er ungt en hætti svo að nenna þessu. Ég hef ekki tæmandi svör á reiðum höndum en held að þarna séu a.m.k. þrír faktorar að verki: (a) Fólk verður þreytt á mjög miklu pólítísku starfi sem skilar yfirleitt frekar litlum árangri og (b) fólk sættir sig við að heimurinn sé eins og hann er - ófullkominn og ekki alltaf sanngjarn. Þar má bæta við (c) að stundum fylgir fólk einhverjum leiðtogum að málum, þeir bregðast vonum þess, og einhvers konar uppgjafartilfinning fyllir fólk. Án efa eru fleiri þættir sem spila stóra rullu, en þetta er þar á meðal.

Þáttur (a) er sá sem ég hef mest velt fyrir mér. Ef pólítískt starf ber ekki árangur hlýtur maður að kafa ofan í ástæðurnar fyrir því. Ástæðurnar geta verið býsna fjölbreyttar, og ekki allar sem hinn ungi róttæklingur hefur á valdi sínu. Byltingarsinnaður málflutningur á t.d. erfitt uppdráttar í á tímum hagsældar, þegar auðvelt er fyrir valdastéttina að friðþægja undirstéttina svo hún haldist nokkurn veginn ánægð. Þá er jarðvegurinn ekki frjór fyrir miklar breytingar. Annað getur verið að hreyfing sé annað hvort ekki nógu vel skipulögð, ellegar þá of innhverf, til að koma máli sínu til skila. Þá er líka vel þekkt hvernig hugsjónir og málamiðlanir fara illa saman og mikillar klofningstilhneigingar gætir oft meðal þeirra sem berjast af hugsjón.

Um þætti (b) og (c) er í sjálfu sér ekki svo mikið að segja. Auðvitað getur maður spurt sig hvers vegna fólk ætti að vera að sætta sig við að heimurinn sé ófullkominn og ósanngjarn og um leið hvort þetta - að fólk sætti sig við það - sé ekki einmitt attitjúdið sem veldur því að hann er það áfram. En það hlýtur líka að viðurkennast, til dæmis, að fólk verður ófúsara til að taka áhættu þegar það t.d. eignast börn eða er farið að vinna sig upp metorðastiga þjóðfélagsins. Því er ekki að neita. Um þátt (c) hefur verið komist svo að orði, að þegar heil hreyfing snúist um einn mann eða fáa menn, þá sé einfalt að spilla henni: Það þurfi bara að spilla þessum eina eða þessum fáu. Með öðrum orðum, í hreyfingu má enginn vera ómissandi og blind undirgefni eða trú á leiðtoga eða kennivald má ekki sjást.

~~~~~~~~~~~~~~~~



3. Íraq, Nepal





Af kosningum í Íraq. Talað um 60% kjörsókn og 27 fallna á kjördag. Súnní-arabar hafi tekið lítinn þátt. Það verður fróðlegt að fylgjast með næstu vikurnar og mánuðina. Í allri manns róttækni-bölsýni leynist þrátt fyrir allt óskhyggja um að nú fari góðir tímar í hönd. Nokkuð sem ég efast stórlega um, en get þó ekki neitað því að ég vona það. Nema hvað. Allavega, þá talar Styrmir Gunnarsson um það í Reykjavíkurbréfi dagsins, að þeir sem neiti að taka þátt í kosningunum og reyni með ofbeldi að hindra þær eigi "ekki skilið að kallast uppreisnarmenn" heldur séu bara morðingjar. Um leið og þetta má kannski segja um suma uppreisnarmennina (t.d. lið þessa svokallaða "Zarqawis"), að þeir séu umfram annað afturhaldssamir og ruddalegir asnar, þá verður það að sama skapi ekki sagt um andspyrnuna sem slíka, sem heyr réttmæta þjóðfrelsisbaráttu. Um leið er ósanngjarnt að segja að "þeir eigi ekki skilið að kallast uppreisnarmenn" sem eru á móti þessum kosningum ... því þrátt fyrir allt eru þessar kosningar bara sjónarspil. Tilvonandi ríkisstjórn Íraqs mun í fyrsta lagi ekki hafa alvöru umboð til að framfylgja vilja þjóðarinnar, að Bandaríkjaher fari úr landi, þar sem hún mun ekki hafa stjórn á landinu án hans. Auk þess mun hún ekki njóta stuðnings Bandaríkjahers til að vinna gegn hagsmunum bandarísku valdastéttarinnar, svo sem með því að halda áfram þjóðnýtingu olíulindanna.

Í Nepal standa líka kosningar fyrir dyrum. Þar þarf að rekja smá forsögu: Þegar konungsfjölskyldan var myrt (sumir segja af vestrænum sérsveitarmönnum) tók yngri bróðir konungs, Gyanendra, við krúnunni. Hann kvaðst verða að "tryggja stöðugleika í landinu" svo hann leysti um þjóðkjörið þingið, sem þó hafði ekki mikið vald. M.ö.o. sá hann það sem sjálfsagt hlutverk krúnunnar að fara einhliða með framkvæmdavaldið í krafti hersins. "Stríð fólksins" sem maóistar hófu 1996 var þá vel á veg komið, þótt enn ættu maóistar í vök að verjast. síðan hafa þeir sótt mjög á, og vantar nú bara herslumuninn að yfirtaka ríkisvaldið, kollsteypa einveldinu og reyna að setja á laggirnar alþýðulýðveldi.

Nú fyrir skemmstu skipaði Gyanendra konungur kanslara (hann er að vísu kallaður "forsætisráðherra" en ég kalla hann kanslara, sem er samsvarandi titill í einveldi), Deuba að nafni. Deuba kanslari hefur umboð konungsins til að leita sátta við maóista og til að undirbúa kosningar nýs þings, sem mun hafa takmarkað vald og vera háð konungi. Maóistarnir hafa ekki viljað tala við Deuba vegna þess að hann hefur aðeins umboð til að reyna að "semja frið" en ekki til að koma til móts við kröfur maóista, sem fela m.a. í sér að konungdæmið verði aflagt. Kosningarnar, sem brátt stendur til að verði haldnar, ætla maóistar að sniðganga, og er viðbúið að ofbeldi verði áberandi af þeirra hálfu og jafnvel að lítið verði varið í þær. Þess má reyndar geta að bandarískir ráðamenn hafa sagt að í Nepal "standi Bandaríkin við hlið lýðræðisins gegn hryðjuverkamönnunum" og meina þá að þau styðji einvaldskonunginn gegn maóistunum, sem njóta stuðnings meirihluta þjóðarinnar!

Kosningarnar í Nepal verða skrípaleikur svo maóistarnir neita að taka þátt í þeim, neita að viðurkenna þær, og munu sennilega reyna að hleypa þeim upp. Vegna þess að þessar kosningar verða einmitt ekki annað en skrípaleikur, þá þykir mér þessar ráðstafanir Prachanda & Co. hreint ekki óeðlilegar.

Þá er spurningin: Hvað með kosningarnar í Íraq? Getur framsækin pólítísk hreyfing í Íraq tekið þátt í þeim? En viðurkennt þær? Mitt svar er: Já, hún getur viðurkennt þær og tekið þátt, en hún getur líka sniðgengið þær og reynt að hindra þær. Það fer eftir atvikum. Hreyfing sem tekur ekki þátt á þeim forsendum að kosningarnar séu afskræming á lýðræði, andvana fæddur pólítískur ónytjungur og heimastjórnargríma fyrir nakta heimsvaldastefnu bandaríska auðvaldsins hefur út af fyrir sig rétt fyrir sér, og ef hún kýs að berjast gegn því að kosið verði innan þessa skrípa-ramma, þá er hún að berjast fyrir málstað sem er réttur, sem slíkur. En á hinn bóginn, þá má líka hugsa sér að framsækin hreyfing meti stöðuna þannig, að rétt sé að taka þátt í þessu, kosningum og, ef hún nær brautargengi, þá geti hún beitt sér fyrir framsæknum stefnumálum. Þegar málaliðar bandarísku heimsvaldastefnunnar ráðist gegn henni komist hreyfingin um leið í stöðu nokkurs konar fórnarlambs og verði séð sem sá aðili sem vondu heimsvaldsinnarnir réðust á og eignast samúð þjóðarinnar og umheimsins í næstu lotu þjóðfrelsisbaráttunnar.

Með öðrum orðum, framsækin hreyfing í Íraq hlýtur að gera það upp við sig sjálf hvaða afstöðu hún tekur og á hvaða forsendum. Því er hins vegar ekki að neita að "sunni supremacist" stríðsmenn sem kenna sig við þennan Zarqawi (sem ég veit ekkert hvort er til eða ekki) eru sannarlega ekkert annað en morðingjar - þeirra málstaður á líka lítið skylt við framsækni, þegar þeir eru aðallega að lumbra á öðrum Íröqum og leiðtogum shííta. Einmitt þess vegna spyr ég mig, hvort þeir séu í alvörunni það sem þeir segjast vera. Nú leikur enginn vafi á því að hrottafengnir afturhaldsseggir eru til í alvörunni og út af fyrir sig er mjög trúverðugt að þeir séu til í Íraq eins og annars staðar. En það er tortryggilegt hvað spjót þessara "Zarqawi" manna virðast einkum beinast að öðrum Íröqum og hvernig þeirra verk virðast aðallega vinna í þá átt að kljúfa samstöðu írösqu þjóðarinnar gegn bandarísku heimsvaldastefnunni. Já, ég spyr mig, en í rauninni þykir mér sennilegast að bakdyramegin hafi útsendarar Bandaríkjamanna sjálfra hönd í bagga til að veikja andspyrnuna og láta hana líta verr út í augum umheimsins. Þetta "power base" er of girnilegt fyrir ágjarna siðblindingja til að láta það ónotað.

~~~~~~~~~~~~~~~~



4. Að lokum:



Talandi um Íraq, þá er hérna stuttur mp3-fæll þar sem Condolezza Rice og Colin Powell lýsa því yfir, bæði tvö, að Saddam eigi engin gereyðingarvopn og hafi ekki burði til að koma sér þeim upp. Það sé vegna viðskiptabannsins góða. Sagt í febrúar og júlí 2001.

~~~~~~~~~~~~~~~~

Grein um hina óhugnanlegu tölvukubba-ígræðslu sem verið er að hrinda af stokkunum í Bandaríkjunum í "öryggisskyni". Það verður hægt að fylgjast með öllum, allsstaðar. Auðvitað "bara notað á illmenni" - múslima og annan slíkan lýð. Síðan færast stjórnarandstæðingar inn í mengið "illmenni" og - ef grunur minn reynist réttur - einnig gyðingar innan ekki svo margra ára.

~~~~~~~~~~~~~~~~

Grein um óþekktar jarðhræringar við Andaman- og Nicobar-eyjar. Sumir vilja meina að nýafstaðið tsunami hafi aðeins verið byrjunin á ennþá meiri og harkalegri náttúruhamförum.

~~~~~~~~~~~~~~~~

Hvernig er eiginlega hægt að hitta með leysigeisla beint í augað á flugstjóra um borð í þotu á ferð, þegar sá sem heldur á leysigeislabendlinum stendur á jörðu niðri? Ég næ því ekki.

No comments:

Post a Comment