Sunday, January 9, 2005

Fýluferð í Kringluna og eitthvað



Fór í gær í Kringluna með móður minni. Rakst þar á þetta og þetta fræga fólk. Ætlaði annars að kaupa skó. Fann eina skó sem litu ágætlega út en þeir voru óþægilegir. Næstu skór voru ekki til í minni stærð og þeir þriðju voru óþægilegir líka. Afgreiðsludaman, sem var ekki í spariskapinu sínu, spurði hvort ég vildi fá ECCO-skó. Ég sagðist ekki vilja sjá þá. Hún spurði hvort mér þættu þeir óþægilegir og ég ítrekaði að ég vildi ekki sjá þá. Er það ekki afdráttarlaust svar? Þegar hún hélt samt áfram að bjóða mér þá og svo einhverja aðra svipaða og eitthvað, þá nennti ég þessu ekki lengur. Skókaup bíða betri tíma.

~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~



Næst fórum við í Hagkaup. Ég vissi ekki fyrr en rétt áðan að það væri til eitthvað sem héti ýsa.is. Keyptum meðal annars kaffi. Mér er, almennt séð, lítið yndi af því að kaupa kaffi (þótt ég láti mig reyndar hafa það), vegna þess hverjar aðstæður kaffibænda í þriðja heiminum. Nú eru til sölusamtök þriðjaheims-kaffibænda, sem koma sínum vörum milliliðalaust á markað á Vesturlöndum. Það er því hægt að kaupa „óarðrænt“ kaffi sem maður getur drukkið með góðri samvisku. Þetta kaffi skilst mér að sé m.a. hægt að fá á kaffistofunni í hinu nýja safnaðarheimili Neskirkju. Maður þarf nú að tékka á því, trúleysinginn. Smekkur fyrir mannúðlegum hressingardrykkjum lætur trúflokkalandamæri ekki stöðva sig. Ég ætla einhvern tímann að líta í kaffi í Neskirkju. Neskaffi.

~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~



Heima hjá mér:

Ég: Má ég fá mér brauðsneið?

Móðir mín: Já, auðvitað máttu það.

Ég: Má ég setja smjör og álegg á hana?

Móðir mín: Nema hvað, þarftu að spyrja?

Ég: Má ég það ekki?

~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~ ~



Mér finnst ársuppgjör almennt séð leiðinleg.

No comments:

Post a Comment